„Öskupokar og Ómar Ragnarsson,“ svaraði vinur minn þjóðháttafræðingurinn án þess að hika, þegar ég spurði hann um hvort til væri eitthvað sem gæti kallast séríslensk menning. „Allt annað byggir á einn eða annan hátt á erlendri fyrirmynd.“
„Leiðinlegt hvernig fór fyrir öskupokunum,“ sagði ég og vísaði til þess að krakkar eru hættir að hengja öskupoka aftan á ókunnugt fólk á öskudag. Vinur minn kinkaði kolli í hluttekningu og sagði síðan annars hugar: „Jæja, við erum alla vega ennþá með Ómar.“
Ekki er gott segja hvenær öskupokasiðurinn lagðist af. Morgunblaðið segir frá því daginn eftir öskudag árið 1993 að lítið hafi borið á öskupokum í hátíðarhöldum gærdagsins. Dauðadómurinn er síðan kveðinn árið 1996 þegar DV hafði samband við barnaskóla í bænum og fékk þau svör að börn væru hætt að búa til öskupoka.
Ein þeirra skýringa sem gefin er á undanhaldi öskupokanna er að í seinni tíð hefur reynst erfitt að fá títuprjóna sem bogna, þeir sem nú eru framleiddir eru stökkir og brotna undan álagi. Því er ekki lengur hægt að búa til krókinn sem er nauðsynlegur til þess að pokinn hangi.
Árni Björnsson rekur merkilega sögu þessa fyrirbæris í bók sinni Sögu daganna. Öskudagurinn dregur nafn sitt af þeim kaþólska sið að dreifa ösku yfir höfuð iðrandi kirkjugesta í upphafi lönguföstu (sem stendur yfir síðustu fjörutíu dagana fyrir páska). Eftir siðaskiptin var svo farið að hæðast að þessari „pápísku hégilju“ og hér á landi urðu til öskupokar.
Í bókinn kemur fram að öskupokar hafi verið þekktir á Íslandi frá miðri 17. öld og algengast var að konur reyndu að koma öskupokum á karla, en karlar pokum með smásteinum á konurnar. Lykilatriðið hafi verið að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.
Öskudagurinn árið 2016 verður þann 10. febrúar næstkomandi. Ég hvet alla foreldra, kennara og fjölmiðlafólk til þess að gera sitt til þess að endurvekja þennan gamla og góða sið. Það væri grátlegt ef hann hyrfi á okkar dögum.
Ef allt kemur fyrir ekki er þó hægt að hugga sig við þá staðreynd, að við erum alla vega ennþá með Ómar.
Athugasemdir