Þegar ungar íslenskar konur hófu að rífa sig úr bolnum í síðustu viku á þeirri forsendu að konur ættu að geta verið berar að ofan eins og karlmenn, brjóst væru ekki kynfæri heldur til að gefa börnum að borða og það ætti ekki að hafa áhrif á atvinnumöguleika kvenna þótt brjóstamyndir af þeim birtust á netinu, sat ég veik heima og botnaði ekki neitt í neinu. Ég vissi ekki hvort það var sótthitinn eða kynslóðabilið eða hvað en ég hreinlega skildi þetta ekki. Var það að geta ekki verið ber að ofan íþyngjandi fyrir konur? Máttu íslenskar konur ekki sýna á sér brjóstin?
Ég fór í huganum yfir lífsreynslu mína af því að búa á Íslandi þar sem konur fara berbrjósta í sólbað og gefa brjóst hvar og hvenær sem þeim sýnist og gat ekki séð að þetta hefði verið vandamál. Eins oft og ég hef hlustað á þjáningar kvenna yfir líkama sínum og þröngum samfélagsstöðlum þar að lútandi þá hef ég aldrei heyrt konu kvarta undan áþján þess að geta ekki svipt sig klæðum ofan mittis.
Annars gæti þetta orðið eins og með magabolina. Konur mega alveg sýna á sér magann en það er samt óskrifuð regla að það sé bara fyrir ungar og grannar konur.
Þessi forundran sýnist mér hafa verið nokkuð rauður þráður í fyrstu viðbrögðum kvenna af minni kynslóð. En nú eru nokkrir dagar liðnir og ég er aðeins farin að skilja. Ég skil að skömm kvenna yfir líkama sínum á sér margar birtingarmyndir en aðeins einn samnefnara: Hún er lærð. Ég skil líka að allar þessar opinberu myndbirtingar, sem eru tjáningarmáti nýrrar kynslóðar, eru mér mjög framandi.
Og það sem er framandi er líka ógnvekjandi. En ég er ekki alin upp við ógnina um hrelliklám og finnst ég langt frá því að vera þess umkomin að segja stelpum hvernig þær eiga að bregðast við því. Þær fundu leiðina sjálfar. Þetta er leið nýrrar kynslóðar til að taka völdin í sínar hendur og þarna skapaðist sterkari samtakamáttur ungra kvenna en ég man nokkurn tíman eftir í minni tíð. Hvert gæti þessi kraftur leitt okkur ef hann fær að halda áfram ótrauður? Kannski alla leið burt úr feðraveldinu?
Ef við ætlum út úr feðraveldinu þurfum við samt að brjóta fleiri reglur. Við búum til dæmis við afar þröngt skilgreindan ramma um hvernig kvenlíkamar mega vera. Almennt hafa samfélagsviðmið verið að þróast í þá átt síðustu áratugi að sífellt þykir meira viðeigandi að sýna nekt en útlitsstaðlar hafa á sama tíma verið að þrengjast og líkamskomplexar kvenna að aukast. Nektin sem slík hefur ekki frelsað okkur enda snýst málið jafn mikið um þann þrönga stakk sem okkur er sniðinn varðandi hvernig líkami okkar má vera eins og hvað af honum má sýna.
Þegar áhyggjur kvenna af líkama sínum eru skoðaðar nánar kemur oftast í ljós að þær snúast á einn eða annan hátt um skömm yfir fitu einhversstaðar á líkamanum.
Smánarblettirnir eru víða og þegar áhyggjur kvenna af líkama sínum eru skoðaðar nánar kemur oftast í ljós að þær snúast á einn eða annan hátt um skömm yfir fitu einhversstaðar á líkamanum. Enda refsar samfélagið konum grimmilega fyrir fitu, allt frá lítilsháttar smánun og vandræðagangi upp í raunverulega félagslega útskúfun og misrétti. Yfirgnæfandi meirihluti kvenna telur sig þurfa að grennast og beint línulegt samband er á milli líkamsþyngdar og lífsánægju ungra stúlkna. Það er líka tölfræðilegt samband á milli þyngdar leikkvenna og niðurlægingarinnar sem þær eru látnar þola af hendi karlkyns mótleikara sinna. Ef við ætlum að frelsa konur undan líkamssmánun þá þurfum við líka að frelsa þær undan skömminni yfir fitu.
Þannig að tökum þetta alla leið. Nýtum þennan slagkraft til að skila allri skömminni og taka okkur fullt skilgreiningarvald yfir eigin líkama. Storkum ríkjandi útlitsviðmiðum og neitum að gangast undir þau félagslegu öfl sem ýmist upphefja eða jaðarsetja konur á grundvelli líkama síns. Annars gæti þetta orðið eins og með magabolina. Konur mega alveg sýna á sér magann en það er samt óskrifuð regla að það sé bara fyrir ungar og grannar konur. Þannig er frelsið áfram takmarkað og skilgreint á forsendum feðraveldisins.
Við þurfum að opna rýmið fyrir allar konur, ungar og gamlar, feitar og mjóar, fatlaðar og ófatlaðar, svona og hinsegin, til að lifa í líkama sínum án skammar. Þá er heimurinn okkar. Áfram stelpur!
Athugasemdir