Í tilraun til að vera ábyrgur samfélagsþegn sendi ég þingmönnum Bjartrar framtíðar tölvupóst milli jóla og nýárs. Þá var uppi sú staða að Björt framtíð – flokkur sem lofað hafði kjósendum sínum kerfisbreytingum – virtist ætla í stjórnarsamstarf við flokk íhalds og útgerðar. Slík tilhögun gengi í berhögg við alla orðræðu Bjartrar framtíðar í kosningabaráttunni.
Dæmin eru óteljandi. Óttarr Proppé minntist tvisvar á mikilvægi þess að tryggja þjóðinni réttmæta hlutdeild í arði af sjávarauðlindunum í Forystusæti RÚV rétt fyrir kosningar, í stefnuskrá Bjartrar framtíðar er kvartað undan því að tekjur hins opinbera af sjávarauðlindinni séu í mýflugumynd og Björt Ólafsdóttir lýsti því yfir í viðtali að áherslur flokksins þýddu „miklar kerfisbreytingar.“
Tilgangurinn með skeytasendingunni var að benda þingflokki Bjartrar framtíðar á þá einföldu staðreynd að ekki verður hróflað við ofurvaldi útgerðarinnar í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn – flokk sem er fjárhagslega háður útgerðinni og hefur varið hagsmuni hennar með kjafti og klóm.
Líklegast myndi Sjálfstæðisflokkurinn reyna að afgreiða málið með loðnu orðalagi í stjórnarsáttmála eða fyrirheitum um að málin yrðu „skoðuð“:
Sjálfstæðisflokkurinn er bara ekki til umræðu um nauðsynlegar breytingar á sjávarútvegskerfinu. Ekki láta teyma ykkur á asnaeyrunum með loðnu orðalagi eða trú á því að það náist lending seinna. Þið væruð bara tjónvaldar, bæði á samfélaginu og á sálarlífi þjóðarinnar sem er svo óendanlega þreytt á svikum íslenskra stjórnmálamanna.
Nú líður og bíður, og stjórnarsáttmáli Bjartrar framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar lítur dagsins ljós. Þar segir:
Ríkisstjórnin telur kosti aflamarkskerfisins mikilvæga fyrir áframhaldandi verðmætasköpun í sjávarútvegi. Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.
Þetta þýðir beinlínis:
Ríkisstjórnin mun ekki hrófla við fiskveiðistjórnunarkerfinu. Málefni sjávarútvegsins verða þvæld í ýmsum ferlum. Engum raunverulegum umbótum verður náð fram.
Eftir stendur veigamikil spurning. Er Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega að plata Bjarta framtíð, eða er Björt framtíð að plata þjóðina?
Athugasemdir