Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Barnleysi, einvera og brjálæði: Bræðurnir að baki flóknasta tölvuleik allra tíma

Flókn­asti tölvu­leik­ur í heimi, sem kall­að­ur hef­ur ver­ið lista­verk í kóða og er guð­fað­ir Minecraft er goð­sögn með­al for­rit­ara en að mestu óþekkt­ur með­al al­menn­ings. „Þeg­ar þú spil­ar Dwarf Fortress þá ert þú guð, og heim­ur­inn tal­ar við þig.“

Barnleysi, einvera og brjálæði: Bræðurnir að baki flóknasta tölvuleik allra tíma
Stórbrotið. Aðdáendur leiksins eru iðnir við að skapa listaverk byggð á upplifun sinni í leiknum.

Þrátt fyrir að tölvuleikir séu farnir að velta meiru á heimsvísu en kvikmyndir eru enn margir sem líta niður á þá sem listform. Þeir sem spila tölvuleiki hafa í gegnum tíðina verið stimplaðir latir tímamorðingjar sem gleymi sér í ævintýraheimi sem þeir nota til að flýja raunveruleikann. Sögur af fólki sem einangrast félagslega, þarf að fara í meðferð og jafnvel deyr vegna óhóflegrar tölvuleikjaspilunar, virka svo eins og olía á eld staðalímyndarinnar.

Árið 2012 opnuðust hins vegar augu margra fyrir tölvuleikjum sem listformi þegar MoMA, nútímalistasafnið í New York, eitt það virtasta í heimi, tók til sýningar 14 tölvuleiki sem þeim fannst vera til marks um áhrif miðilsins og möguleika hans sem striga í listsköpun. Horfðu stjórnendur sýningarinnar meðal annars til útlits og upplifunar við spilun leikjanna, en einnig lögðu þeir áherslu á fegurð forritunarinnar, hegðun leikmanna við spilun og áhrif þeirra á þróun greinarinnar. Á listanum voru gamalkunnar kempur eins og Tetris, Pac-Man og SimCity 2000, en einnig nýrri titlar eins og The Sims, Portal og hinn íslenski EVE Online.

Einn titill á listanum var þó minna þekktur en aðrir. Margir ráku upp stór augu þegar þeir sáu leikinn Dwarf Fortress í þessari fræknu upptalningu. Hann var óumdeilanlega minnst þekktasti leikurinn, og við fyrstu sýn virtust skjáskot úr honum ekki einu sinni sýna venjulegan tölvuleik, heldur einungis tákn og stafi í mismunandi litum, stráð handahófskennt yfir skjáinn. Snobbuðustu listaspírurnar sögðu að leikurinn liti út eins og tölvan sem spilaði hann væri biluð.

En hvernig leikur er Dwarf Fortress? Og hvers vegna hafa allir helstu leikjahönnuðir heims haft hann til hliðsjónar við sína sköpun síðustu 10 ár? Og hvers vegna þekkir hann enginn? Og hvers vegna gefast 90% allra þeirra sem spila hann upp á honum áður en þeir geta lært á hann? Og hverjir eru bræðurnir dularfullu sem standa að baki honum og segjast ætla að eyða ævinni í leikinn?

Það er gaman að tapa

Tarn Adams.
Tarn Adams. Stærðfræðingur og forritari leiksins.

Dwarf Fortress er hermilíkan. Í stórum dráttum er hugmyndin sú að þú stjórnar litlu samfélagi dverga sem eru landnemar að reyna að stofna nýtt samfélag. Leikurinn hefst á því að skapaður er fyrir þig heimur, með gríðarlega flóknu landslagi, veðri og mörg hundruð ára sögu þar sem heimsveldi, hetjur og goðsagnir urðu til og lifðu viðburðaríku lífi og hurfu svo á braut, aðeins fyrir þig, aðeins í tölvunni þinni. Tarn Adams, eini forritari leiksins, hefur legið yfir fræðibókum í jarðfræði, veðurfræði og sálfræði, svo fátt eitt sé nefnt, til þess að gera sköpun heimsins eins nákvæmlega og raunverulega og hugsast getur. Bróðir hans, Zach, sem er hinn höfundur leiksins, er sagnfræðingur og byggist andrúmsloft leiksins að miklu leyti á hans framlagi.

Zach Adams.
Zach Adams. Sagnfræðingur og hugmyndafræðilegur ráðgjafi leiksins.

Eftir að sköpun heimsins er lokið færð þú að velja þér lítinn blett á plánetunni þar sem þú vilt hefjast handa. Þú velur þér sjö dverga til að koma á nýrri byggð. Konur og karlar gegna sömu störfum, en eitthvað hefur borið á því að kvendvergar þyki óheppilegar til starfa í hernum, því séu þær óléttar og fæða á meðan orrusta er í gangi taka þær barnið einfaldlega upp og halda áfram að berjast. Hæfni dverganna í hinum ýmsu iðngreinum, bardagaaðferðum og félagslegri færni er handahófskennd. Það er hinsvegar alfarið undir leikmanninum komið, eftir því hvernig hann kýs að spila leikinn, hvernig þeir þróa þá hæfni sína. Þar fyrir utan er hver og einn dvergur afskaplega flókin persóna, með sitt eigið útlit, langanir og þrár, sem munu hafa gríðarleg áhrif á það hvernig leikurinn spilast.

Upphafssena leiksins setur tóninn fyrir hryllinginn sem koma skal.

Í byrjun leiksins mæta dvergarnir á staðinn með vagn fullan af húsdýrum og öðrum hlutum sem þú hefur ákveðið að séu hentugir til að koma á nýju samfélagi. Hvað svo gerist næst er algjörlega í þínum höndum. Áfengi er dvergunum nauðsynlegra en vatn en þeir verða gríðarlega þunglyndir og framtakslitlir, fái þeir ekki bjór eða vín. Því gætir þú til dæmis ákveðið að rækta sveppi neðanjarðar til þess að brugga úr. Mögulega vilt þú byggja risavaxna höll úr granít eða stáli svo hægt sé að verjast eineygðum risum, fljúgandi fílum eða her viti borins ljónafólks. Vilt þú grafa þig niður í jörðina eins langt og þú mögulega getur og hugsanlega (mjög líklega) finna þar einhverjar algjörlega djöfullegar verur sem munu reyna að tortíma dvergunum þínum og öllu sem þeir hafa skapað? Eða viltu kannski gera þetta allt, eða ekkert af þessu, eða eitthvað allt annað? Möguleikarnir í þessum leik eru bókstaflega endalausir. Engir tveir dvergar eru eins og engir tveir spilarar spila eins. Hver einasta spilun mun svo örugglega enda í einhverjum algjörum hryllingi og með tapi. Þaðan kemur einmitt slagorðið sem aðdáendur leiksins hafa skapað fyrir hann; Losing is fun // Það er gaman að tapa.

Útlit leiksins er kannski fráhrindandi í fyrstu, þar sem leikurinn er allur teiknaður upp úr táknum í hinu svokallaða ASCII [e. American Standard Code for Information Interchange] stafrófi. En eftir því sem árstíðirnar breytast fara trén, sem birtast eins og hin ýmsu tákn, úr því að vera græn yfir í að vera gul. Augu púkanna eru rauðar gæsalappir, en ef þú skýtur annað þeirra með ör, verður það að kommu. Venjuleg manneskja horfir á ♠§dg og sér tóma dellu en innvígður Dwarf Fortress-spilari hins vegar sér flóknari mynd: Hundur sem er bundinn við tré er í þann veginn að verða étinn af trölli. Á einum spjallþræði líkti aðdáandi leiksins ASCII upplifun Dwarf Fortress við dýptina sem fæst við að lesa góða bók: „Maður lætur ímyndunaraflið fylla í eyðurnar.“ 

Harmleikur.
Harmleikur. Dæmi um virki þar sem allt hefur farið hræðilega úrskeiðis. Íbúarnir hafa ekki náð að draga upp vindubrúnna áður en árás drýsla skall á. Herinn réð ekki við fjöldann og slátrunin á almennum borgurum varð algjör. Grafhvelfing og sjúkrahús troðfylltust og afgangur íbúanna rotna á víð og dreif, sem svo orsakar ský rotnunar og viðbjóðs við innganginn. Tilkynning um týnt barn er svo punkturinn yfir þetta hræðilega i.
 

Samfélagið sem sprottið hefur upp í kringum Dwarf Fortress þykir ótrúlegt. Aðdáendur leiksins halda úti vandaðri wiki-síðu, alfræðiorðabók sem er besti, og í raun eini leiðarvísirinn að því hvernig spila eigi leikinn. Tarn og Zach viðurkenna sjálfir að þeir noti síðuna við gerð leiksins. Fólk heldur úti hlaðvarpi tileinkuðu leiknum og sérstakir fundir eru haldnir þar sem spilendur hittast á börum í heimagerðum Dwarf Fortress-fötum. Á spjallborðum leggur fólk til hugmyndir fyrir leikinn og Tarn hefur notað sumar þeirra. Síðasta vor skrifaði leikmaður, sem kallar sig Jong89, um ótrúlega tilraun sem hann gerði. Með því að nota „672 dælur, 2.000 trjádrumba, 8.500 vélarhluti og þúsundir annarra hluta eins og hurða og grjóthnullunga“ hafði honum tekist að búa til frumstæða tölvu, sem þó virkaði, innan í tölvuleiknum.

Hliðarverk varð að ævistarfi

Förum tíu ár aftur í tímann. Stærðfræðiprófessorinn Tarn Adams hafði nýverið lokið við ár af kennslu og rannsóknum við A&M háskólann í Texas. Hann lauk árinu áður doktorsgráðu frá hinum virta Stanford-háskóla, en var að verða fráhverfur fræðalífinu sem hann hafði stefnt að öll sín fullorðinsár. Hjá honum var engin spurning um færni í stærðfræði, heldur ástríðuna, sem lá annars staðar - í tölvuleikjum.

Frá barnæsku og samhliða háskólanáminu hafði Tarn fiktað við forritun og tölvuleikjagerð. Eftir ár við kennslu og fræðastarf áttaði hann sig á því að hann kærði sig ekki um þetta líf. Hann vildi helga sig alfarið forritun tölvuleikja. Hann sagði því upp starfi sínu við skólann, en samþykkti þó að starfa þar ár í viðbót eftir að hafa fengið boð um starfssamning upp á 50.000 dollara.

Tarn hófst strax handa. Árið 2002 hafði hann byrjað að vinna að leik að nafni dragslay, sem var hlutverkaleikur undir miklum áhrifum frá hlutverkaleiknum Dungeons & Dragons, allur spilaður með texta, svokallaður text based adventure game. Nokkrum árum síðar hóf hann svo vinnslu á leik sem var byggður á dragslay sem hét Slaves to Armok, God of Blood. Í leiknum, sem er tvívíður, fer spilarinn í hlutverkaleik innan ævintýraheims og berst við púka.

Á milli þess sem Tarn hamraði inn kóða fyrir Armok, eins og hann var kallaður, og stundaði nám sitt, vann hann að hliðarverkefnum, en eitt þeirra átti á endanum eftir að gjörbreyta tilveru hans. Það hófst með leiknum Mutant Miner. Þar grefur spilarinn sig undir byggingar í leit að verðmætum málmum, berst við skrímsli og fer með geislavirkt sull aftur upp á yfirborðið í þeim tilgangi að láta vaxa á sig auka útlimi, svo eitthvað megi nefna.  

Tarn var ósáttur við að vera aðeins með einn námugrafara, auk þess sem þung forritun leiksins gerði það að verkum að hann gekk sífellt hægar eftir því sem leið á leikinn. Adams hefur sjálfur lýst hugsanagangi sínum á eftirfarandi máta:

Viltu dverg?
Viltu dverg? Margir þeirra sem spila leikinn af kappi finnst aðrir tölvuleikir mikið sorp.

„Í stað þess að endurforrita allan leikinn hugsaði ég að kannski ættu þetta að vera dvergar í staðinn. Og leikurinn ætti að gerast í rauntíma til að komast hjá hægaganginum. Leikmaðurinn gæti grafið góðmálma úr fjöllum, barist við ógnir innan í þeim, búið til litlar vinnustofur. Svo hugsaði ég hvernig hægt væri að skrásetja spilun leikmannsins. Mér finnst gaman að halda skrár yfir hvernig leikir spilast. Ekki bara lista með stigum, heldur nákvæma skráningu. Þannig við reyndum oft að finna frumlegar leiðir til þess að finna út úr því. Í þetta skiptið var hugmyndin að leyfa spilaranum að koma aftur inn í námuna eftir að þú tapar, þar gætir þú fundið bikar sem þú smíðaðir, og lesið sögu heimsins sem varð til.“ Þannig varð hugmyndin, sem seinna varð að tölvuleiknum Dwarf Fortress, til. 

Tarn segir tölvuleikjasköpun klóra í alla sömu kláðablettina og stærðfræði: „Eftir að hafa leyst stærðfræðivandamál þá ertu með ritgerð í höndunum, kannski birtir þú hana einhvers staðar, og hún getur verið grunnurinn að nýrri grein innan stærðfræðinnar, en hvað mig varðar er það ekki svo mikilvægt. En að vinna að vandamáli og að vera með tölvuleik í höndunum að því loknu, mér finnst það ansi svalt.“

Eiga bara hvor annan

Tarn viðurkennir að hafa verið mikill einfari í skóla. „Öðru hvoru átti ég vin og við spjölluðum saman og grínuðumst og eitthvað, en ég spilaði ekki íþróttir eða spjallaði við fólk,“ segir hann. „Ég var svona „koma-heim-úr-skólanum, fara-beint-í-tölvuna“-krakki.“ Í menntaskóla eignaðist hann einn náinn vin, Alan Ames, en þeir halda enn einhvers konar sambandi. „Við eyddum helgunum í að búa til tölvuleiki, eða kjánalegar ‘Star Trek’-paródíur með myndbandsvél pabba hans,“ segir Ames, sem nú er vélaverkfræðingur, sérhæfður í að hanna flugvélar og geimför. „Honum var algjörlega sama um allt félagslíf. Það þurfti virkilega að þrýsta á hann til þess að ganga í stærðfræðiklúbbinn.“

Í æsku lá Tarn dolfallinn yfir Dungeons & Dragons-hlutverkaspilum, og verkum J.R.R Tolkien, en hann var samt aldrei fullgildur meðlimur í lúða-kúltúrnum. Þar var hann einnig aðeins á jaðrinum. Hann las ekki ofurhetjublöð sem barn, og seinna varð hann aldrei upptekinn af ‘Game of Thrones’-bókunum. Hann útskrifaðist úr Dungeons & Dragons og gekk inn í hinn dularfulla heim Cyberpunk 2020 hlutverkaspilanna og frumstæðra tölvuleikja sem hann og Zach bróðir hans hlóðu niður af fyrstu spjallborðum internetsins.

Tarn talar um Zach sem besta vin sinn. Nánd bræðranna er afleiðing þess að fjölskyldan fluttist oft búferlum þegar þeir voru börn, vegna starfa Dan Adams, pabba þeirra. Þegar Tarn var 18 ára hafði fjölskyldan flutt sig frá Washington til Kaliforníu, til New Hampshire og aftur til Washington. Bræðurnir tveir voru eini fastinn í lífi hvor annars, fyrir utan foreldrana. „Það hefur komið fyrir að ég hafi farið og gert mína eigin hluti,“ segir Zach, „en ég hef alltaf komið aftur til Tarn.“

Árið 2007, þegar Tarn flutti frá Texas aftur til Washington, bjó hann heima hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Silverdale. „Ég vildi vera nálægt Zach,“ hefur hann sagt, til þess að eiga auðveldara með að vinna saman að leiknum og vegna þess að Zach, sem vann eftir útskrift í vöruhúsi Amazon.com og sem hafnarverkamaður, var að „fara í gegnum smá tímabil.“ Zach, sem hefur gefið til kynna að hafa átt í vandræðum með áfengi (hann drekkur ekki lengur), var eitt sinn kvæntur í tvö ár, en það hjónaband tók enda og hefur hvorugur bróðirinn viljað tjá sig um það frekar.

Bakgrunnur Zach í fornaldarsögu hefur komið að góðum notum við gerð leiksins og hefur skapað mikið af andrúmsloftinu sem er í hringum Dwarf Fortress. Þegar drýslar sigra óvini sína húðfletta þeir þá og láta blóðugt hörundið blakta í háum turnspírum, viðbjóðslegt smáatriði sem bræðurnir fengu úr bók um Assýringa sem Zach hafði lesið.

Útskýring.
Útskýring. Gerð hefur verið tilraun til að útskýra leikinn fyrir nýjum spilendum með þessu handhæga korti.

Tarn býr í tveggja svefnherbergja íbúð. Stærra herbergið er vinnuaðstaða þar sem hann forritar og er að mestu tómt fyrir utan skrifborð, innrammaða mynd af kettinum hans, Scamps, og klórutré kattarins. Í stofunni eru tvö grá plast-útileguborð, nokkur borðspil og kassar af Xbox og Playstation tölvuleikjum. Tarn segist sjaldan snerta þá af því „þeir eru flestir algjört drasl“. Eina húsgagnið í borðstofunni er kattakassi.

Afgangurinn af íbúðinni er eins og íbúinn hafi aldrei alfarið flutt inn, en svefnherbergið er eins og íbúinn hafi aldrei farið út. Krumpuð nærföt, pappakassar og bækur á víð og dreif um teppið. Krossviðarplata með svartri einangrunarfroðu fyllir algjörlega upp í gluggann og er fest þar með járnþvingum. Tarn vaknar klukkan 15.00 á hverjum degi, forritar fram á nótt og fer að sofa klukkan 6.00. Krossviðurinn heldur svefntruflandi dagsbirtunni utan herbergisins, sem er eins og dýflissa sérútbúin fyrir forritandi vampíru.

Á góðviðrisdögum rölta bræðurnir eftir göngustíg sem liggur í gegnum mýrarsvæði meðfram ríkishraðbraut nr. 3, framhjá áningarstöðum með plastborðum og almenningssalernum. Þeir horfa á beinar útsendingar frá réttarhöldum heima hjá foreldrum sínum og borða eina máltíð á dag, en flestir veitingastaðir eru aðeins opnir í nokkrar klukkustundir eftir að Tarn vaknar. Þeir fá sér Quiznos, kalkúnasamloku úr kjörbúð eða rótaröls-íspinna og lúkufylli af þurru morgunkorni þar sem Tarn er með mjólkuróþol.

Hann hefur verið einhleypur síðan hann byrjaði í háskóla þegar hann var í stuttu sambandi við kerfisfræðing. Aðspurður um barneignir hefur hann sagt: „Hugmyndin um að eignast aldrei börn truflar mig ekki. Ég vil geta einbeitt mér að leiknum, og ef ég ætti börn færi ég að eyða athygli minni í þau í staðinn.“

Hann hefur lýst svipaðri afstöðu varðandi það að vera í sambandi. „Ef ég væri úti í búð einn daginn og einhver reyndi virkilega mikið við mig og ég hefði sama áhuga þá væri ég líklegur til að hrífast með því, en það er ekki eitthvað sem ég er að gera ráð fyrir.“ Hann segir áhuga sinn á þannig hlutum hafa minnkað. „Það er auðveldara að pæla ekki í þessum hlutum þegar maður er á fertugsaldri.“

Bíldrusla með tólf strokka ofurvél

Dwarf Fortress hófst sem sagt sem einfaldur leikur í námugreftri. Bræðurnir unnu fjögur ár að ævintýraleik sem var í þrívídd, sem hét ‘Slaves to Armok: God of Blood’. Á milli bardaga var hægt að skoða nákvæmlega hversu krulluð hárin á leikmanninum voru og bræðslumark hinna ýmsu málma. „Þetta var algjört brjálæði,“ sagði Tarn.

Þeir stofnuðu fyrirtæki að nafni Bay 12, og gáfu sjálfum sér gælunöfnin Toady One (Tarn) og ThreeToe (Zach). Bræðurnir settu inn litla leiki sem fólk gat spilað ókeypis og aðdáendahópurinn óx í um 300 manns. Tarn fannst svo óþolandi tímafrekt að forrita í þrívídd, og Dwarf Fortress varð til sem þægilegt aukaverkefni, undir sínu fulla nafni: Slaves to Armok: God of Blood Chapter II: Dwarf Fortress. [ísl. Þrælar Armoks: Guð blóðsins Kafli II: Virki Dverganna.]

Í þrívídd.
Í þrívídd. Leikurinn er allur í tvívídd, en önnur forrit gera fólki mögulegt að sjá leikinn í þrívídd. Hér er til dæmis risavaxin stífla sem hefur verið gríðarlegt verk að byggja.

Brátt hættu þeir alfarið að vinna að Armok og Dwarf Fortress tók yfir. Hann erfði hátt flækjustigið frá fyrri leiknum en fékk algjörlega nýtt útlit. Hann er eins og bíldrusla með tólf strokka ofurvél malandi undir húddinu. „Vinnsluminnið sem Dwarf Fortress þarfnast er á við forrit sem verkfræðingar í flugvéla- og geimfarageiranum nota við sína hönnun og smíði,“ sagði vélaverkfræðingurinn Ames, vinur þeirra. „Það eru flóknari útreikningar í Dwarf Fortress heldur en þegar verið er að reikna út og hanna loftflæði flugvélarvængs.“

Hátt flækjustig.
Hátt flækjustig. Svo flókið er að læra leikinn að flestir sem reyna það gefast upp.

Þegar allt kemur til alls er Dwarf Fortress leikur. Hermivél til þess að leika sér með. Margir tölvuleikir reyna að herma eftir útliti og uppbyggingu kvikmynda, með söguþræði sem er meira og minna óbreytanlegur, sem færist áfram eftir að þú klárar ákveðin verkefni. Þetta getur verið skemmtilegt en einnig þvingað upp að því marki að þér líður eins og mús í völundarhúsi sem verið er að lokka áfram með misstórum og skemmtilegum ostbitum.

Tarn sér Dwarf Fortress fyrir sér sem eitthvað allt annað, sem algjörlega opna „vél sem framleiðir sögur“. Hann og Zach ólust upp við að spila tölvuleiki með stílabók í hönd, og þeir teiknuðu skepnurnar sem þeir börðust við og skráðu niður ævintýri sín með miklum smáatriðum. Dwarf Fortress, sem aldrei spilast eins, tekur þessa dýpri og nákvæmari upplifun af því að spila tölvuleiki í eins mikla öfga og hugsast getur.

Tarn lítur líka svo á að vinna hans að leiknum hafi siðferðislega mikilvægt gildi. Hann kallar leiki eins og Angry Birds og Candy Crush „ofbeldi“, þeir fangi spilendur í ávanabindandi hringrás pirrings og fróunar undir því yfirskyni að hæfni þurfi til að sigra. Fórnarlömb þessara leikja ættu kannski ekki erfitt með að taka svo sterkt til orða, en fæstir leikjahönnuðir myndu kannski ganga svo langt, því að eitt helsta markmið þeirra hlýtur að vera að gera leikmenn háða sínum leikjum. „Margir vinsælir tölvuleikir reyna að virkja áráttukennd í fólki, eins og söfnunaráráttu, þörfina til að ná árangri með því að safna stigum eða hlutum. Fólk situr, spilar, skemmtir sér stórvel, segir „já-já-já“ en vaknar svo og hugsar „hvað í andskotanum var ég að gera?“ Þú getur kallað þetta skemmtun, en aðeins ef þú kallar spilafíkn skemmtun á sama tíma.“

Ókeypis og óþolandi flókinn

Dyntir Tarns hafa vissulega kostað hann spilendur, en hann segir að sér gangi vel. Hann hefur engin áform uppi um að rukka fyrir leikinn og reiðir sig alfarið á frjáls framlög leikmanna í gegnum PayPal. „Ég kann að meta að hann sé ókeypis, og ef þú kannt að meta leikinn, þá ertu kannski til í að borga fyrir hann.“ Árið 2010 þénaði hann um 50.000 dollara, rúmar 6 milljónir króna. Útgjöldin eru lítil – um 100 þúsund krónur á mánuði í leigu, 90.000 krónur í laun handa Zach fyrir hans hjálp og nokkur hundruð dollarar í mat og annað smálegt – á meðan Dwarf Fortress stendur undir sér þá er hann sáttur. Hann hefur afþakkað starf við forritun hjá netrisa sem Tarn hefur ekki viljað nefna á nafn og hafnaði 50 milljóna króna boði frá fyrirtæki sem vildi fá að nota nafn Dwarf Fortress, því hann óttaðist að það gæti fælt frá spilendur leiksins.

Þrátt fyrir að Dwarf Fortress virðist rembast við að vera eins óaðgengilegur og ómarkaðsvæddur og hugsast getur hefur hann samt haft gríðarleg áhrif á þróun og hönnun í tölvuleikjaheiminum. Forritarar Sims 3, eins mest selda tölvuleiks allra tíma, viðurkenndu að hafa spilað Dwarf Fortress daglega við gerð leiksins. Fjölmargar vísanir eru í Dwarf Fortress í metsöluleiknum World of Warcraft. Richard Garfield, skapari hinna vinsælu Magic: The Gathering-spila, fór eitt sinn á aðdáendamót Dwarf Fortress í Seattle og kynnti sig þar fyrir Tarn. „Ég sagði honum að það væri enginn leikur eins og þessi til í heiminum, ekkert jafnaðist á við hann,“ rifjar Garfield upp. Hann lagði til breytingar sem gætu gert leikinn meira aðlaðandi en „þannig hlutir skipta Tarn engu máli. Það sem er svo heillandi er að hann gerir nákvæmlega leikinn sem hann langar til að gera.“

Innblástur.
Innblástur. Fjölmargir spilarar hafa notað leikinn sem innblástur að öðrum verkum. Myndasögur byggðar á leiknum eru til dæmis mjög vinsælar meðal leikmanna.

Paola Antonelli, sýningarstjóri arkitektúrs og hönnunar á MoMA, var sú sem sá um að velja leikina fyrir tölvuleikjasýningu safnsins. Sagðist hún vera furðu lostin yfir blöndunni af „ótrúlegu útliti og óhugsanlegu flækjustigi“ Dwarf Fortress. „Þegar þú spilar Dwarf Fortress þá ert þú guð, og heimurinn talar við þig,“ sagði Antonelli, og bætti við „Og þú ert algjör skíthæla-guð.“

Á sama tíma og örfáir þrjóskupúkar ná að spila Dwarf Fortress og njóta þeirrar gríðarlegu vinnu og hugsunar sem lögð hefur verið í hann hefur annar leikur, Minecraft, algjörlega slegið í gegn á heimsvísu og skilað milljónum dollara í vasa hins sænska skapara hans, Markus „Notch“ Persson. Markus hefur sjálfur viðurkennt að Minecraft sé aðeins klón af Dwarf Fortress. Gríðarlega einfaldað og aðgengilegt klón. En þrátt fyrir að vinsældir Minecraft hafi skilað Tarn fleiri forvitnum spilendum talar hann um leikinn sem „sorglega útvatnaða útgáfu af okkar eigin sköpun“. En hann hefur þó einnig bætt því við að vandamálið sé ekki Minecraft. „Samfélagið er vandamálið.“ 


Ítarefni:

Þægilegasta leiðin fyrir nýja spilendur er að byrja á að ná sér í hinn svokallaða Lazy Newb Pack:
Dwarf Fortress Lazy Newb Pack

Næst væri sniðugt að horfa á kennslumyndbönd sem fara rækilega í gegnum leikinn skref fyrir skref. Captain Duck er goðsögn meðal leikmanna og gott að hafa hann sem ráðgjafa:

Wiki-síða leiksins er bókstaflega ómissandi við spilun:
The Dwarf Fortress Wiki

Er Dwarf Fortress flóknasti tölvuleikur allra tíma?

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Nútímalist

„Ég ákvað bara einn daginn að verða rithöfundur“
Viðtal

„Ég ákvað bara einn dag­inn að verða rit­höf­und­ur“

Líf hans hef­ur ekki alltaf ver­ið leik­andi. Hann starf­aði í ís­lenska fjár­mála­geir­an­um á ár­un­um fyr­ir hrun, var skuld­um vaf­inn og leið eins og hann væri fangi eig­in lífs. Dav­íð Rafn Kristjáns­son var að gefa út sína fyrstu skáld­sögu, Burn­ing Karma, hjá breska for­laginu Wild Pressed Books. Hann hafði ekk­ert skrif­að nema þurr­ar lög­fræði­rit­gerð­ir þeg­ar hann byrj­aði á sög­unni. Dav­íð vinn­ur nú að nýrri skáld­sögu um lista­mann en seg­ist hvorki skilja nú­tíma­list né list­ir al­mennt. Hann mál­ar mynd­ir í þeim til­gangi að skilja um­fjöll­un­ar­efn­ið bet­ur og lík­ir líf­inu við ein­lægt rann­sókn­ar­verk­efni í þágu lista­gyðj­unn­ar.

Mest lesið

Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
2
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.
„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
5
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár