Að reykja er í raun hægfara sjálfsmorð. Það sem er þægilegast við það er að maður þarf ekki að taka afleiðingum sjálfsmorðsins fyrr en miklu seinna. Þjáningarfull eldri árin þar sem maður verður með ónýt lungu, hóstandi einhverstaðar uppi á spítala, er svo langt í burtu. Og í flestum tilvikum er maður ekki að taka nema 15-20 ár af lífi sínu. Auk þess að gera síðustu tíu ár sín þokkalega þjáningarfull.
Ég byrjaði ekki að reykja fyrr en ég var orðinn 25 ára og það sem gaf mér mesta nautn var einmitt hvað þetta er óhollt og heimskulegt. Því ekki var hægt að fá nautn af sígarettureykingum fyrstu mánuðina nema með því að hugsa til einmitt þess.
Ég byrjaði í Winston Lights sem seinna fékk nafnið Winston Blue. Blár eins og hafið, fallegur litur draumanna og himinsins.
Ég bjó í Tékklandi í sex ár og þar hafði ég ekki efni á að vera í sambandi við Winston sem var útlensk og þar af leiðandi miklu dýrari. Ég færði mig út í Petra Lights, verksmiðjuframleidd, tékknesk og ótrúlega ódýr. Ódýrar stelpur hafa alltaf heillað mig. Það tók mig smá tíma að venjast henni, enda hafði ég ekki valið hana út á fegurð hennar, heldur með hagsýni í huga. Fína fólkið í Tékklandi reykti Winston og Marlboro og drakk Pilsner Urquell eða Budejovický Budvar. Við fátæku námsmennirnir og verkamennirnir reyktum Petru og drukkum Staropramen, ódýran pissbjór, unninn uppúr skítdrullugu ánni sem rennur í gegnum Prag.
Petra var fjarri því að vera með flekklausan feril þegar ég hitti hana. Hún hafði verið í sambandi við leikskáldið Vaclav Havel alla hans ævi og étið upp lungun í honum og komið honum í gröfina. Samt var ég heillaður af henni.
Í sex var ég trúr þessum sígarettum sem kostuðu ekki nema 60 íslenskar krónur. Ég var trúrri Petru en nokkurri af mínum kærustum. Aldrei hélt ég framhjá Petru þegar ég var í Tékklandi.
En leiðir okkar skildu þegar ég flutti til Mið-Austurlanda og á endanum heim. Hún gat ekki fylgt mér. Hún er tékknesk og frá Tékklandi fer hún aldrei.
Ég fór að halda við Marlboro og ýmsar aðrar. Ég hef eiginlega flakkað á milli og ekki verið nokkurri trú síðan við Petra skildum.
Á köldum vetrarkvöldum get ég samt ekki annað en hugsað til Petru minnar. Ég veit að hún er núna í höndum annarra. Og þó að tékkneskir námumenn séu núna að káfa á henni með subbugum og siggrónum höndum sínum, svörtum af kolavinnslunni þá veit ég að hún saknar mín. Því það snerti hana enginn jafn ljúft og ég. Enginn strauk henni jafn blítt og ástúðlega. Enginn saug í sig lífspeki hennar eins og ég. Það hefur enginn þráð hana eins og ég. Petra, þú með þína svörtu og syndugu sál, ég sakna þín svo heitt. Petra mín, Petra.
Börkur er rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri sem hefur fengið ýmis íslensk og alþjóðleg verðlaun fyrir verk sín. Hann hefur árum saman unnið sem blaðamaður á DV, Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og Rás 2. Hann er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Athugasemdir