Davíð Rafn Kristjánsson er 34 ára gamall. Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri en fluttist á unglingsárunum til borgar óttans hvar hann hóf nám, fyrst í Kvennaskólanum í Reykjavík og síðar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hann var rótlaus og leitandi í barnæsku og átti erfitt með að finna sína hillu í lífinu þegar leið á fullorðinsár. Davíð nam lögfræði við Háskólann á Akureyri en fannst hann aldrei vera á réttum stað. Þegar honum bauðst svo árið 2006 að fara í skiptinám til Danmerkur eða Kína var hann ekki lengi að velja hið síðarnefnda. Segja má að þessi ákvörðun hafi verið upphafið að löngu og ströngu ferðalagi sem skilaði Davíð á þann stað sem hann er á í dag.
Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.
„Ég ákvað bara einn daginn að verða rithöfundur“
Líf hans hefur ekki alltaf verið leikandi. Hann starfaði í íslenska fjármálageiranum á árunum fyrir hrun, var skuldum vafinn og leið eins og hann væri fangi eigin lífs. Davíð Rafn Kristjánsson var að gefa út sína fyrstu skáldsögu, Burning Karma, hjá breska forlaginu Wild Pressed Books. Hann hafði ekkert skrifað nema þurrar lögfræðiritgerðir þegar hann byrjaði á sögunni. Davíð vinnur nú að nýrri skáldsögu um listamann en segist hvorki skilja nútímalist né listir almennt. Hann málar myndir í þeim tilgangi að skilja umfjöllunarefnið betur og líkir lífinu við einlægt rannsóknarverkefni í þágu listagyðjunnar.
Athugasemdir