Ljótu hálfvitarnir og Bubbi Morthens geta ekki tilkynnt einhliða á Facebook að tónlist þeirra sé bönnuð á Útvarpi Sögu. Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFS, samtaka tónlistarmanna og textahöfunda, segir að tónlistarmönnum sé heimilt að grípa til slíks banns en það gerist aðeins samkvæmt ákveðnum reglum.
„Samkvæmt samningum okkar verða þeir sem vilja banna fyrirtækjum að nota tónlist sína að fara í gegnum okkur. Þá er viðkomandi skrifað bréf og tilkynnt með mánaðarfyrirvara að bannið taki gildi,“ segir Guðrún Björk.
Hún segir að samtökin hafi ekki fengið erindi frá Ljótu hálfvitunum eða Bubba hvað varðar bannið. Hún segir að eitt dæmi sé um það í seinni tíð að tónlistarmaður vildi banna fyrirtæki flutning á tónlist sinni. Það var Jóhann G. Jóhannsson heitinn sem vildi banna Bylgjunni að flytja lög sín. Það var vegna tónlistarstefnu stöðvarinnar.
„Það reyndist ekki mögulegt að banna einungis Bylgjunni að flytja lög hans. Bannið hefði þurft að ná til allra fjölmiðla 365 sem á Bylgjuna. Áður en til þess kom áðist sátt í málinu. Ég þekki engin önnur dæmi um slíkt,” segir Guðrún Björk.
Hún staðfestir að þetta gildi í báðar áttir. Þannig geti útvarpsstöðvar ákveðið að spila ekki lög með einstökum tónlistarmönnum á sömu forsendum.
Athugasemdir