Menn standa nánast á öndinni, já, Peking-öndinni, yfir því verðfalli sem orðið hefur á mörkuðum víða um heim í kjölfar „hrunsins“ á Sjanghæ-hlutabréfamarkaðnum undanfarna daga. 24.ágúst 2015 er nú kallaður „svarti mánudagurinn“. Óttaslegnir greinendur og allskyns sérfræðingar reyna að grafast fyrir um orsakir þess sem er að gerast og einn þeirra sagði á CNBC að um gríðarlega „leiðréttingu“ væri að ræða og nú væri mikil sálfræði í gangi. Þetta er gjarnan sagt þegar svona hlutir gerast. Af hverju ræða menn þá ekki við sálfræðinga? Sagt er að fjárfestar þjáist af „áhættufælni“ sem á mannamáli þýðir að þá skorti fífldirfsku. Þetta hrun í Sjanghæ er talið geta haft víðtæk áhrif og haldi minnkandi umsvif í Kína áfram er það mat sérfræðinga að það geti haft alvarleg áhrif, jafnt fyrir hrávöruseljendur í Afríku og eða véla og tækjaframleiðendur í Evrópu.
Leiðréttingin
Orðið leiðrétting (sem landinn ætti að kannast vel við) felur í sér að það sé verið að rétta eitthvað af sem er vitlaust eða rangt, einhverjar skekkjur. Dagblöð birta til dæmis leiðréttingar hafi þau farið með eitthvað vitlaust. Samkvæmt því sem þessi sérfræðingur sagði, þá hlýtur íslenska hrunið að hafa verið ein stærsta „leiðrétting“ Íslandssögunnar. Loftbólur og blöðrur eru blásnar upp, hjarðhegðun ríkir og síðan springur allt framan í menn. Það er leiðréttingin, eða eins og segir á ensku „what goes up, must come down“.
Tveggja tölu hagvöxtur liðin tíð
Nokkuð borðleggjandi er að tími tveggja talna hagvaxtar í Kína er liðinn.
Athugasemdir