Alcoa á Íslandi ehf., móðurfélag álverksmiðjunnar í Reyðarfirði sem rekin er undir merkjum Alcoa Fjarðaáls ehf., greiddi móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæplega 3,5 milljarða íslenskra króna í vexti í fyrra. Bókfærður taprekstur félagsins nam þá rúmum fjórum milljörðum króna en bróðurparturinn af þessu tapi rann til félags innan samstæðu Alcoa í formi áðurnefndra vaxtagreiðslna. Þetta kemur fram í ársreikningi Alcoa á íslandi sem skilað var til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra þann 22. október síðastliðinn.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum greiðir Alcoa á Íslandi ehf. ekki svokallaðan fyrirtækjaskatt hér á landi því félagið skilar aldrei hagnaði. Fyrirtækið hefur tapað hvert einasta rekstrarár sitt á Íslandi frá árinu 2003 eða sem nemur nú samtals rúmum 52 milljörðum króna. Á sama tímabili hefur félagið greitt sem nemur tæplega 57 milljarða króna í vaxtagreiðslur til félagsins í Lúxemborg en þær greiðslur eru ekki skattlagðar þar sem um er að ræða afborganir og vaxtagreiðslur. Munurinn á bókfærðu tapi Alcoa á Íslandi og afborgunum og vaxtagreiðslum fyrirtækisins frá 2003 til 2014 nemur hins vegar tæplega 5 milljörðum króna um þessar mundir.
Segir tapið tilbúið en Alcoa er ósammála
Líkt og Stundin hefur fjallað um áður telur Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, að Alcoa beiti þessari aðferð til að koma fjármunum frá starfsemi álversins án þess að þurfa að greiða skatta af rekstrarhagnaði fyrirtækisins á Íslandi. „Þetta er bara tilbúið tap,“ sagði Indriði við Stundina
Athugasemdir