Ég rak augun í það í dag að ástralska ríkisstjórnin hefði gefið út opinberan lista yfir öll kyn sem talið er að mannfólkið geti fallið undir. Þið vitið, svona eins og maður og kona, karlkyn og kvenkyn. Einu sinni var þetta bara þannig. 2 kyn. Og svo kannski eitthvað fríkpakk sem átti ekki fjölskyldur, var ekki í vinnu, örugglega sprautufíklar og í vændi. Konur með typpi, það var svona birtingarmyndin. Viljiði giska á það hversu mörg kyn eru skilgreind í dag? 33. Jebb, þrjátíuogþrjú! Það er svo mikil snilld að ég verð allur hlýr að innan við að hugsa um það. Ég renndi yfir listann ásamt skilgreiningum, eiginlega í þeirri veiku von að geta fundið eitthvað í sjálfum mér í þessum kynjum sem ég þekkti lítið eða ekkert fyrir. Ég hef hingað til skilgreint mig sem mann og ég veit að ég er ekki kona. 31 kyn eftir, sem er nú bara þónokkuð góður listi. En nei, ég er bara maður. Óþolandi kynvís karlmaður enda þótt ég hafi leitað í allskonar hugarfylgsnum til að krydda þetta leiðindanorm. Ég hef í mesta falli náð að sveigja mig örlítið upp á karlhöndina og reynt að rækta hommann í mér en er þó ekki nema kannski 3,8% hommi hið mesta, og það á góðum degi á fimmta bjór. Það er þó allavega smá tilbreyting. Í þessu samhengi skiptir það samt auðvitað engu því hér er aðeins verið að tala um kyn en ekki kynhneigð. Og þar með er fyrirsögnin mín víst fallin.
Eða nei, reyndar ekki.
Ég sá viðtal fyrir nokkru síðan þar sem talað var við manneskju sem skilgreindi sig sem „Genderfluid“ sem er eitt af þessum 33 kynjum. Genderfluid er manneskja sem getur ekki fellt sig algerlega undir að vera karl og heldur ekki kona, en finnur þó samsvörun með hvoru tveggja. Þessu skyldi ekki rugla saman við „Gender Non-Conforming“ sem útleggst sem manneskja sem er hvorki karl eða kona (en þó mögulega eitthvað annað) eða „None Gender“, sem er manneskja sem er ekkert endilega af neinu kyni. Kynlaus. Allavega. Viðmælandinn var í karlmannslíkama og „óbreyttur“ ef svo má að orði komast og eftir vangaveltur kom spurning frá spyrli:
„Ertu ekki bara hommi?“
Og þá opnuðust flóðgáttirnar, maður minn. Nei, ekki maður. Genderfluid minn. Mitt? Sjitt, þetta er flókið. Við tók mjög öflug og skemmtileg umræða um skilgreiningar og sjálfsupplifun hvers og eins. Það sem var ekki eins skemmtilegt var þegar viðmælandi tók allt í einu upp á því að derra sig við spyrilinn. Í fyrsta lagi var það ósanngjarnt því spurningunni var greinilega varpað fram í þágu viðtalsins, ekki af vankunnáttu heldur til þess að opna á nákvæmlega þennan kima málsins, en eins vegna þess að þarna hrasaði húnn (ég er að reyna að finna persónufornafn sem meikar sens hérna) og datt í skæting. Han (betra?) jós úr skálum reiðinnar yfir spyril og almenning undir þeim formerkjum að við öll ættum að taka tillit til þess hvernig manneskjan upplifði sig. Við ættum sem sagt að vita hver munurinn væri og allar skilgreiningar, kafa ofan í smáatriði og hafa fullan skilning á öllu saman. Annars væri heimurinn ekki réttlátur staður. Mannréttindi, því hugtaki var haldið hátt á loft.
Ég held að þetta sé vandamál heimsins. Ekki þessi 33 kyn sem mér finnst gaman að lesa um og kynna mér, þau eru meistarasnilld og glæsileiki. En að einhverjum þyki sjálfsögð krafa að ég viti nákvæmlega hvernig hann/hún/það/eitthvaðannað skilgreinir sig, það er vandinn. Til að taka af allan vafa þá held ég því að sjálfsögðu ekki fram að allt fólk af öðrum kynjum en karl- og kvenkyni hugsi svona og auðvitað er þetta dæmi undantekning. En allt annað af þessum toga eru einmitt undantekningar.
Múslimar eru mikið í umræðunni. Þá oft á neikvæðan hátt vegna þess að píkóprómill þeirra sem kenna sig við hugtakið eru svona. Þegar ég segi „svona“ þá meina ég að fólk er á þeirri skoðun að allir hinir eigi að bera fulla þekkingu og skilning á því hvernig þau upplifa sig sjálf. Það er kjaftæði. Ertu múslimi? Ok, töff. Ertu góð manneskja? Mjög gott. Þetta er útrætt. Ég hef enga innsýn í þinn hugarheim og ég þarf þess ekki. Auðvitað er svo bæði fallegt og skemmtilegt að kynna sér málin en það er bara ekki eitthvað sem nokkur getur krafist af öðrum.
Snúum þessu við. Nú er ég umræðuefnið.
Ertu tónlistarmaður? Já, ég er tónlistarmaður. Ertu góður gaur? Jájá, ég ríf stundum pínu kjaft, en ég held að ég sé fínn náungi. Ok, mjög gott. Útrætt.
Ef ég ætlaði að vera fíflið sem um er rætt færi ég að draga upp þá staðreynd að Frikki Dór sé líka tónlistarmaður og ég geti bara ekki sætt mig við að vera í flokki með honum (sorrý Frikki, ég ber fullt skynbragð á að þú ert bæði klár og magnaður gaur, mér finnst tónlistin þín bara leiðinleg). Nei, ég er þungarokkari. Og ég vil ekkert svona Nu Metal kjaftæði heldur melódískan og þrassskotinn NWOBHM-metal. Það eru mannréttindi að þú vitir muninn á mér og Frikka Dór! Á ég að berja þig?!
Mér er fokk sama hvort þú ert hommi, múslimi, mormóni, svartur, rauður, Pangender, Poligender, Omnigender, Frikki Dór eða eitthvað sem ég hef aldrei heyrt um áður. Ef þú ert góð manneskja skal ég endilega kynnast þér. En ekki voga þér að krefja mig um skilyrðislausa þekkingu og skilning á öllum þínum málum. Aldrei!
Athugasemdir