Eftir að hafa fylgst með dönskum stjórnmálum í nokkurn tíma, verður maður sífellt meira hugsi yfir íslenskri stjórnmálamenningu og þeim ógöngum sem hún hefur kallað yfir íslenska þjóð á liðnum 10 árum. Á þessum skamma tíma, hefur Ísland upplifað meiri efnahagslegar öfgar og harðari stjórnmálaátök en flestar þjóðir Evrópu og í samanburði við hin Norðurlöndin erum við eins og svart og hvítt.
Árin fyrir hrun vorum við ríkust og best í heimi, skattalækkanir og frelsi allra til að græða sem mest án afskipta samfélagsins var boðorð dagsins og heimurinn allur var okkar. Svo hrundi allt og á augabragði urðum við einangruð og kreppuhrjáð, hinir ríkari voru skattlagðir og jöfnuður og samfélagsleg ábyrgð sett ofar stundargróða. Nú hefur fyrirhrunsstefnan verið tekin upp á ný og aftur eiga lægri skattar á hina ríkari, fleiri virkjanir og græðgin að leiða þjóðina á grænar og gjöfular lendur hagsældar og hamingju.
Á þessum tíu árum höfum við haft fimm ríkisstjórnarmynstur og í hvert skipti sem einhverjar breytingar verða við ríkisstjórnarborðið, er eins og umturna þurfi öllu. Nýtt Stjórnarráð, nýtt fiskveiðikerfi, nýtt menntakerfi, ný lög um fjölmiðla, ný áætlun um virkjun og verndun náttúrusvæða, ný stefna í samstarfi við Evrópu, ný húsnæðisstefna, ný stefna í skattamálum, ný stefna um uppbyggingu ferðaþjónustu, ný stefna um erlendar fjárfestingar og uppbyggingu atvinnulífs og nýjar hugmyndir og leiðir um hvernig best sé að vinna með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja stöðugleika og aukinn kaupmátt launa.
Allt skal gert uppá nýtt og með öðrum hætti, enda það sem fyrri ríkisstjórn gerði, oftar en ekki gert í harðri andstöðu við þáverandi stjórnarandstöðu og því algjörlega á ábyrgð viðkomandi stjórnmálaflokka. Við ríkisstjórnarskipti verða heilu málaflokkarnir og mikilvæg svið samfélagsins því hálf munaðarlaus og í raun verður það hlutverk nýrra ráðherra að umbreyta kerfinu, sem þeir áður börðust svo gegn.
„Við ríkisstjórnarskipti verða heilu málaflokkarnir og mikilvæg svið samfélagsins því hálf munaðarlaus.“
En svona þarf þetta ekki að vera. Í Danmörku, sem að flestu leyti býr við sambærilegt stjórnkerfi og Ísland, heyrir það til algerra undantekninga að stærri þingmál eða tillögur um kerfisbreytingar í samfélaginu, séu lagðar fram eða kynntar opinberlega, fyrr en samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og alla stærri flokka í þinginu. Þetta á við um stórt og smátt, umdeild mál og óumdeild og öllum flokkum er oftast boðið sæti við borðið.
Sannarlega kemur það fyrir að einstaka flokkar telja sig ekki geta náð samkomulagi á grundvelli hugmynda ríkisstjórnarinnar, og af þeim sökum taki þeir ekki þátt í samningaviðræðum og bera ekki ábyrgð á niðurstöðunni, en oftar en ekki eru tillögur ríkisstjórnarinnar á endanum lagðar fram til þinglegrar meðferðar, með aðild og stuðningi flokka sem styðjast við rúman meirihluta á þinginu. Þá fyrst hefst þingleg meðferð sem getur leitt til enn breiðari samstöðu um viðkomandi mál.
Sami háttur er einnig hafður á um framlagningu fjárlaga hvers árs í Danmörku og þar hætta menn ekki samningaviðræðum fyrr en allir flokkar, sem vilja láta telja sig stjórntæka, greiða atkvæði með fjárlögunum. Þeir sem ekki eru með, eru einfaldlega álitnir óhæfir til að axla ábyrgð á stjórn landsins, enda treysti þeir sér greinilega ekki til að taka ábyrgð á fjármálalegri stjórn ríkisins og fara eftir þeim samstarfsreglum sem lýðræðið setur þeim á herðar.
Þessi meðvitund danskra stjórnmálamanna um að það sé sameiginleg ábyrgð þeirra allra að tryggja stöðugleika og samfellu í þróun samfélagsins og á sama tíma tryggja eðlilegan framgang þeirra mismunandi áherslna sem stjórnarmeirihlutinn hefur hverju sinni, hefur gert það að verkum að í flestum málum geta þeir við stjórnarskipti horft frammá veginn í stað þess að dvelja stöðugt við baksýnisspegilinn.
Nú þegar íslenskt samfélag logar í átökum eina ferðina enn, geta menn síðan velt því fyrir sér, hvor stjórnmálamenningin henti betur fyrir alþjóðlegt, lýðræðislegt samfélag sem vill sækja fram: íslenska átakahefðin, þar sem meirihlutinn ræður og stjórnarandstöðunni er haldið ábyrgðarlausri frá öllum málum eða danska sáttahefðin sem leiðir alla að borðinu, stjórn og stjórnarandstöðu og leitast við að ná breiðri sátt og sameiginlegri ábyrgð, í öllum stærri málum. Vilji er allt sem þarf.
Athugasemdir