Ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar útlendingamála um að Reginu Osamrumaese og tveimur sonum hennar sé synjað um hæli á Íslandi verður skotið til dómstóla. Þetta staðfestir Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Reginu, í samtali við Stundina, en hann bauð fram aðstoð sína eftir að Kvennablaðið fjallaði um mál hennar í síðustu viku. Regina er frá Nígeríu og á tvo syni, þá Daniel og Felix en sá yngri fæddist hér á landi. Hún er ólétt af sínu þriðja barni en Útlendingastofnun ætlar að senda hana til Nígeríu þar sem ríkt hafa átök milli stjórnarhersins í landinu og hryðjuverkasamtakanna Boko Haram um árabil.
Þegar Stundin fjallaði um mál Reginu þann 20. mars síðastliðinn sagðist hún þreytt og buguð vegna stöðugrar óvissu um framtíð barna sinna. Regina hefur ekki farið til Nígeríu frá því hún flúði þaðan ásamt systur sinni aðeins sex ára gömul. Fyrstu árin bjuggu þær í Líbíu, en leiðir þeirra systra skildu árið 2008 þegar Regina hélt til Ítalíu en systir hennar aftur til Nígeríu. Á Ítalíu kynntist Regina barnsföður sínum og þar fæddist eldri sonur þeirra, Daniel. Hann er á fjórða ári, sækir leikskóla í Reykjanesbæ og talar íslensku. Yngri sonurinn, Felix, er tæplega tveggja ára og fæddist hér á landi.
Fram kemur í umfjöllun Kvennablaðsins að Regina sé komin um 12 vikur á leið; báðir synir hennar hafi verið teknir með keisaraskurði og líklegt sé að þess gerist einnig þörf hjá hennar þriðja barni. „Stundum vildi ég að þetta væri bara ég, að ég ætti engin börn. Ég veit ekki hvernig ég á að hugsa um þau ef mér verður hent úr landi,“ sagði Regina þegar Stundin ræddi við hana í mars. Þá hafði kærunefnd útlendingamála kveðið upp sinn lokaúrskurð og staðfest synjun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi.
Gísli hefur sent Útlendingastofnun beiðni um að brottvísun Reginu og barna hennar verði frestað meðan höfðað verður mál fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. „Þetta er auðvitað sérstaklega mikilvægt á meðan hún gengur með barnið. Fram kemur í úrskurði Útlendingastofnunar að málshöfðun fyrir dómstólum fresti ekki réttaráhrifum, en ég bið um frest á þessum grundvelli,“ segir Gísli í samtali við Stundina.
Athugasemdir