Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir að Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra sé með fordóma gagnvart nektardansstöðum. Það þýði lítið að gera Reykjavík að ráðstefnuborg ef ekki fái að þrífast spilavíti og nektarklúbbar í borginni.
Tilefni þessara orða er gagnrýni Bjartar á málflutning Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Fjallabyggð um leyfisveitingar og fiskeldi í sjó. „Ég myndi til að mynda ekki leyfa nektarklúbba hvort sem væri í 101 Reykjavík, Kópavogi eða í uppsveitum Árnessýslu hvar ég ólst upp. Hitt ætti að vera kappsmál fyrir alla, sama hvar þeir búa á landinu. Að vernda lífríki og einstaka náttúru landsins,“ skrifaði Björt á Facebook.
„Hvaða fordómar eru þetta gegn nektarklúbbum, Björt?“ svarar Brynjar. „Í öllum betri bæjum eru nektarklúbbar, Björt. Þýðir ekkert að reyna að gera Reykjavík að ráðstefnuborg ef engir eru nektarklúbbar og spilavíti.“
Áður hefur Brynjar gagnrýnt harðlega bann við nektardansi. Þá vakti athygli þegar Brynjar, skömmu eftir að hafa sest á þing, gagnrýndi lögreglu fyrir að hafa handtekið vændiskaupendur og aðstandendur kampavínsklúbbsins Strawberries. „Meðan lögreglan er bundin við að hlera þessa kynlífsiðkendur og handtaka í stórum stíl situr hún aðgerðarlaus þegar stolið höfundarvarið efni er sett á netið og halað þar niður af fjölda manns,“ skrifaði hann.
Athugasemdir