„Jöfnuður býr til betra samfélag,“ var yfirskrift kröfugerðar íslensks launafólks á alþjóðlegum degi verkalýðsins þann fyrsta maí og í ræðum dagsins mátti víða heyra vísað til hins Norræna módels og mikilvægi þess sem fyrirmyndar við mótun betra samfélags á Íslandi.
Sambærilega tóna um mikilvægi jöfnuðar fyrir hagsæld og jákvæða samfélagsþróun má víða heyra um þessar mundir í alþjóðlegri umræðu. Ekki bara frá hreyfingum launafólks og jafnaðarmanna, heldur hafa alþjóðlegar stofnanir eins og OECD, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Sameinuðu þjóðirnar nú einnig bæst í þennan vaxandi kór.
Með vísan til ítarlegra rannsókna fræðimanna á borð við Thomas Piketty, Richard Wilkinson og Kate Pickett vara menn við þeirri fordæmalausu alþjóðlegu þróun í átt til vaxandi ójöfnuðar sem nú á sér stað og benda á neikvæðar afleiðingar hennar fyrir hagvöxt, velferð og samheldni samfélaga.
Piketty hefur meðal annars bent á að auður hinna ríkustu eykst nú mun hraðar en þeirra sem minna eiga. Talið er að ríkasta eitt prósentið, eigi nú álíka mikið og restin - 99 prósent mannkyns, og samkvæmt Piketty mun óbreytt þróun leiða til þess að árið 2030 muni um eitt prósent mannkyns eiga nánast öll auðæfi jarðarinnar.
Öll þessi umræða hefur dregið athygli heimsins að þeim merkilega árangri sem Norðurlöndin hafa náð á liðnum áratugum í mótun sinna samfélaga og tala ýmsir í því samhengi jafnvel um Norræna ofurmódelið. Í alþjóðlegu samhengi búa þessi lönd enda öll við einstaka efnahagslega velmegun, jöfnuð og félagslega samheldni og hreyfanleika.
„Samkvæmt Piketty mun óbreytt þróun leiða til þess að árið 2030 muni um eitt prósent mannkyns eiga nánast öll auðæfi jarðarinnar.“
Þó auðvitað séu þessi lönd að mörgu leyti ólík innbyrðis hafa á undanförnum árum komið fram ítarlegar greiningar fræðimanna sem draga fram mikilvæga sameiginlega þætti í samfélagsþróun þessara landa. Eitthvað sem kalla má Norræna módelið. Vísa ég þar meðal annars til skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar og skýrslu SAMAK, Nordmod 2030.
Það sem einkennir Norræna módelið samkvæmt þessum greiningum, og hefur m.a. leitt til þessarar eftirsóknarverðu stöðu Norðurlandanna, eru ekki síst fjórir þættir: Ábyrg efnahagsstjórn, umfangsmikil velferðarþjónusta og menntakerfi sem allir hafa aðgang að, efnahagslegur jöfnuður og sterkar hreyfingar launafólks sem tryggt hafa almenn réttindi og launakjör á vinnumarkaði og víðar, í samningum og samstarfi við atvinnurekendur og stjórnvöld.
Það er athyglisvert, að jafnvel þó staða Norðurlandanna sé í dag afar góð hvað þessa þætti varðar í alþjóðlegum samanburði, þá hefur þróun undanfarinna ára verið í átt frá hinu norræna módeli. Með aukinni einkavæðingu og greiðsluþátttöku almennings hefur velferðarþjónustan og menntakerfið orðið lagskiptara með tilliti til efnahags, fækkað hefur í hreyfingum launafólks og ójöfnuður hefur aukist, ekki síst vegna vaxandi hópa sem standa utan vinnumarkaðar eða njóta ekki verndar hreyfinga launafólks.
Þannig benda höfundar skýrslu SAMAK á að verði þróunin á Norðurlöndum sú sama fram til 2030 og á liðnum tíu árum, verður ójöfnuður þar orðinn svipaður og á Ítalíu, félagsaðild að samtökum launafólks verður komin niður undir 55% (úr 70-90%), að verulega hafi dregið úr atvinnuþátttöku og vinnumarkaðurinn hafi gliðnað vegna félagslegra undirboða líkt og víðast hvar annars staðar meðal vestrænna samfélaga.
Vafasamt verður að teljast að menn geti við slíkar aðstæður talað um eitthvað sérstakt Norrænt módel og líklegra að það hafi orðið alþjóðavæðingunni að bráð og tekið lit og lögun af samfélagsgerðum annarra Evrópulanda og Bandaríkjanna.
Þó sífellt fleiri geti nú skrifað undir fullyrðinguna um að „jöfnuður búi til betra samfélag“ og allir vildu nú Lilju kveðið hafa þegar Norræna módelið er annars vegar, mun það líklega ráðast á næstu árum hvort Norræna módelið lifir eða deyr. Að óbreyttu verður það líklega „Ítalska módelið“ sem tekur við og val okkar sem búum á Norðurlöndum því nokkuð skýrt. Viljum við Lilju eða Lorenzu?
Athugasemdir