Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að það geti vel verið að ríkisstjórn Donalds Trump sé með áform um að vinna gegn loftslagsbreytingunum þótt Bandaríkin ætli ekki að taka þátt í Parísarsamkomulaginu. Þetta kom fram í stuttu viðtali við forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV.
„Það er eitt að menn ætli ekki að taka þátt í Parísarsamkomulaginu, ekki að undirgangast þær skuldbindingar sem þar eru. Annað er hvað menn ætla að gera í loftslagsmálum almennt,“ sagði Bjarni og bætti við: „Það getur vel verið að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé með áform, þó þeir séu ekki tilbúnir til að undirgangast Parísarsáttmálann, um að ná árangri.“
Í gær sendu forsætisráðherrar Norðurlandanna, þar á meðal Bjarni, Donald Trump Bandaríkjaforseta sameiginlegt bréf þar sem hann er hvattur til að standa við Parísarsamkomulagið í loftlagsmálum sem leiðtogar heims sameinuðust um í París í desember árið 2015. Í bréfinu er lögð áhersla á mikilvægi þess að draga úr áhrifum loftlagsbreytinga og er forsetinn hvattur til að vera leiðandi í þeirri vegferð.
Ummæli Bjarna í kvöldfréttum RÚV eru talsvert frábrugðin viðbrögðum annarra þjóðarleiðtoga, svo sem forseta Frakklands og kanslara Þýskalands, sem harmað hafa ákvörðun Trumps og farið stórum orðum um málið.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, gagnrýnir forsætisráðherra harðlega í færslu á Facebook.
„Furðulegt að heyra í forsætisráðherra Íslands um að Trump hafi ákveðið að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. "Jú, sjáiði til að það getur vel verið að Bandaríkin séu með áform um eigin aðgerðir í loftslagsmálum." Ha? Getur það vel verið? Þetta eru forkastanleg viðbrögð. Á meðan forystufólk um víða veröld undirstrikar alvarleika málsins og fordæmir ákvörðun Trumps einkennast viðbrögð Bjarna af léttúð. Skammarlegt,“ skrifar hún.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsætisráðherra kemur Donald Trump til varnar eða talar á jákvæðum nótum um forsetann.
Í janúar sagði Bjarni Benediktsson í viðtali við RÚV að hann teldi að embættistaka Trumps gæti haft „ágæt áhrif á samskipti Íslands og Bandaríkjanna“.
Í viðtali í Silfri Egils í byrjun febrúar sagðist hann svo telja að umræðun um Donald Trump væri ekki að öllu leyti sanngjörn og of snemmt væri að fella stóra dóma um stefnu hans. „Mér finnst ekkert að því í sjálfu sér að það komi fram á sjónarsviðið af og til einstaklingar sem eru ekki alveg steyptir úr sama mótinu og allir fyrirrennarar,“ sagði forsætisráðherra.
Skömmu seinna tjáði Bjarni sig um Donald Trump á fundi samtakanna Varðbergs í Norræna húsinu og áréttaði þá skoðun sína að ekki væri tímabært að fella stóra dóma yfir forsetatíð eða forsetastefnu hins nýja forseta. Um lýðræðislega niðurstöðu væri að ræða og Trump hefði tekist að höfða til hins vinnandi manns.
Athugasemdir