„Mér finnst boðsferðir til blaða- og fréttamanna útaf fyrir sig vera í lagi ef það er alveg skýrt að sá sem þiggur slíka boðsferð gerir það á eigin forsendum og það sé gagnkvæmur skilningur á því að samhliða boðsferðinni sé engin krafa eða yfirlýsing um að viðkomandi nýti ferðina til fréttaöflunar,“ segir Þorbjörn Þórðarson, lögfræðingur og fréttamaður hjá 365 miðlum, í samtali við Stundina. Þorbjörn er einn þeirra fréttamanna sem þáði boðsferð á vegum WOW air til Washington um helgina og Stundin fjallaði um í gær.
„Ég hef þegið boðsferðir frá Evrópusambandinu til Brussel, eins og fulltrúar frá öllum öðrum fjölmiðlum á Íslandi. Það var skilningur bæði Evrópusambandsins og þeirra blaðamanna sem voru í þeirri ferð að það var engin kvöð á fréttamönnum sem tóku þátt í ferðinni að fjalla um Evrópusambandið, heldur var þetta upplýsinga- og fræðsluferð,“ segir hann ennfremur.
Staðreyndir máls og almannahagsmunir
Þorbjörn bendir á að allir vandvirkir fjölmiðlamenn geri sér grein fyrir skyldum sínum, sem liggi annars vegar hjá staðreyndum máls og hins vegar almannahagsmunum. Hann hefur ekki áhyggjur af því að það skaði trúverðugleika hans sem fréttamanns að þiggja boðsferðir af þessu tagi. „Ég held að allir sem hafi fylgst með mínum skrifum í gegnum árin viti nákvæmlega hvað ég get og hvað ég stend fyrir sem blaða- og fréttamaður. Þeir vita að ég er eingöngu að hugsa um almannahagsmuni í mínum störfum og að fjalla rétt um staðreyndir máls. Ég mun ekki láta þessa ferð hafa nein áhrif á það hvernig ég skrifa um BWI eða WOW air, líkt og ég lét ekki boðsferð til Brussel hafa áhrif á það hvernig ég skrifa um Evrópusambandið.“
Þorbjörn segist ekki gera greinarmun á boðsferðum á vegum einkafyrirtækja eða alþjóðastofnana. „Ég geri engan greinarmun á boðsferðum sem eru fjármagnaðar af öðrum en fjölmiðlum,“ segir hann.
„Ég tel að það séu nákvæmlega sömu siðferðislegu álitamál uppi þegar ferð fréttamanns erlendis er kostuð af einhverjum öðrum en vinnuveitenda hans, hvort sem um alþjóðastofnun eða annað fyrirtæki er að ræða. Það eru nákvæmlega sömu hugrenningatengsl sem eiga sér stað ef við ræðum þetta út frá sjónarmiðum sjálfsritskoðunar eða einhvers konar sálrænna áhrifa á þann sem þiggur slíka ferð.“
„Ég lagði til að fréttamenn færu ekki í ferðir nema þær væru fjármagnaðar af fyrirtækinu sjálfu.“
Íslenskir fjölmiðlar undirfjármagnaðir
Eftir að Stundin fjallaði um boðsferðina til Washington í gær segist Þorbjörn hafa nefnt það á fundi innanhúss að 365 miðlar tæku í gildi reglur um boðferðir eða myndu jafnvel hætta að þiggja slíkar ferðir. „Ég lagði til að fréttamenn færu ekki í ferðir nema
Athugasemdir