Átökin innann bláu blokkarinnar, stuðningsflokka ríkisstjórnar Lars Løkke Rasmussen í Danmörku, hörðnuðu enn í dag. Forsætisráðherrann tilkynnti á blaðamannafundi í hádeginu, eftir 18 tíma þögn, að hann stæði fast við bak matvæla- og umhverfisráðherra síns, Evu Kjer Hansen. Kröfu íhaldsflokksins sem sett var fram í gær, um að ráðherrann víki var því alfarið hafnað af hálfu forsætisráðherrans og henni mætt með nokkuð afdráttarlausri hótun um að ef ekki finnist önnur lausn á málinu af hálfu íhaldsmanna, þá myndi hann boða til kosninga.
Þessi harða afstaða forsætisráðherrans kemur flestum nokkuð á óvart, enda telja margir þingmenn að ráðherrann sé það lemstraður eftir harða gagnrýni síðustu vikna, að afsögn hans yrði nokkuð auðfengin, ekki síst þar sem það liggur nú fyrir að hann nýtur ekki trausts þingsins. Nú hefur forsætisráðherrann hinsvegar gert pólitískt líf ráðherrans að prófsteini á stuðning hægri flokkann við minnihlutstjórn sína.
Á þessa samstöðu hægri flokkanna mun reyna á næstu dögum eða klukkustundum, en eftir sameiginlegan fund forystumanna hægriflokkanna í dag tilkynnti forsætisráðherrann að viðræður þeirra myndu halda áfram á morgun. Þar mun formanni Íhaldsflokksins, Søren Pape Poulsen væntanlega verða stillt upp við vegg og hann krafin svara um hvort hann velji – kosningar, eða að draga í land með vantraustyfirlýsingar sínar í garð matvæla- og umhverfisráðherrans Evu Kjer Hansen.
Ekkert benti til hins síðara eftir fundi dagsins en hvorugur kosturinn virðist hinsvegar góður fyrir formann Íhaldsflokksins, enda vandséð að þar á bæ sé mikill áhugi á kosningum um þessar mundir. En það sama á reyndar einnig við um Venstre, flokk Lars Løkke og Jafnaðarmenn.
Í gær birti DR nefnilega niðurstöður skoðanakönnunar Epinions um fylgi flokkanna sem sýnir að fylgi Íhaldsflokksins, Venstre og Jafnaðarmanna er í sögulegu lágmarki, Venstre með 17,1% (19,5% í kosningunum), Íhaldsflokkurinn með 3,6% (3,4% í kosningunum) og Jafnaðarmenn með 24,3% (26,3% í kosningum). Danski þjóðarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa hinsvegar haldið fylgi sínu frá síðustu kosningum og smærri flokkarnir til vinstri flestir bætt nokkuð við sig.
Könnunin gefur einnig til kynna, að líkt og í síðustu kosningum sé munurinn á fylgi stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkanna nánast enginn. Óvissan í dönskum stjórnmálum er því gríðarleg um þessar mundir og ljóst að næstu klukkustundir eða dagar verða afdrifarík fyrir minnihlutastjórn Lars Løkke Rasmussen.
Könnunin (úrslit kosninga innan sviga):
- Socialdemokraterne 24,3 procent (26,3)
- Radikale 6,9 (4,6)
- Konservative 3,6 (3,4)
- SF 4,9 (4,2)
- Liberal Alliance 7,9 (7,5)
- Dansk Folkeparti 21,3 (21,1)
- Venstre 17,1 (19,5)
- Enhedslisten 8,2 (7,8)
- Alternativet 5,8 (4,8)
Athugasemdir