Fyrir ári síðan ákváðum við kærustuparið að ég og mín tvö skyldum flytja inn á hann og hans tvö. Það var samt eiginlega ekki pláss hjá þeim en það var allt í lagi, þetta var bara til bráðabirgða, rétt á meðan við leituðum að einhverju sem rúmaði okkur öll.
Svo varð allt snælduvitlaust á fasteignamarkaði. Og það verður að segjast að í þeirri stemningu sem nú ríkir teljast samskipti við fasteignamarkaðinn ekki einn af gleðigjöfum tveggja sveimhuga sem eiga það sameiginlegt að finnast gott að fresta til morguns því sem er hægt að leysa í dag. Hann er kvikindi sem platar fólk til að byggja draumakastala og skýjaborgir sem hann svo kremur að grunni, aftur og aftur. Án þess að ég vilji vera dramatísk.
Til að eiga sjens í dag þarf að vera fljótur að hugsa, kunna að spila leikinn, vera til í að taka áhættu og stökkva til. Ekkert af þessu telst til okkar styrkleika. Og hvernig lán eigum við að taka? Hvað er eðlilegt að borga margar milljónir á einn fermetra? Ógeðslega er þetta dýrt! Er ekki verið að spila með okkur? Æ, ég veit það ekki, sofum á þessu.
Þegar við vissum að við ættum von á barni héldum við að nú væri hún sjálftekin, ákvörðunin um að stækka við okkur. Svo leið tíminn, við fundum fína eign og aðra, jafnvel nokkrar sem voru fjarri draumnum en vert að líta á. Allar hurfu þær eins og dögg fyrir sólu áður en við náðum að segja greiðslumat upphátt. En við erum jákvæð, eitthvað hlýtur að dúkka upp, sofum á þessu.
Og svo kom hún. Draumaeignin. Við fengum kitl í magann. Á morgun gerum við tilboð! Byrjum að velta fyrir okkur herbergjaskipan. Ætlum sko EKKI að missa af þessari. En á morgun var of seint. Öskr!
Nú er rétt rúmur mánuður í barn. Engin leið að flytja áður en það mætir. Eru til kojur á fjórum hæðum? Væri hægt að útbúa herbergi á svölunum? Hvar á þá að geyma vagninn? Svo margar spurningar, svo margar ákvarðanir. Sofum á þessu.
Athugasemdir