Ekki er gert ráð fyrir sérstökum framlögum til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Þetta staðfesti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðum um fjármálastefnuna á Alþingi þann 3. maí síðastliðinn.
„Varðandi greiðsluþátttökukerfin er ekki gert ráð fyrir sérstökum framlögum til viðbótar í greiðsluþátttökukerfin á áætlanatímabilinu, sem væru þá hugsuð til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga,“ sagði ráðherra. „Það liggur hins vegar fyrir að það er stefna stjórnvalda í framhaldi af því að kerfin hafi verið einfölduð að taka til frekari skoðunar hvar við þyrftum að lækka enn frekar greiðsluþátttöku sjúklinga.“
Á þriðja tug umsagna hafa borist Alþingi um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um breytingar á kostnaðarþátttöku sjúklinga. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að hið opinbera leggi greiðsluþátttökukerfinu til aukið fjármagn heldur á að flytja kostnað milli sjúklingahópa. Að því er fram kom á opnum fundi Öryrkjabandalagsins á dögunum má ætla að kostnaður þeirra 15 prósenta sjúklinga sem nota þjónustuna mest muni lækka og að kostnaðurinn dreifist á hin 85 prósentin.
Læknafélag Íslands leggst eindregið gegn því að frumvarp heilbrigðisráðherra verði samþykkt óbreytt. Fleiri aðilar hafa gagnrýnt frumvarpið, meðal annars Læknafélag Reykjavíkur, sem bendir á að það muni auka verulega greiðsluþátttöku flestra sjúklinga og BSRB, sem harmar að frumvarpið geri ekki ráð fyrir auknum fjárveitingum til greiðsluþátttökukerfisins.
Athugasemdir