Heill og sæll kæri lesandi. Í dag opnar listasýningin mín „101-2016“ í miðbæ Reykjavíkur, en hún byggir á fundinni list í bænum. Gestum sýningarinnar er boðið að ganga á milli eftirfarandi staða og njóta:
-
Sýningin hefst á Smiðjustíg fyrir utan hótelið sem er verið að byggja þar sem Grand Rokk og Faktorý voru á sínum tíma. Staldraðu við og hugsaðu um bestu tónleikana sem þú sást á Grand Rokk og/eða Faktorý. Var það Stereolab á Grand Rokk árið 2002 eða kannski sveittir pönktónleikar með Ælu á Faktorý klukkan þrjú um nótt eftir nokkra bjóra árið 2010? Reyndu að endurupplifa tilfinninguna og berðu hana síðan saman við gráa steinsteypuna sem blasir við þér og hugsaðu um hvernig gleði þín—og list í heild sinni—er einskis virði andspænis gróðanum sem ferðamenn skapa með komu sinni til landsins.
-
Næsta stopp er nemendagalleríið Kaffistofan á Hverfisgötu. Taktu eftir hvernig hún hefur bókstaflega verið jöfnuð við jörðu (eflaust til að reisa hótel eða auka hagvöxt á einn eða annan hátt). Hugsaðu um symbólismann sem er fólginn í rústum þessa gamla listagallerís. Hugsaðu síðan um hvað það er artí og asnalegt að hugsa um symbólisma þegar þú gætir verið að gúggla Kim Kardashian. Gúgglaðu Kim Kardashian.
-
Gangtu nú rakleiðis að Sólfarinu við Sæbraut og íhugaðu kjarkinn sem bjó í forfeðrum okkar, víkingunum, á meðan þú virðir fyrir þér 39 milljarða króna snekkju rússneska auðkýfingsins Andrey Melnichenko sem var í fyrra talinn 137. ríkasti maður í heimi. Reyndu að skilja upphæðina 39 milljarðar. Hvað myndir þú gera við slíka fjármuni? Myndirðu útrýma einhverjum vel völdum sjúkdómi í litlu Afríkuríki? Myndirðu endurreisa heilbrigðiskerfi Íslands eða kannski bara kaupa dýrustu sturtukranana sem mannkynið býður upp á fyrir fínu snekkjuna þína? Hugsaðu um alla þína drauma, vonir og væntingar og áttaðu þig síðan á því hvernig draumar, vonir og væntingar þínar eru lítils virði í samanburði við snekkjuna. Einn daginn verður þú kannski metin(n) á 39 milljarða og þá máttu vera til. Þangað til ertu fyrst og fremst „ekki snekkja“ í mínum bókum. Gúgglaðu Kim Kardashian aftur.
-
Farðu í Dogma, bolabúðina á Laugarveginum og kauptu þér bolinn sem er með mynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á og texta sem segir „Ekki minn forsætisráðherra“. Því eina boðlega svarið við áskorunum okkar tíma er að kaupa sér bol og vera doldið hip og neysluglaður með þetta allt saman. Áttaðu þig á því hvernig þú lifir fyrst og fremst til að halda lífi í hagkerfi heimsins og ekki öfugt og hvernig sum excel skjöl hafa haft meiri áhrif á gang mála í heiminum en þú nokkurn tímann.
-
Farðu loks á bar að eigin vali og drekktu áfengi til að stilla af kvíðann þinn.
Takk fyrir.
Athugasemdir