„Ekkert sérstaklega,“ svarar Kári Pálsson, spurður hvort hann vilji að gerð sé frétt um það sem hann er að gera.
Kári, sem verður ellefu ára á næstu dögum, stundar að tína rusl í Vesturbæ og miðbæ Reykjavíkur. Hann fær ekki greitt fyrir það, en gerir það til þess að bæta umhverfið.
Í dag gekk Kári um skólalóð Vesturbæjarskóla, þar sem hann gengur í skóla, með ruslatínu og hreinsaði til. Síðustu tvo daga hefur hann fyllt 45 ruslafötur. „Við fylltum tíu á Grandanum, eitthvað hérna í kring og örugglega um 15 niðri í bæ,“ útskýrir hann og lyftir svartri ruslafötu. Í dag var hann einn, en undanfarið hefur hann notið liðsinnis frænku sinnar, Ásdísar Atladóttur.
Hvers vegna byrjaðirðu á þessu?
„Ég veit það ekki," svarar hann. „Vegna þess að Íslendingar eru miklir sóðar.“
Kári útskýrir framlag sitt til fegurra umhverfis einnig með því að hann þekkir nokkra starfsmenn Reykjavíkurborgar, sem sammæltust honum um að hreinsunarstarfið væri góð hugmynd.
Hreinsar garða í nágrenninu
Kári er tiltölulega nýbyrjaður að stunda almenna ruslahreinsun. Hann hefur þó áður stundað hreinsunarstarf. Það felst aðallega í að slá garða í nánasta nágrenni og hjá ættingjum. „Við förum og bönkum upp á. Við erum með sláttuvél,“ segir hann. Með honum hafa verið frænka hans, skólafélagar og vinir.
„Við erum líka að skafa snjó á veturnar. Svo er garðurinn minn alltaf stútfullur af snjó vegna þess að við flytjum hann í garðinn. Við sköfum líka mosa á milli hellna og tökum gras af götunum.“
„Þessi góðverk eru öll að hans frumkvæði“
Kári segist ekki biðja um greiðslu fyrir störf sín í einkagörðum, en ef fólk bjóðist til að greiða láti hann það ráða greiðslunni.
Dugnaður Kára er sjálfsprottinn. „Þessi góðverk eru öll að hans frumkvæði,“ segir móðir hans, Dagrún Ellen Árnadóttir. Hún segist hafa lánað honum sláttuvél eftir að hann bað um hana. „Hann er frumkvöðullinn í þessu. Hann hefur alltaf haft áhuga á framkvæmdum. Hann hefur til dæmis verið í allt sumar að grafa fyrir dreni í garði frænda síns.“
Fólki er spurn
Kári segist hafa fundið fyrir því að fólk hefur sýnt honum áhuga þegar það verður hans vart við ruslatínsluna. „Það hefur haft áhuga og spurt út í hvaða dugnaður þetta er. Ég segi bara mér finnst þetta gaman.“
„Henda þessu frekar í ruslatunnuna“
Meginparturinn af ruslinu sem hann hirðir er plast, pappír og hvers kyns umbúðir utan af mat. „Þetta er mest plast og pappír og umbúðir af mat. Mér finnst líklegt að fólk hendi þessu bara. Eða að ruslatunnur séu fullar.“ Hann er með skilaboð til fólks: „Henda þessu frekar í ruslatunnuna heldur en á jörðina,“ segir hann.
Að sögn Kára verður framhald á hreinsunarstarfinu. Hann lyftir ruslatínunni og segir afsakandi að á næstunni muni hann öðlast betri ruslatínu. Og hann trúir því að fjölga muni í hópi ungra sjálfboðaliða í ruslahreinsun.
„Við eigum eftir að verða miklu fleiri,“ segir hann.
Athugasemdir