Í kjölfar voðaverkanna í París þann 13. nóvember, þar sem 128 saklausir borgarar létu lífið í árásum ISIS, hafa flest öflugustu hervelda heims ákveðið að sameinast í baráttunni gegn herjum samtakanna. Í Frakklandi hefur verið lýst yfir stríðsástandi í fyrsta skipti frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar, Bretar, Bandaríkin, Rússland og fleiri þjóðir beita herjum sínum óspart og gríðarlegum fjármunum og pólitísku afli er varið til að bregðast við ógninni. Stjórnmálaleiðtogar tala um að árásin í París marki tímamót, samtökin sem að henni stóðu ógni samfélagi vesturlanda og að sá hugmyndaheimur sem þau kenna sig við, sé einhver mesta ógn okkar tíma.
Á þeim 30 dögum sem liðnir eru frá hryðjuverkunum í París, hafa fleiri en 210 konur verið myrtar í Evrópu, af körlum sem þær voru áður í nánu sambandi við og áður en árið 2015 er allt, má reikna með að 2500 konur falli í valinn með þeim sama hætti á því herrans ári, í Evrópu einni. En því miður, þá marka þessi fjöldamorð evrópskra karla, á fyrrverandi lífsförunautum sínum ekki nein sérstök tímamót og enn síður eru þau talin ógna evrópskri siðmenningu, frelsi eða lýðræði.
Ef marka má áhugaleysi stjórnmálaleiðtoga Evrópu um örlög þeirra tugþúsunda kvenna, sem hafa verið myrtar með þessum hætti á liðnum áratugum í Evrópu, er engu líkara en að þeir og samfélagið allt, telji ofbeldi karla gegn konum óumbreytanlegan hluta hugmyndaheims okkar og líf þessara kvenna því ásættanlegan fórnarkostnað.
Samkvæmt norrænum rannsóknum, er algengast að morð séu framin í tengslum við heimilisofbeldi eða í nánum samböndum einstaklinga. Á Íslandi hafa 10 slík morð verið framin á liðnum 12 árum, eða um 60% allra morða á tímabilinu og í Noregi voru 206 morð, eða um fjórðungur allra morða á tímabilinu frá 1990-2014 framin af einstaklingi sem átti í nánu sambandi við hinn myrta. Í Finnlandi eru 17 konur myrtar með þessum hætti á hverju ári og í Svíþjóð 21 kona.
Sú staðreynd blasir einfaldlega við, að jafnvel á Norðurlöndnunum, þar sem jafnrétti kynjanna er mest í öllum heiminum, er líklegra að konur verði myrtar af núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti sínum, en nokkrum öðrum einstaklingum eða öfgahópum. Morð í tengslum við heimilisofbeldi eða náin sambönd einstaklinga, eru þó aðeins ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.
Því ætti að vera óhætt að fullyrða að alvarlegasta ofbeldisógn samtímans er ekki hryðjuverk eða einstök trúarbrögð.
Því ætti að vera óhætt að fullyrða að alvarlegasta ofbeldisógn samtímans er ekki hryðjuverk eða einstök trúarbrögð, heldur ofbeldi karla gagnvart konum. Og þannig hefur það verið um áratugaskeið, þó að fram til þessa hafi lítið borið á liðssafnaði eða aðgerðum okkar ástsælu stjórnmálaleiðtoga til höfuðs þessari meinsemd hins ofbeldisfulla karlaveldis – eða feðraveldis, eins og það heitir víst samkvæmt fræðunum.
Athugasemdir