Þær fregnir berast frá meginlandinu að Þjóðverjum og Frökkum þyki Boris Johnson ekki merkilegur pappír og botni lítt í hví trúður hafi verið gerður að utanríkisráðherra Bretlands. Þeim þykir hann að auki ekkert fyndinn – sem vinir Boris telja merki um skopgreindarskort meginlandsbúa. Sú skýring er vísast röng. Í merkri félagsfræðitilraun fyrir nokkrum árum, þar sem fylgst var með lífi skrifstofufólks í mörgum Evrópulöndum í gegnum falda myndavél og kirfilega skráð hversu oft gamanmál voru viðhöfð og bros sást á vörum, kom í ljós að þeir sem höfðu besta skopskynið á þennan mælikvarða voru – hvort sem þið trúið því eða ekki – Þjóðverjar.
Það er hins vegar annað mál að Þjóðverjar og Frakkar hafa annars konar skopskyn en Bretar. Gömul sálfræðikenning segir að ein helsta orsök sambandsslita fólks í ástum eða pólitík sé misvísandi skopskyn. Þetta var meðal annars ástæða þess að Haraldur vinur minn Bessason, fyrrverandi háskólarektor, vildi taka upp skopgreindarfræði (sem hann nefndi á ensku „anecdotal science“) sem háskólagrein! Mér kemur ekki á óvart þótt utan-Bretlandsfólk nái ekki skopskyni Boris; hann er persónugervingur ákveðinnar manngerðar sem erfitt er að henda reiður á nema fyrir þá sem hafa djúpa þekkingu á breskum staðblæ, sögu og bókmenntum. Þó að ég sé ekki mikill aðdáandi þeirra sjónarmiða sem Boris stendur fyrir í Evrópumálum (ef „stendur fyrir“ er rétta orðalagið um mann sem virðist nánast hafa kastað upp krónu um í hvorri keflavíkinni hann reri), eða gefi siðferðilegum mannkostum hans háa einkunn, þá get ég ekki varist því að hafa gaman að kersknislátum ráðherrans.
Sérvitri ofvitinn og fleiri manngerðir
Meðal staðalmanngerða í skopgreindarflóru Breta eru sérvitri ofvitinn, uppskafningurinn og hálfkæringurinn. Besta leiðin til að kynnast þeim er að lesa klassískar 19. og 20. aldar bókmenntir höfunda á borð við Oscar Wilde, Evelyn Waugh og P. G. Wodehouse. Sérvitri ofvitinn er vel gefinn yfirstéttarmaður sem gengst upp í því að láta aðra stöðugt vita af því hvað hann er greindur. „Greindin“ er þó einatt fólgin að mestu í yfirgripsmikilli þekkingu á staðreyndum án nokkurrar heildarsýnar á veruleikann. Ofvitinn bindur bagga sína skipulega öðrum hnútum en samferðamennirnir og er jafnstoltur af valdi sínu á gagnslausum staðreyndum og gagnlegum. Stephen Fry – sem kallaður hefur verið „ímynd heimskingjans af spekingi“ – fellur snoturlega í þennan flokk. Uppskafningurinn er einnig yfirstéttarmaður. En andstætt ofvitanum er hann heimskur og jafnframt hreykinn af heimsku sinni, sem hann ýkir þegar við á. Hann bröltir spjátrungslega í gegnum lífið með þá heimspeki að bakhjarli að heimskan opni fleiri dyr og hafi meira aðdráttarafl en viskan. Bertie Wooster í sögum P. G. Wodehouse (sem Hugh Laurie lék svo listilega í sjónvarpsþáttunum gömlu) er dæmigerður uppskafningur; og það er líka heil hersing af þeim í verkum Oscars Wilde.
Kaldhæðni hálfkæringurinn
Hálfkæringurinn er flóknari manngerð en bæði ofvitinn og uppskafningurinn. Til að skilja hana þarf að lesa dýpri bókmenntir en Wilde eða Wodehouse, svo sem verk Evelyns Waugh. Hálfkæringurinn er jafnklár, ef ekki klárari, en ofvitinn, en hann læst vera óforbetranlegur klaufabárður og talar yfirleitt ekki nema í hálfkæringi. Heimspeki hans er sú að lífið sé í eðli sínu fáránlegt og að við hrösum þar úr einu kviksyndinu í annað (þar sem drukknun sé óumflýjanleg á endanum). Galdur lífsins sé hins vegar sá að geta hent gaman að þessari þrautagöngu og gert grín að sjálfum sér. Listin í fari hálfkæringsins er að minna samferðamennina á það með reglulegu millibili að hann sé að leika aulabárð – svipað eins og gert er í leikhúsaðferð Bertolts Brecht („Verfremdungseffekt“). Boris Johnson, sem er holdtekja hálfkæringsins, gerir þetta afburðavel með því að vitna þegar við á, á latínu, í rómverska fornsögu eða skrifa alvarlegar ævisögur á milli látalátanna.
Tvö stef tilvistarstefnu
Hálfkæringurinn er í raun fylgismaður tilvistarstefnu af vissu tagi: existentíalisma. Lífið hefur engan fyrirfram gefinn tilgang, nema þann sem við gefum því sjálf með vali okkar; og jafnvel sá tilgangur er til bráðabirgða og á skilafresti. Tilvistarstefnan er, sögulega séð, afurð meginlandsins og því skyldi maður ætla að Frakkar og Þjóðverjar ættu að skilja afstöðu Boris til lífsins mæta vel. En hér ganga hefðir enn á misvíxl. Tilvistarstefna meginlandsins hefur mjög tragískan undirtón. Vegna þess hve lífið er fáránlegt blasir sú spurn við einstaklingnum við hvert fótmál hvort hann eigi að lifa eða stytta sér aldur (sbr. klassísk stef í verkum Dostojevskís), sérstaklega frammi fyrir siðferðilegum klípum sem enginn hörgull er á og engin lausn á heldur (Jean-Paul Sartre). Hálfkæringarnir skopgera alvöru tilvistarstefnunnar hins vegar, líkt og dadaistarnir afbyggðu alvöru súrrealismans samkvæmt heimspeki Bretons snemma á 20. öldinni. Lífið er fáránlegt vegna þess að það er gróteskt. Glíman við flækjur og vandamál, sem hefðbundin stjórnmál snúast að miklu leyti um, gefur til kynna að einhver sinna sé að baki óráðinu. Ef við gefum þá forsendu upp á bátinn, og nálgumst úrlausnarefnin í staðinn á forsendum gráglettninnar, er unnt að minnka flækjustigið og afgreiða málin hratt. Boris skilur til dæmis ekki hvers vegna úrsögnin úr ESB þarf að vera svona mikið mál. Lyftum glösum með bros á vör, hespum Brexitið af eins og best er unnt í allra þágu, og málið er dautt! Það gefur augaleið að varðmenn Evrópusambandsins, sem hafa allt aðra skopgreind en Boris, haldi að hann sé ekki með öllum mjalla.
Árekstur við praktík stjórnmála
Vandi hálfkærings í valdastöðu, eins og Boris, er að þótt hann sé að vissu leyti það sem Bretar kalla „endearing“ – og engin skárri þýðing er til á íslensku á en „hvers manns hugljúfi“ – þá hefur hann tilhneigingu til að mála sig út í horn. Hann stuðar ekki aðeins þá sem þjást af altækri harðlífisalvöru heldur líka þá sem hafa ágætt skopskyn, og kunna að meta hálfkæringa þegar við á, en telja að stjórnmál séu list hins praktíska í heimi sem eru settar skorður af ýmsum mannlegum og náttúrulegum takmörkunum, og þar sem lausnin er ekki sú að „afbyggja“ þær með hálfkæringi heldur ryðja þeim burt með alúð og vandvirkni.
Ég á erfitt með að sjá Boris langlífan í embætti utanríkisráðherra – en maður skyldi aldrei vanmeta þrautseigju og lífvænleik hálfkæringa.
Athugasemdir