„Ég væri bara á götunni án þessa fólks,“ segir Eze Okafor, hælisleitandi frá Nígeríu, sem hefur síðustu tíu mánuði farið huldu höfði í Svíþjóð og verið algjörlega upp á velvild annarra kominn. Eze var vísað frá Íslandi og til Svíþjóðar í maí í fyrra eftir að umsókn hans um hæli hér á landi hafði verið synjað. Sænsk útlendingayfirvöld hafa gert honum ljóst að hælisumsókn hans verði ekki enduropnuð þar í landi og að öllu óbreyttu verður hann því sendur aftur til Nígeríu.
Þetta veldur því að hann hefur látið lítið fyrir sér fara þar í landi. „Ég held mig innandyra. Ég fer vanalega ekki út vegna þess ég að ég óttast yfirvöld,“ segir Eze nú í samtali við Stundina. Hann hefur sótt um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi og býður ennþá svars frá íslenskum yfirvöldum en allt kemur fyrir ekki.. „Þau sögðust ætla að svara umsókninni minni í janúar en gerðu það ekki. Þau sögðust svo ætla að svara henni í febrúar en hafa ekki ennþá gert það. Og nú er mars alveg að fara að klárast.“
Eze hafði búið á Íslandi í fjögur ár, starfað sem kokkur og lært íslensku þegar honum var vísað úr landi, þvert á tilmæli kærunefndar útlendingamála. Hann flúði heimaland sitt árið 2011 eftir að liðsmenn Boko Haram höfðu ráðist á hann og drepið bróður hans. Brottvísun hans frá Íslandi vakti mikla athygli en myndband þar sem hann sást hrópa á jesús á meðan lögreglumenn tóku hann lögreglutaki fór víða. Þá fjallaði Al Jazeera sérstaklega um mál hans.
Athugasemdir