Bretland gengur úr Evrópusambandinu (ESB), fyrst sjálfstæðra ríkja, eftir nauman meirihluta brotthvarfssinna í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Breska pundið hafði fallið um 5% gagnvart krónunni á hádegi í dag og hefur pundið ekki verið veikara gagnvart Bandaríkjadal frá árinu 1985.
Brotthvarfinu hefur verið lýst sem „dýrðlegu tækifæri“ af Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóra London, eða „katastrófísku fyrir landið, restina af Evrópu og heiminum,“ af fyrrverandi Evrópumálaráðherranum Keith Vaz.
Hópur reiðs fólks púaði á Boris Johnson, borgarstjóra Lundúna, í morgun vegna brotthvarfs Bretlands úr ESB.
Stuðningur við brotthvarf úr ESB skiptist greinilega eftir landsvæðum í Bretlandi, þar sem íbúar í Skotlandi, Norður-Írlandi og höfuðborginni, London, kusu afgerandi með áframhaldandi ESB-aðild. Tæplega 60% Lundúnabúa vildu vera áfram og 62% Skota. Samtals völdu 52% breskra kjósenda að yfirgefa Evrópusambandið en 48% vildu vera áfram.
Hvers vegna brethvarf?
Í greiningu BBC á ástæðum þess að brotthvarf varð ofan á kemur fram að úrsögnin úr ESB tengist ekki minna sjálfsvitund og sjálfsmynd Breta, heldur en pólitískri og efnahagslegri framtíð.
Sambandssinnar höfðu varað við alvarlegum efnahagslegum afleiðingum þess að yfirgefa Evrópusambandið. Þær fullyrðingar að Bretar yrðu fátækari við brotthvarfið virðast hafa virkað öfugt ofan í þá sem töldu sig hafa verið fátæka innan Evrópusambandsins síðustu áratugi.
Þar kemur einnig fram að brotthvarfssinnar hafi haldið fram að úrsögnin hefði í för með sér að stjarnfræðilegar upphæðir myndu sparast og þær mætti nýta til heilbrigðismála. Greining á fullyrðingunni leiddi þó í ljós að upphæðirnar voru afvegaleiðandi, þar sem stærsti hluti þess sem Bretar borga til Evrópusambandsins skilar sér aftur í formi styrkja, til dæmis tengdum landbúnaði og menntun.
David Cameron tilkynnir um afsögn sína í morgun.
Eldra fólk mætir vel á kjörstað
Stór hluti af kosningabaráttu brotthvarfssinna sneri að innflytjendamálum og flóttamannamálum.
Þá skipti miklu máli að eldra fólk er mun líklegra til að mæta á kjörstað heldur en yngra. 78% þeirra sem eru yfir 65 ára kusu í síðustu þingkosningum, andstætt 43% 18 til 24 ára og 54% 25-34 ára. Þrír af hverjum fimm 65 ára og eldri vildu yfirgefa ESB samkvæmt nýlegri könnun.
Í hópi þeirra sem vildu úrgöngu er eldra fólk, fólk í dreifbýli og lítið menntaðir mest áberandi, samkvæmt könnunum fyrir kosningarnar.
Samkeyrsla á niðurstöðum koninganna og samsetningu íbúa eftir kjördæmum staðfestir fylgni milli hás aldurs og lágrar menntunar og viljans til að yfirgefa Evrópusambandið.
Eldra fólk og minna menntaðir vildu fara
Í könnun Yougov fyrir atkvæðagreiðsluna sýndi sig að þeir sem væru undir 30 ára að aldri voru líklegastir til að vilja vera áfram í ESB, eða 73% þeirra. Hins vegar vildu 63% þeirra sem eru yfir 60 ára aldri ganga úr ESB.
70% þeirra sem hafa háskólagráðu vildu vera áfram í ESB, samkvæmt könnuninni.
Níu af hverjum tíu starfsmönnum háskóla sögðust styðja áframhaldandi veru í ESB í sjálfsvalskönnun Times Higher Education á dögunum. 40% svarenda sögðust líklegri til að yfirgefa Bretland ef valin yrði úrganga, en 1% ef valin yrði áframhaldandi vera.
Reiknað er með að mörg ár taki að slíta samband Bretlands við ESB.
Athugasemdir