Flestir geta eflaust fyrirgefið að ráðherrar misstígi sig af og til, gerist sekir um ónákvæmni í svörum eða klúðri framsetningu upplýsinga. Að minnsta kosti ef þeir sýna þá lágmarks kurteisi að gangast við mistökum, draga ummæli til baka eftir atvikum eða biðjast afsökunar. En hvað skal segja þegar ráðherra er ítrekað staðinn að því að fara á svig við sannleikann, gerir ekki minnstu tilraun til að bæta fyrir mistökin en heldur þess í stað rangfærslunum til streitu?
Frá því að Þorsteinn Víglundsson tók við embætti félagsmálaráðherra í janúar hefur hann í þrígang verið staðinn að rangfærslum um heilbrigðis- og velferðarmál. Í ekkert skiptið hefur Þorsteinn afsakað sig, leiðrétt eða dregið í land.
Í stað þess að vera þátttakandi í heilbrigðu samtali um velferðarmál virðist Þorsteinn hafa tekið sér það hlutverk að villa um fyrir fólki – bjaga og skekkja umræðuna um fjárhag Landspítalans og kjör lífeyrisþega. Um leið bítur hann höfuðið af skömminni með því að saka aðra um „talnaleikfimi“.
Hvort sem þetta er klaufaskapur eða meðvituð viðleitni til að blekkja fólk, þá er komin upp sú staða að fulltrúi velferðarmála í ríkisstjórn Íslands er umræðunni um velferðarmál til trafala frekar en gagns. Í krafti embættis síns, áhrifavaldsins og athyglinnar sem það færir honum, er Þorsteinn semsagt að dreifa röngum upplýsingum og grafa undan upplýstri umræðu um velferðarmál.
Þorsteinn er þingmaður og ráðherra flokks sem lagði mikla áherslu á heiðarleika og bætt vinnubrögð í aðdraganda síðustu þingkosninga. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að unnið verði að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins og að ríkisstjórnin muni í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.
Á meðan Þorsteinn gegnir ráðherraembætti og fer ítrekað með staðlausa stafi í trausti þess að enginn nenni að elta ólar við það, þá er tæplega hægt að taka þessi fögru fyrirheit um góða og gagnsæja stjórnarhætti alvarlega. Gera þingmenn og ráðherrar stjórnarmeirihlutans það nokkuð sjálfir, fyrst þeim finnst í lagi að maður sem segir ítrekað ósatt um velferðarmál sé fulltrúi velferðarmála í ríkisstjórn Íslands?
Athugasemdir