Um þessar mundir er víða um heim horft til Norðurlandanna í leit að samfélagslegum fyrirmyndum.
Umræðuna um Norræna módelið þekkjum við flest. Þar er vísað til þess hvernig öflug velferðar- og menntakerfi og sterk launþegahreyfing landanna hefur mótað skilvirkan vinnumarkað. Einkenni hans eru hátt menntunarstig, aðlögunarhæft vinnuafl og mikil atvinnuþátttaka beggja kynja. Þannig hefur mátt tryggja langvarandi efnahagslega velmegun, stöðugleika, samheldni og jöfnuð sem á sér fá dæmi í sögunni.
Við þekkjum einnig hvernig horft er til Norðurlandanna þegar kemur að stöðu lýðræðis og mannréttinda. Á fáum stöðum í heiminum er kosningaþátttaka almennari, málfrelsi, lýðréttindi og réttindi minnihlutahópa betur tryggð og jafnrétti kynjanna er hvergi meira.
Svipaða sögu má segja af stöðu heilbrigðisþjónustu, nýsköpunar, barnavendar, umhverfismála, félagsþjónustu, stuðningsneti fjölskyldna, umönnun aldraðra og svo mætti lengi telja.
Það blasir einfaldlega við að á afar mörgum sviðum mannlegs samfélags og samfélagslegrar uppbyggingar hafa þessi fámennu lönd komið sér í einkar eftirsóknarverða stöðu og skipað sér í fremstu röð samfélaga í heiminum. Og það sem meira er, þetta hefur gerst á tiltölulega skömmum tíma og nánast samhliða í öllum ríkjum Norðurlandanna. Það getur varla verið tilviljun, eða hvað?
„Þetta hefur gerst á tiltölulega skömmum tíma og nánast samhliða í öllum ríkjum Norðurlandanna.“
Það þarf því ekki að koma á óvart, að æ fleiri líta nú til þess umfangsmikla og nána samstarfs sem Norðurlöndin hafa átt, sem mikilvægs þáttar í velgengni þeirra á liðnum áratugum. Allir viðurkenna að sameiginlegur menningararfur, saga og tungumál að hluta, séu mikilvægir hornsteinar þessa gifturíka samstarfs Norðurlandanna. Það eitt og sér er þó ekki endilega ávísun á friðsamlega sambúð og nána samvinnu ríkja eins og dæmin sanna.
Hitt er einstakt, að sjálfstæð og fullvalda ríki eigi með sér formlegt samstarf á flestum sviðum samfélagsins sem varað hefur jafn lengi og í tilviki Norðurlandanna – fyrst með samstarfi félagasamtaka og einstakra stofnana samfélagins, en síðar með formlegu samstarfi þjóðþinga, ríkisstjórna og stjórnsýslu landanna á vettvangi Norðurlandaráðs.
Þetta einstæða samtarf hefur reynst gríðarlega mikilvægur aflgjafi framfara fyrir öll Norðurlöndin og vegna þess hefur samfélagsþróun landanna líklega verið með eins svipuðum hætti og raun ber vitni. Um þetta eru stöðugt fleiri að verða sammála, enda blasir það raunar við þegar horft er í baksýnisspegilinn og árangur samstarfsins metinn.
Eitt er að skoða beinan ávinning þeirra fjölþættu verkefna sem ráðist hefur verið í á vettvangi norræns samstarfs. Þar má nefna hinn sameiginlega vinnumarkað, réttindi og stuðningskerfi til náms innan Norðurlandanna, vegabréfasamstarfið, réttindi Norðurlandabúa til þátttöku í sveitarstjórnarkosningum þar sem þeir búa, öflugt stuðningskerfi menningar- og tungumálasamstarfs, vísindasamstarf, Nordjobb, samstarf í heilbrigðismálum, lyfjainnkaupum og skattamálum. Reyndar er það svo, að með afrakstri þess síðastnefnda, hefur ávinningur Norðurlandanna verið slíkur að hann einn og sér greiðir beinan kostnað við samstarfið megnið af 60 ára starfstíma Norðurlandaráðs.
Hitt er ekki síður mikilvægt, að vegna norræns samstarfs hafa stjórnmálamenn, embættismenn, sérfræðingar, listamenn og yfir höfuð einstaklingar úr flestum geirum samfélagsins hist og skipst á skoðunum. Með skipulögðum hætti hefur þetta fólk miðlað hvert öðru af reynslu sinni í yfir 60 ár. Það segir sig sjálft að slík samskipti hafa, þegar til langs tíma er litið, gríðarlega mótandi áhrif þvert á öll landamæri og samfélagssvið Norðurlandanna, þó þau áhrif sjáist ef til vill ekki auðveldlega í amstri dagsins.
Í ljósi alls þessa þarf ekki að koma á óvart að víða vilja menn nú leita í reynslubanka Norðurlanda þegar kemur að mótun samstarfs fullvalda ríkja eins og við Eystrasaltið, á Balkanskaga eða á Norðurskautinu.
„Viljum við stíga næsta skref og taka upp sameiginlegan norrænan ríkisborgararétt eða stofna norrænt sambandsríki?“
Vaxandi áhugi stjórnmálamanna, atvinnulífs og félagasamtaka á Norðurlöndum er væntanlega einnig af sama meiði, enda sjá menn betur og betur hversu gefandi norrænt samstarf hefur verið og hversu miklu meira sameinuð Norðurlönd gætu áorkað. Þetta á til dæmis við um ýmis konar samstarf á alþjóðavettvangi, til dæmis í öryggismálum, umhverfismálum, þróunarsamvinnu og efnahagsmálum, en sameinuð eru Norðurlöndin með tíunda stærsta hagkerfi heims.
Við sjálf, sem búum á Norðurlöndunum, þurfum einnig að velta fyrir okkur hvernig við viljum nýta okkur þá eftirsóknarverðu stöðu sem norrænt samstarf hefur komið okkur í. Viljum við stíga næsta skref og taka upp sameiginlegan norrænan ríkisborgararétt eða stofna norrænt sambandsríki? Viljum við á norrænum vettvangi sameinast um afstöðu í viðkvæmum alþjóðamálum, eins og málefnum Palestínu, Rússlands og Úkraínu og viðbrögðum við flóttamannavandanum sem nú er við að glíma? Öll eru þessi mál þegar komin á dagskrá Norðurlandaráðs og voru þau rædd á þingi ráðsins í Hörpu í síðasta mánuði.
Hver sem afstaða okkar er í þessum málum, eða til samstarfs Norðurlandanna almennt, er ljóst að þróun þess og umfang mun ráða miklu um stöðu landanna þegar til framtíðar er litið. Líklega mun meiru, en við gerum okkur grein fyrir í dag – þegar horft er til áhrifa norræns samstarfs á liðnum áratugum.
Athugasemdir