Það var síðdegis á nýársdag fyrir hundrað árum og hálfum mánuði, 1. janúar 1917. Mannfjöldi stendur á bökkum árinnar Malaja Nevka sem er ein af greinum stórfljótsins Nevu er það fellur til sjávar gegnum óshólma þar sem Pétursborg hafði verið reist tveim öldum áður. Við erum sem sagt í Rússlandi. Og mestallur mannfjöldinn hefur safnast saman við 300 metra langa trébrú yfir ána, Bolsjoj Petrovskí. Daginn áður höfðu verkamenn veitt því athygli að einhvers konar blóðdreifar var að finna á afmörkuðu svæði á brúnni og í grindverkinu þar rétt hjá sat föst gúmmískóhlíf af vandaðri sort.
Hin augljósa ályktun lögreglunnar, sem var kölluð á staðinn, hlaut að vera sú að þarna hefði líki verið kastað í ána. Umferð um Bolsjoj Petrovskí var því stöðvuð og lögreglumenn höfðu byrjað að leita á árbökkunum neðan við brúna. Kafarar voru kallaðir til en varð ekki ágengt þennan fyrsta dag. Það dimmdi snemma og heldur ekki auðvelt að athafna sig í ísköldu árvatninu, það var meira en 12 gráðu frost og áin víða lögð ís eða íshröngli.
Á nýársdag hafði leitin haldið áfram af endurnýjuðum krafti, enda hafði lögreglan þá sannfrétt og reyndar frést um alla borgina, að vissulega væri maður týndur sem ástæða væri til að óttast um, og frést hefði af fullum mönnum að stæra sig af því að hafa drepið hann og falið líkið. Svo kafarar voru enn sendir niður í ískalda ána og spennan jókst meðal áhorfenda. Gæti verið að hinn týndi hefði þá verið myrtur og kastað í Malaja Nevka af morðingjum sínum?

Já, svo reyndist vera. Hróp frá einum kafaranum, sem birtist hrollkaldur upp um vök á ánni, gáfu það skýrt til kynna. Menn flykktust að, fleiri kafarar voru sendir niður í vökina með reipi og svo var togað og brátt var dröslað upp á ísinn gaddfreðnu líki af karlmanni um fimmtugt, hann hafði verið klæddur í slopp eða kufl og það lá í augum uppi að dauða hans hafði ekki borið að með neinum eðlilegum hætti. Fæturnir höfðu verið bundnir saman og skrámur voru á úlnliðum sem bentu til að hendurnar hefðu líka verið bundnar. Það snæri hafði þó losnað svo það var eins og líkið hefði lyft höndum í einhvers konar hinstu bón. Þegar sítt hár líksins hafði þiðnað frá enninu, þá kom í ljós illúðlegt skotsár.
Og voldugt og auðþekkjanlegt nef.
Það fór kliður um mannfjöldann. Allir vissu hver þetta var og allir vissu að hans hafi verið leitað af ákefð um alla borgina í sólarhring.
Og allir vissu að hin almáttugu keisarahjón Rússlands yrðu miður sín þegar fréttist af þessu frosna líki.
Mannsöfnuðurinn á árbakkanum var hins vegar langt í frá miður sín. Kliðurinn bar ekki vott um sorg. Þvert á móti heyrðust gleðihróp þegar ljóst var að þarna var Grígorí Raspútín dauður.
Kannski, já, kannski yrði nú Rússlandi bjargað.

Marxísk framrás sögunnar
Það er svolítið kúnstugt að hún er gjarnan kennd við marxisma, sú söguskoðun að einstaklingar – sama hve fyrirferðarmiklir þeir virðist vera – hafi í raun lítil sem engin áhrif á framrás sögunnar. Þar séu ævinlega dýpri lögmál að verki – lögmál samfélagsbaráttu, stéttabaráttu, lögmál efnahagsmála eða þjóðernishreyfinga eða bara einhver lögmál, bara að viðurkennt sé að allt annað en einstaklingar ráði gangi sögunnar, sögðu marxískir sagnfræðingar.
Og þeir áttu sína sæludaga í Sovétríkjunum sálugu, þar sem marxisminn var jú gunnfáni valdaráns Bolsévíka haustið 1917 eftir að bylting hafði hrakið keisarastjórn Romanov-ættarinnar frá völdum í mars þar sama ár. Hin marxíska söguskoðun var í Sovétríkjunum heilagur sannleikur sem goðgá var að hrófla við, já, allt að því glæpur.
Þeir gátu ekki og vildu ekki horfast í augu við það, leiðtogar Sovétríkjanna, að valdataka þeirra sjálfra hefði kannski ekki verið sú sögulega nauðsyn sem þeir létu kenna, ekkert annað en stjórn þeirra hefði getað leyst vandamál Rússlands. Og þeir hristu höfuðið ákveðnir því var haldið fram að kannski væri það meira og minna tilviljun að þeir sátu í Kreml en ekki einhverjir allt aðrir með aðrar skoðanir; og þeir fengu beinlínis hroll þegar til dæmis var ýjað að því að helfrosna líkið sem veitt var upp úr Malaja Nevka ætti kannski sinn ríka þátt í byltingunni og síðar valdaráni þeirra, borgarastríði, o.s.frv., o.s.frv.
Og kannski hefði ekkert af öllum þessum atburðum gerst ef þessi tiltekni hefði ekki verið drepinn á þessari stundu.
En hver skyldi vera sannleikurinn í því máli? Hvert var í raun hið sögulega mikilvægi Raspútíns?

Óheppilegur keisari
Þegar kom fram undir miðja 19. öld voru flest Evrópuríki komin vel á veg burt frá því kónga- og keisaraeinræði sem verið hafði plagsiður um alla álfuna. Þróunin var mishröð en virtist óaflátanleg. Þegar Alexander II varð keisari Rússlands 1855 fór hann meira að segja að slaka á einræðisklónni austur þar. En hann var myrtur af áköfum byltingarmönnum árið 1881 og sonur hans Alexander III tók þann pól í hæðina að snúa af frjálslyndisstefnu föður síns og herða tökin á ný. Þessi Alexander var þröngsýnn og strangur og dó svo árið 1894 og þá tók 26 ára gamall sonur hans við, Nikulás II.
Nikulás var skrýtinn keisari, og því miður einhver sá óheppilegasti sem örlögin hefðu getað valið Rússum á þeirri stundu. Hann var maður mjög lítilla hæfileika og sér í lagi andlega hafði hann ekkert til brunns að bera. Hann var vissulega ekki illmenni en honum var fyrirmunað að skilja að Rússland og allir Rússar væru ekki persónuleg eign hans. Ungur að árum ferðaðist hann til Vesturlanda þar sem lýðræðisþróun var komin vel á veg og menn höfðu fyrir löngu áttað sig á að einræði eins manns væri vísasti vegurinn til heljar. Og Nikulás lét sér ágætlega líka það sem hann sá og upplifði þar vestra.
En ekki var við það komandi að hann leiddi einu sinni hugann að því að lærdómurinn úr vestri gæti gagnast Rússum. Hann sat pikkfastur á því hörkulega priki þar sem pabbi hans hafði neglt hann niður, og trúði fastlega þeirri þjóðsögu sem rússneskir einveldiskeisarar höfðu barið inn í þjóð sína gegnum aldirnar – að með einhverjum hætti þyrftu Rússar umfram aðrar þjóðir á „sterkum manni“ að halda. Enginn nema slíkur „sterkur leiðtogi“ gæti stjórnað hinu víðáttumikla Rússlandi. Leiðtogar allt frá Ívani grimma til Péturs mikla og frá Stalín til Pútins hafa notið góðs af trú Rússa á þessa vitleysu.
Hjónin héldu einræðinu saman
Og stærsti gallinn við Nikulás sem „sterka manninn“ í Rússlandi var auðvitað sá að hann var alls ekki sterkur leiðtogi. Hann var afar feiminn þrátt fyrir þrákelkni sína og hafði í reynd lítinn sem engan áhuga á þeim stjórnarstörfum sem hann neitaði þó að láta í hendur annarra.

Það bætti ekki úr skák að Nikulás valdi sér að eiginkonu Alix nokkra, þýska prinsessu frá Hessen sem reyndar var dótturdóttir Viktoríu Bretadrottningar. Þau hjón urðu afar samrýnd og hann tók ævinlega fullt mark á dómgreind hennar – en því miður var dómgreind Alix jafnvel enn meira ábótavant en dómgreind Nikulásar, auk þess sem hún gerðist ennþá strangari einræðissinni en hann. Þau hvöttu hvort annað áfram í afturhaldsseminni og í byrjun 20. aldar – þegar Rússland þurfti svo sárlega á nútímavæðingu, umbótum og auknu frelsi að halda – sat ríkið að mestu pikkfast í sinni stöðnuðu miðaldamynd. Meira að segja flestallir aðrir meðlimir keisarafjölskyldunnar voru löngu búnir að átta sig á að slaka yrði á klónni, því ella hlyti að fara svo að alþýðan myndi gera byltingu til að komast burt úr foraðinu og loftleysinu og sjálfsánægjunni, hroka smádjöflanna, siðferðisdýrð þrjótanna, burt frá hinni sæluríku fylgispekt og hinu dáða uppburðarleysi keisaraættarinnar og hinni guðdómlegu hræsni.
En Nikulás og Alix héldust í hendur og sáu ekkert og heyrðu ekkert.
Prinsinum blæðir út – Raspútín kemur til
Reyndar var svolítil von. Eftir mikil uppþot 1905 og aðrar róstur hafði Nikulás neyðst til að samþykkja vísi að þingræði og landið virtist byrjað að þokast í rétta átt, þótt hægt færi.
En þá versnaði í því. Langþráður krónprins Nikulásar og Alix fæddist árið 1904, Alexei hét hann. Fljótt kom í ljós að hann þjáðist af dreyrasýki en í því fólst að blóð hans storknaði seint og illa. Jafnvel minni háttar sár gat því valdið því að prinsinum blæddi út og hann var reyndar oft nánast við dauðans dyr á fyrstu árum sínum.
Og þá kynntist Alix keisaraynja Raspútín. Hann var eins konar flökkuprédikari sem hafði öðlast nokkra frægð fyrir segulmagnaða návist sína, stingandi augnaráð og allt að því dýrslegan kraft sem stafaði frá honum. Raspútín sannfærði hina áhyggjufullu móður um að hann hefði á sínu valdi að lækna Alexei og eftir það varð hann innsti koppur í búri við hirðina, og trúr vinur beggja keisarahjóna. Hann varð áhrifamaður sem fór að skipta sér af stöðuveitingum og pólitík, auk þess sem hann notaði áhrifavald sitt til að komast á áralangt kvennafar.
Og verst var að „pólitík“ Raspútíns fólst fyrst og síðast í að stappa stálinu í Alix og Nikulás um að þau skyldu aldrei, aldrei, aldrei gefa tommu eftir af einræði keisarans.
Þessi áhrif Raspútíns voru einskær áhrif einstaklings á söguna, nánast tilviljun, eða slys, því maður eins og hann fellur hvergi undir marxíska söguskoðun.

Þjóðhættuleg eiginkona
Sjálfsagt hafa áhrif Raspútíns stundum verið ofmetin. En það er þó ljóst að þrýstingur á keisarahjónin að hefja umbætur í stjórnsýslu og draga úr völdum keisarans, koma á raunverulegu þingræði og jafnvel segja af sér – sá þrýstingur fór sívaxandi og þegar komið var langt fram í fyrri heimsstyrjöld, þá hefði hann vel getað verið orðinn svo gífurlegur að meira að segja þröngsýnisstólpar eins og Nikulás og Alix hefðu þurft að láta undan.
(Sjá grein um eina úrslitastund í stríðinu hérna.)
Meira að segja móðir Nikulásar var komin á þá skoðun að Alix væri þjóðhættuleg og það yrði að fjarlægja hana – loka hana inni í klaustri í besta falli.
Og Rússland hefði þá hugsanlega getað komist mýkri leið út úr myrkviðum einræðisins en raun varð á 1917 sem endaði með grimmilegri einræðisstjórn kommúnista, og var reyndar verri en nokkuð það sem Rómanovar höfðu kallað yfir þjóðir Rússlands.
En ef þau keisarahjón tóku að efast, ef þau sýndu minnstu merki að láta undan þrýstingnum, þá gátu þau treyst á að Raspútín herti þau upp að nýju: Aldrei að láta undan, ekki í neinu. Þetta vissu orðið allir í Rússlandi, að þessi ofsafengni prédikari og svokallaði guðsmaður, átti sinn þátt í að varðveita einræðið, doðann og hæfileikaleysið sem var að gera út af við landið.

Að lokum var Raspútín myrtur og líki hans varpað í Malaja Nevka en þá var það orðið of seint. Ef það hefði gerst fyrr hefði það kannski dugað. En í byrjun árs 1917 gerði það ekki annað en festa Nikulás og Alix enn dýpra í hjólförum ógæfunnar. Alþýðan þjáðist og var að missa þolinmæðina, en þegar breski sendiherrann gekk á fund Nikulásar og sagði honum það, þá svaraði Nikulás bara: „Þú segir að ég verði að endurvinna traust þjóðarinnar? Er það ekki frekar þjóðin sem verður að endurvinna traust mitt?“
Svona var hann blindur. Hann hefði getað notað morðið á Raspútín sem tækifæri til að ýta Alix burt úr stjórnsýslunni, sem hún skipti sér alltof mikið af, en hann gerði það ekki. Aðeins örfáum vikum eftir að frosið lík Raspútíns var veitt upp úr fljótinu skall á byltingin sem morðingjar Raspútíns höfðu verið að reyna að forðast.
Sjá grein um það hérna.
Athugasemdir