Oft heyrist það viðhorf, sérstaklega frá stjórnmálamönnum, að Íslendingar séu svo þrasgjörn þjóð og neikvæð. Jafnvel svo slæm að stjórnmálamenn hafi það betur í Afganistan, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gantaðist með á dögunum eftir að hafa dvalið á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna í Kabul um skeið. Þeim stjórnmálamönnum sem hafa verið myrtir í Afganistan finnst það reyndar örugglega ekki fyndið.
Á síðustu dögum hafa tvenns konar fréttir fært okkur lærdóm um Íslendinga. Á fimmtudagskvöldið söng María Ólafsdóttir, 22 ára söngkona, fyrir hönd Íslendinga í Eurovision. Þetta er vinsælasti menningarviðburður ársins og því viðbúið að fólk hafi mismunandi skoðanir á honum eða einstökum atriðum hans. Sumir elska sum atriði, öðrum finnst þau slæm, eins og gengur og gerist.
María komst ekki áfram eftir flutning sem var verr heppnaður en vanalega af hennar hálfu. Kannski var of langt gengið með Frozen-þemað eða vantaði aðrar áherslur í atriðinu, hver veit hvers vegna hún komst ekki áfram, en líklega var það vegna þess að hún átti slæman dag. Eftir keppnina fann María sig knúna til þess að fara í vörn og setja ofan í við fólk. Hún vitnaði í lag um „hatara“ og sagðist hafa sungið „af sér rassgatið fyrir hönd Íslendinga“: „Þeir sem drulla, flott drullið bara yfir mig eða atriðið, mér er sama því ég veit að margir hefðu aldrei geta gert þetta sem ég gerði án alls hroka.“
Þeir sem segja að ég þoli ekki gagnrýni þola ekki leiðréttingar mínar á rangfærslum þeirra
Annar Íslendingur, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, hefur varla haldið ræðu án þess að kvarta yfir því að vera gagnrýndur, eða því sem hann nefnir „niðurrifstal“ neikvæðra „niðurrifsafla“.
Nú síðast kom hann í viðtal hjá fréttavefnum Eyjunni í morgun og hélt því fram að Íslendingar væru haldnir „ranghugmyndum“, vegna þess að þeir styddu ekki ríkisstjórnina hans meira en raun ber vitni.
Vantrú á stjórnmálamönnum stafar sem sagt mikið til af því að það er eitthvað rangt við skynjun þjóðarinnar.
Þegar hann var spurður hvort hann ætti ekki bara erfitt með að taka gagnrýni, var svarið það að hann er einmitt gagnrýndur fyrir það, ekki aðeins af annarlegum ástæðum, heldur vegna þess að hann leiðréttir rangfærslurnar og ranghugmyndirnar.
Hættan af „happy talk“
Nýleg bók fjallar um mikilvægi þess fyrir farsæld samfélaga að fóstra gagnrýni og koma í veg fyrir hóphugsun - eða of mikla bjartsýni. Bókin, sem heitir Wiser: Getting Beyond Groupthink to Make Groups Smarter, er skrifuð af einhverjum helstu sérfræðingum heims á sviði ákvarðanafræða og verkefnastjórnunar.
Boðskapur bókarinnar er að það sé beinlínis hættulegt að viðhalda því andrúmslofti að krafa sé gerð um jákvæðni og bjartsýni. Það eigi fremur að leggja allt kapp á að draga fram gagnrýni og neikvæðni til að ýta undir að allar mögulegar neikvæðar niðurstöður séu metnar. Hlutverk leiðtoga er ekki að knýja fram bjartsýni og jákvæðni, heldur að leiða til þess að sem flestar upplýsingar komist í umræðuna og verði metnar gagnrýnið.
„Happy talk“, eða jákvæðnishjal, sem snýst um að allt sé í lagi og allt verði betra, er jarðvegur fyrir misheppnaða ákvarðanatöku, samkvæmt meginniðurstöðu bókarinnar.
„Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi“
„Bjartsýni og jákvæðni ætti að vera ríkjandi,“ sagði Sigmundur meðal annars í viðtalinu við Eyjuna í morgun.
Þetta er reyndar meginstefið í boðskap Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra. En í stuttu máli er það ástand sem hann krefst af þjóð sinni nákvæmlega það sem varað er við í nýrri bók sem fjallar um hvernig koma megi í veg fyrir hættulega lélega ákvarðantöku.
Er eitthvað að okkur?
Eurovision 2015 og Sigmundur Davíð kenna okkur ekkert sérstaklega mikið um Íslendinga. Lærdómurinn er ekki sá að við séum svo mikil niðurrifsþjóð eða haldin ranghugmyndum vegna gagnrýnins hugarfars.
Stóri lærdómurinn er að ákveðnir Íslendingar eiga sérstaklega erfitt með að þola gagnrýni, sem getur verið ósköp mannlegt á vissum augnablikum, eða karaktereinkenni þegar það endurtekur sig. Þeir líta á hana sem hatur eða beina andstöðu við sig persónulega. En þroskuð hefð fyrir gagnrýni er forsenda framfara.
Fólk á ekki að fara í stjórnmál, hvað þá með þeim hætti sem Sigmundur Davíð gerði, án þess að hafa skilning og umburðarlyndi fyrir gagnrýni. Rétt eins og fólk á ekki að keppa í stærstu söngkeppni heims án þess að búast við því að framlag þess verði metið, með góðu eða illu.
Athugasemdir