Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að Ísland vanræki þær skyldur sem leiða af meginreglu EES-réttar um að ríkið geti bakað sér skaðabótaábyrgð þegar reglum Evrópska efnahagssvæðisins er ekki fylgt. Þetta kemur fram í rökstuddu áliti sem stofnunin birti í dag en þar er áréttað að meginreglan um skaðabótaábyrgð ríkja taki einnig til brota dómstóla. Taka verði mið af þessu í íslenskum lögum.
Í álitinu er sérstaklega minnst á 116. gr. laga um meðferð einkamála og 24. gr. dómstólalaga. Fullyrt er að íslensk lög, eins og þau hafa verið túlkuð af dómstólum, gefi einstaklingum ekki færi á að draga ríkið til ábyrgðar vegna skaða sem þeir verða fyrir þegar æðsta dómstig fer á svig við reglur EES.
Athugasemdir