Þegar stjórnmálamenn hugsa upphátt í sjónvarpssal er full ástæða til að leggja við hlustir. Þetta gerði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í Kryddsíldinni á gamlársdag. Hann setti fram „áhugaverða pælingu“ að eigin sögn.
Baltasar Kormákur hafði spurt hvort og hvernig stjórnvöld hygðust styðja við bakið á skapandi greinum, svo sem kvikmyndaiðnaði. Bjarni brást við spurningunni með því að fagna þeim árangri sem náðst hefur í skapandi greinum og bætti svo við:
„Er þetta ekki bara gott dæmi um það að lágir skattar, fyrir ekki bara skapandi greinar heldur atvinnulífið almennt, koma auknum umsvifum af stað? Og varla eru þeir sem tala fyrir auknum ívilnunum fyrir þessar greinar að fara að tala fyrir því í framhaldinu að það verði lagður sérstakur auðlegðarskattur [innskot: Bjarni tók fram skömmu síðar í þættinum að hann hefði verið að vísa til auðlindaskatts en ekki auðlegðarskatts] eða einhvers konar… þetta er nefnilega svolítið áhugaverð pæling. Ætlar sama fólkið og talar fyrir sérstökum skatti á greinar sem eru að skapa verðmæti eins og sjávarútvegur, stórauknum og hækkuðum veiðigjöldum, er það sama fólkið og ætlar að tala fyrir lágum sköttum á skapandi greinar?“
Fjármálaráðherra finnst sem sagt einhvers konar tvískinnungur felast í því að vilja „sérstakan skatt“ á greinar á borð við sjávarútveg, en að tala um leið fyrir lágum sköttum, jafnvel ívilnunum, á einhverjum öðrum sviðum, svo sem í kvikmyndaframleiðslu og tónlistargeiranum.
Þetta er vissulega áhugaverð pæling, svona í ljósi þess að hún kemur frá þeim Íslendingi sem mestu ræður um það hvernig skattlagningu er háttað hérlendis á tímabilinu 2013-2017. En skynsamleg er pælingin ekki. Þetta er nefnilega samanburður á eplum og appelsínum. Verðmætasköpun í sjávarútvegi er gjörólík verðmætasköpun í kvikmynda- og tónlistariðnaði.
Sjávarútvegur byggist á nýtingu takmarkaðrar auðlindar – fisksins í sjónum – innan ramma aflamarkskerfis sem stýrir aðgangi að auðlindinni. Fyrir vikið verður til auðlindarenta, fyrirbæri sem er útskýrt ágætlega í skýrslunni „Auðlindarenta og nærsamfélagið“ sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2013:
„Takmarkað framboð auðlinda getur gert eigendum þeirra kleift að njóta arðsemi sem er umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu. Hagræn renta er skilgreind sem greiðslur til framleiðsluþátta, s.s. fjármagns og vinnuafls, umfram fórnarkostnað. Umframarðsemi er oft nefnd auðlindarenta (e. resource rent). Í flestum öðrum greinum atvinnulífsins myndi arðsemi umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu laða að fleiri fyrirtæki sem, að öllu óbreyttu, leiðir til aukins framboðs og lægra verðs. Afleiðingin er samdráttur í arðseminni þangað til hún verður í samræmi við aðrar sambærilegar atvinnugreinar. Hið takmarkaða framboð auðlinda getur hins vegar leitt til þess að umframrenta verður viðvarandi.“
Hagfræðingar hafa margbent á að skattlagning auðlindarentu er, ef vandað er til verka, einhver hagkvæmasta tekjuöflunaraðferðin sem býðst, og einna síst til þess fallin að draga úr hagrænum hvötum eða hafa brenglandi áhrif á verðmætasköpun. „Veiðigjöld eru til dæmis einhver hagkvæmasta tekjuöflunarleið sem ríkinu stendur til boða,“ sagði Jón Steinsson, hagfræðidósent við Columbia-háskóla í viðtali við Stundina síðasta sumar, og bætti við: „Ef útgerðarfyrirtæki greiddu sannvirði fyrir leigu aflaheimilda væri unnt að lækka aðra skatta á móti og þannig draga verulega úr óhagkvæmni skattkerfisins. Það væri mikilvæg lyftistöng fyrir hagkerfið.“ Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, tók í sama streng: „Hagfræðingar hafa lengi vitað að veiðigjald er hagstæðasta aðferðin við að fjármagna ríkisútgjöld sem völ er á. Það er slæmt að sá skilningur skuli ekki ná til stjórnmálanna.“
Sjávarútvegur og nýting náttúruauðlinda lýtur einfaldlega allt öðrum lögmálum en aðrar atvinnugreinar. Þess vegna er hvorki óeðlilegt né ósanngjarnt að þar komi annars konar skattlagningarsjónarmið til skoðunar.
Svo er ágætt að halda því til haga að lögum samkvæmt eru nytjastofnar á Íslandsmiðum sameign íslensku þjóðarinnar. Í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012 kölluðu jafnframt 74 prósent kjósenda eftir því að kveðið yrði á um þjóðareign náttúruauðlinda í stjórnarskrá. Við getum hins vegar ekki slegið eign okkar á Baltasar eða Björk, né heldur veitt þau í net og dregið á land.
Eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr við völd var að lækka veiðigjöld. Þannig var fjárhagslegum byrðum upp á tugi milljarða létt af útgerðinni á yfirstandandi kjörtímabili. Pælingin sem Bjarni setti fram í Kryddsíldinni varpar ágætu ljósi á þau viðhorf til sjávarútvegsmála sem virðast vera ráðandi á hægrivæng íslenskra stjórnmála. Þar tala menn stundum eins og það sé beinlínis hættulegt að ríkið taki til sín meira af auðlindarentunni en tíðkast hefur.
Slíkur málflutningur hugnast auðvitað sumum betur en öðrum. Á árunum 2008 til 2011 fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn rúmlega tífalt hærri fjárframlög frá fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi en allir aðrir flokkar til samans. Þá runnu 90% af öllum fjárstuðningi útgerðarfyrirtækjanna fyrir síðustu kosningar til stjórnarflokkanna. Þessi fjárframlög eru ofurskiljanleg, enda tittlingaskítur í samanburði við þann arð af þjóðarauðlindinni sem eigendur fyrirtækjanna njóta í krafti forréttindastöðu sinnar.
Athugasemdir