Lengst af í lýðveldissögunni hafði almenningur raunverulega mjög sterkar hugmyndir um hvernig þjóðfélagið þyrfti að breytast til batnaðar til þess að það gæti gagnast sem flestum. Fólk sem tengdist útgerðinni í mesta lagi í gegnum nokkra áttæringa tók þessar hugmyndir til sín og lét kjósa sig á þing. Okkur langaði í sjálfstæði, í smjörþef af nútíma, í bætt lífsgæði, og fulltrúar þessara gilda voru kosnir til þess að láta þau verða að raunveruleika. Menn riðu á hestbaki með skrítnu skeggin sín til litlu höfuðborgarinnar til þess að sitja í stóra basalthúsinu við Tjörnina og reyna að gera löndum sínum gagn.
Síðan liðu mörg ár. Á ýmsu gekk, en flestar hugsjónirnar urðu að raunveruleika. Lítil þjóð á litlu skeri í stóru hafi skóp sér þolanlega og ásættanlega tilveru. Að nokkrum áratugum liðnum skaut svo upp kollinum hópur unglingsstráka í Menntaskólanum í Reykjavík. Haldnir háfleygum hugsjónum tóku þeir ákvörðun um að ná völdum í landinu og koma skoðunum sínum í framkvæmd. Hver og einn fékk úthlutað ákveðnu hlutverki: Þú verður áróðursmálaráðherra og sérð um fjölmiðla. Þú verður menntamaðurinn og sérð um fræðilegu hliðina og háskólasamfélagið. Þú verður framkvæmdastjórinn og tengir saman þræðina. Og þú, þú verður leiðtoginn; stimamjúka andlitið út á við sem segir skrítlur og stýrir skútunni. Og svo tóku þeir völdin
Það er þægilegt að taka við ríkjandi kerfi og sveigja það smám saman að nýfrjálshyggjuhugsjónum sínum. Sniðugt að leggja lag sitt við stríðsóða stórveldið sem er í þann mund að sigra kalda stríðið. Gáfulegt að lækka skatta á auðmenn, stofna til bandalags við útgerðirnar, öflugasta og stöðugasta iðnaðinn í landinu. Koma smám saman og án sýnilegrar byltingar á auðræði. Einkavæða kaupfélög og ríkisstofnanir sem reknar voru í almannaþágu og koma þeim í hendurnar á fjölskyldu, vinum, flokksfélögum og ótíndum glæpamönnum. Fylla alla dómstóla af hlýðnispökum kjölturökkum. Samhliða þessu básúnar stærsti fjölmiðill landsins áróður þess efnis að allt sé eðlilegt. Allt er eðlilegt. Allt í standi hér. Ekkert röfl. Upp með hagvöxtinn og áfram með eimreiðina. Tjú tjú.
„Þjóð sem vill ósnerta náttúru og umhverfisvernd horfir á rammaáætlun brytjaða niður og notaða í stíflu fyrir andlitslausa erlenda málmbræðslurisa sem eitra landið og svíkjast undan skatti.“
Alþingishúsið lítur enn nokkurn veginn eins út. Þorskurinn er enn með hökutopp. Jón Sigurðsson er enn á fimm hundruð kallinum. Börn fæðast öskrandi. Það er flókið að vera manneskja. Minningargreinarnar birtast í Mogganum. Flóð og fjara og líf og dauði. En eitthvað er breytt.
Smám saman er ríki sem var á pari við Norðurlöndin komið á annan stað. Almenningur sem vill jöfnuð er óvænt farinn að borga mjög mikið fyrir læknisþjónustu. Þjóð sem vill ósnerta náttúru og umhverfisvernd horfir á rammaáætlun brytjaða niður og notaða í stíflu fyrir andlitslausa erlenda málmbræðslurisa sem eitra landið og svíkjast undan skatti. Kjósendur sem vilja fá möguleikann á því að láta ljós sitt skína og vinna sig til efna og trúa á frelsi einstaklingsins kjósa óvart og ítrekað frændhyglandi föðurlandssvikara í öll helstu embætti.
Fólk sem notar hugtökin hægri og vinstri bara í umferðinni fær svo lága örorku að það er svangt. Svo lítinn ellilífeyri að hann dugar ekki fyrir hækkandi lyfjaverði. Svo skert fæðingarorlof að það borgar sig ekki. Fólk sem aldrei hefur heyrt talað um Ayn Rand eða Milton Friedman horfir á bankann sinn einkavæddan brenna til grunna og landið með. Horfir á hann skipta um nafn og slá met í hagnaði á nýju fínu kennitölunni. Sér hann seldan í pörtum til fjölskyldu bankasalans.
„Þeir sem áður komu á hestbaki með skrítin skegg alls staðar að fyrir alþýðuna, koma nú úr Garðabænum á lúxuskerrum í jakkafötum fyrir útgerðina.“
Eimreiðin heldur áfram með nýjum lestarstjórum. Tjú tjú. Yfirborð sjávar hækkar. Ójöfnuður eykst. Sólin hækkar á lofti og grösin og hótelin spretta. Þeir sem áður komu á hestbaki með skrítin skegg alls staðar að fyrir alþýðuna, koma nú úr Garðabænum á lúxuskerrum í jakkafötum fyrir útgerðina. Hugmyndir almennings um hvað sé þjóðinni fyrir bestu eru fölnuð slagorð á gulnuðum síðum í rykföllnum hillum fornbókabúða. Nú þarf að keyra til vinnu til þess að borga fyrir bílinn. Strita baki brotnu til þess að geta aldrei nokkurn tímann átt möguleika á að borga niður lánið á húsinu sem þú sefur í. Borga komugjald á spítalanum og sérfræðingnum aukalega þegar bakið og geðið bugast loks undan álaginu.
En það jákvæða er að hagvöxturinn hækkar með yfirborði sjávar og leigu- og fasteignaverði. Fréttir af lífsgæðum fjölskyldu og vina í nágrannalöndum vekja aðeins tímabundna gremju yfir ástandinu, svo þarf að svæfa og horfa á júró og fara svo í vinnuna og endurtaka. Öslum í gegnum þunglyndið og vonbrigðin því svo eru að koma kosningar og svo kannski kosningar svo kannski reddast þetta.
Hver þarf doktorsnema þegar við fengum óvænt alla þessa ferðamenn? Hver þarf áhyggjulaust ævikvöld eða möguleika á menntun óháð efnahag, þegar allur þessi makríll heldur áfram að villast inn í lögsöguna? Hver þarf heiðarlega stjórnmálamenn og kerfi sem sér um minn minnsta bróður þegar við erum með svona marga byggingarkrana? Hver þarf að draga lærdóm af hruninu þegar það er annað góðæri í gangi? Eimreiðin heldur áfram. Ekkert vera að pæla í þessum pistli, næst á dagskrá Angry Birds-myndin og Spurningabomban með Loga Bergmann og fólk sem fæðist og deyr í fátækt án vonar. Tjú tjú.
Athugasemdir