Stundin hefur spurt alla frambjóðendur* til forseta tíu spurninga er varða nokkur af helstu deilu og álitamálum líðandi stundar. Hér ber að líta svör þeirra við fimmtu spurningunni:
Ert þú fylgjandi ríkisreknum fjölmiðli?
Andri Snær Magnason
Já.
Ástþór Magnússon
Lykillinn að lýðræðisumbótum liggur hjá fjölmiðlum sem því miður hafa allt of mikið verið að ráðskast með lýðræðið fyrir sérhagsmuni eigenda sinna eða valdaelítuna.
Ítrekað hafa einstaka fjölmiðlar spilað fram forsetaframbjóðendum sem þeim eru þóknanlegir og notað skoðanakannanir og umfjöllun til skoðanamyndunar almennings.
Ríkisfjölmiðlarnir hafa ekki staðið sig þegar kemur að hlutleysi í aðdraganda kosninga og ítrekað brotið fjölmiðlalögin. Ekki var að ástæðulausu að ég tilkynnti framboð nú í janúar með bréfi til alþjóðlegs kosningaeftirlits ÖSE.
Fyrir fjórum árum stökk ein stjarna RÚV beint af skjánum í forsetaframboð. Einn bakhjarl framboðsins var stjórnarformaður ríkisfjölmiðilsins. Kastljós sagðist ekki geta tekið viðtöl við forsetaframbjóðendur af þessum sökum og varð óstarfhæft sem vettvangur kosningaumræðu. Forsetaframboði RÚV var leikstýrt af leikstjóranum sem bjó til grínkarakterinn Silvíu Nótt og borgarstjórann Jón Gnarr. RÚV tjáði mér 20. apríl 2016 að enn geti Kastljós ekki tekið viðtöl við forsetaframbjóðendur en þá mætti ég í fyrsta viðtal í myndver RÚV fyrir þessar kosningar sem er grínþátturinn Hraðfréttir. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Hollt og nauðsynlegt lýðræðinu að kryfja þetta til mergjar.
Að undanförnu hef ég horft uppá aðra svipaða leiksýningu RÚV. Hófst með vali forsetaefnis úr sagnfræðideild Háskóla Íslands og út í nánast alla umfjöllun um hvernig forseti Íslands myndi eða ætti að taka á hneykslismáli forsætisráðherra. Sama hvort horft væri á RÚV, hlustað á Rás1, Rás 2 allsstaðar var sama forsetaefnið. Sett var upp Facebook like-síða, eins og fjórum árum áður fyrir Kastljósstjörnuna, og síðan keyrðar kostaðar Facebook auglýsingar til að fá like. Ég get auðvitað ekkert fullyrt en þetta lítur út eins og almenningur hafi verið látinn halda að sjálfsprottinn frambjóðandi hafi verið á ferð þegar raunin var sú að þessu var leikstýrt.
Útspil forseta að bjóða sig fram aftur hefur hugsanlega sett strik í þetta framboðsplan RÚV-klíkunnar. Áhugavert er að sá forseti komst einnig til valda fyrir atbeina og misnotkun fjölmiðla en hans helsti stuðningsmaður og framkvæmdastjóri framboða hans var framkvæmdastjóri Norðurljósa sem nú heitir 365 miðlar.
Niðurstaðan er að það skiptir engu máli hvert er eignarhaldið. Það sem máli skiptir er að regluverkið um lýðræði taki á misnotkun fjölmiðla og að þungar refsingar og fangelsisdómar liggi við ef fjölmiðlafólk misnotar aðstöðu sína.
Elísabet Jökulsdóttir
Jú, helvítis Ríkisútvarpið. Ég náttúrulega elska Ríkisútvarpið. Það er svo fræðandi og skemmtilegt og ákveðinn klassi yfir því. Gaman þegar eitthvað er svona gamaldags, og tengir mann við gamla tíma. Ég vil endilega hafa það áfram.
Guðni Th. Jóhannesson
Ég held að við þurfum að hafa ríkisrekinn fjölmiðil eins og grannþjóðirnar. Hins vegar getur vel verið að sá fjölmiðill eigi ekki að vera á auglýsingamarkaði. Eigi ekki að keppa við einkarekna fjölmiðla um rétt til þess að sýna enska boltann eða formúluna eða eitthvað slíkt, það er útfærsluatriði. En það er nánast hluti af þjóðarímynd og þjóðarsál að hafa einn fjölmiðil sem hefur það beinlínis að hlutverki að ná til allra, gegna skyldum við alla. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það verða aldrei allir á eitt sáttir með stefnu ríkisfjölmiðils, en ég hygg að kostirnir séu fleiri en gallarnir.
Guðrún Margrét Pálsdóttir
Já, ég tel gott að það sé til ríkisrekinn fjölmiðill sem sinnir þjónustu og upplýsingaskyldu við landsmenn á faglegan og hlutlausan hátt. Það þarf hins vegar að gæta þess að hann sinni þeirri skyldu því ef hann gerir það ekki er alveg eins gott að leggja hann niður.
Halla Tómasdóttir
Já, ég er það svo fremi sem ríkisrekinn fjölmiðill fær tækifæri til að vera einn af hornsteinum menningarlífsins í landinu. Ríkisrekinn fjölmiðill getur gert það sem aðrir gera ekki - það er að búa til vandað íslenskt dagskrárefni af öllu tagi. Við eigum að notað hljóðvarp og sjónvarp til að spegla okkur sjálf, kafa í menningararf okkar, bæði gamlan og nýjan, og sjá okkur í þjóðlegu og alþjóðlegu samhengi. Þetta getur vel rekinn ríkisfjölmiðill, með góðu dagskrárgerðarfólki, gert. Síðast en eki síst verðum við að tryggja óháðan og faglegan fréttaflutning og fréttaskýringar um innlend og erlend málefni - og það gerir góður ríkisrekinn fjölmiðill öðrum betur.
Hildur Þórðardóttir
Já, mjög. Algjörlega. Þú sérð það nú bara í kosningunum. Auðvitað er ég hlynnt RÚV. Þeir standa sig svakalega vel í þessari kosningaumfjöllun. Að gefa okkur tækifæri til að vera með ókeypis auglýsingar. Þeir eru að gera þætti um hvern og einn frambjóðanda. Fylgja okkur eftir og alls konar viðtöl, misgóð. En þeir standa sig mjög vel. Þú sérð nú bara Stöð 2. Hugsaðu þér ef við værum bara með tvær þannig stöðvar, hvað það væri ósanngjarnt og ömurlegt og ólýðræðislegt.
Sturla Jónsson
Ég vil eiginlega bara leggja hann niður. Þetta er ekki að þjóna okkur fólkinu í landinu. Það mætti kannski vera ein rás sem að væri ríkisrekin með kannski 5-6 starfsmönnum, annað höfum við ekkert við að gera. Mér sýnist aðrir fjölmiðlar í landinu alveg geta sinnt menningarstörfum og því sem er að gerast. Sé enga ástæðu fyrir því að moka milljörðum í þetta sem gætu annars farið í heilbrigðiskerfið eða skólakerfið.
* Frambjóðandinn Davíð Oddson fékk spurningarnar sendar og tækifæri til þess að svara þeim en hefur ekki gert það. Berist svör frá honum mun þeim verða bætt við jafnóðum.
Athugasemdir