Ein af grunnstoðum og sérkennum norrænu velferðarsamfélaganna er og hefur verið, umfangsmikið velferðarkerfi, fjármagnað með háum sköttum í samanburði við önnur vestræn samfélög. Um þetta hefur á undanförnum áratug skapast nokkuð breið pólitísk sátt, enda almennt viðurkennt að fyrir tilverknað þessa umfangsmikla velferðarkerfis hafi Norðurlöndin skipað sér í fremstu röð samfélaga, með háu menntunarstigi, aðlögunarhæfu vinnuafli, stöðugleika, samheldni, jöfnuði, jafnrétti og skilvirkum vinnumarkaði með mikilli atvinnuþátttöku.
Um þessa samfélagsgerð hefur þó fráleitt ríkt sátt alla tíð, þó flestir vilji nú Lilju kveðið hafa, en segja má, að megnið af 20. öldinni hafi pólitísk átök milli hægri og vinstri á Norðurlöndum, snúist um uppbyggingu og fjármögnun þessa norræna velferðarkerfis – baráttuna um hærri eða lægri skatta, réttindi launþega, tekjujöfnuð og rétt allra til náms, heilbrigðisþjónustu og mannsæmandi framfærslu, svo eitthvað sé nefnt.
Þó enn sé vissulega tekist á um það hvort til dæmis skattar, þjónustugjöld og bætur almannatrygginga eigi að vera hærri eða lægri segjast allir flokkar Norðurlanda vilja standa vörð um velferðarkerfið og lofa hver með sínum hætti aukinni og bættri þjónustu þess. Í dag snúast pólitísku átökin milli hægri og vinstri því ekki svo mikið um umfang velferðarkerfisins, heldur miklu fremur um fjármögnun þess og rekstur – í orði hveðnu a.m.k. Hægrimenn vilja stróraukinn einkarekstur og aukna kostnaðarþátttöku notenda á meðan vinstrimenn leggja áherslu á samfélagslegt forræði og jafnan rétt allra, óháð fjárhagslegri stöðu.
Ýmislegt bendir reyndar til, að einmitt þessi atriði geti haft afar afdrifarík áhrif á þróun norrænu velferðarsamfélaganna og að með öðru, gæti af þeim ráðist hvort sérkenni þeirra og eðliskostir haldi sér eða eflist, þegar til lengri tíma er litið. Í þessum efnum horfa menn mjög til reynslu svía, en á undanförnum tveimur áratugum hafa þeir gengið lengst allra Norðurlandanna í að færa þjónustu velferðarkerfisins í hendur einkaaðila, ekki síst í skólakerfinu og þjónustu við aldraða.
„Ójöfnuður í heilbrigðismálum og menntun hefur því vaxið samhliða auknum einkarekstri.“
Samkvæmt skýrslu SAMAK, NORDMOD2030 er nú um helmingur allra grunn- og framhaldsskóla í Svíþjóð rekinn af einkaaðilum, meira en 20% allra öldrunarheimila eru þar rekin í ágóðaskyni og gríðarleg aukning hefur orðið á hlutdeild einkaaðila í rekstri heimaþjónustu fyrir aldraða. Þrátt fyrir þessa umfangsmiklu breytingu á rekstrarformi þjónustunnar, hefur samkvæmt skýrslunni ekkert komið fram sem bendir til þess að reksturinn hafi orðið hagkvæmari fyrir samfélagið, eða þjónustan betri.
Sannarlega hafa valmöguleikar ákveðinna hópa í samfélaginu aukist og batnað, en hjá öðrum hópum, einkum þeim tekjuminni og jaðarsettari, til dæmis innflytjendum, hefur þjónustan beinlínis versnað. Ójöfnuður í heilbrigðismálum og menntun hefur því vaxið samhliða auknum einkarekstri, án þess að hið opinbera hafi sparað þegar á heildina er litið.
Í skýrslu SAMAK er einnig bent á, að leið hinna einkareknu fyrirtækja til að bæta afkomu sína og standa undir arðsemiskröfu eigendanna, er oftar en ekki sú að ráða færri starfsmenn, minna menntaða og með takmarkaðri réttindi, enda launakostnaður stærsti hlutinn í útgjöldum til velferðarmála. Verri kjör starfsmanna hinna einkareknu þjónustuaðila bitni síðan á þjónustuþegunum með ýmsum hætti.
Í bók sinni, Blåkopi, kemst norski rannsóknarblaðamaðurinn Wegard Harsvik að sambærilegri niðurstöðu eftir að hafa skoðað árangur einkavæðingar sænsku velferðarþjónustunnar. Hann bendir m.a. á fjölda dæma þar sem sparnaðarleiðir einkafyrirtækjanna hafa valdið alvarlegri vanhirðu, veikindum og jafnvel dauða í þjónustu við aldraða og rekur fjölda dæma þar sem óábyrg fjármálastjórn og gjaldþrot einkarekinna velferðarfyrirtækja hafa sett þjónustuþegana og viðkomandi sveitarfélög í mikinn vanda.
Þar kemur einnig fram að einn athyglisverður angi af samkeppni einkaskólanna um nemendur, birtist í því að einkunnir nemenda verða þar hærri og hærri með hverju árinu sem líður, en á sama tíma færist Svíþjóð neðar og neðar á alþjóðlegum lista PISA.
Wegard bendir einnig á að þrátt fyrir gríðarlegan hagnað þeirra alþjóðlegu stórfyrirtækja og fjárfestingasjóða, sem í dag eru ráðandi í einkarekinni velferðarþjónustu í Svíþjóð, borga þau litla sem enga skatta til samfélagsins. Sú staðreynd virðist því blasa við að sú hagræðing sem einkareksturinn nær, einkum með lægri starfsmannakostnaði og takmarkaðri þjónustu, nýtist hvorki þjónustuþegunum né samfélaginu í heild, heldur rennur í vasa fjárfestanna.
Sambærilegt mynstur má einnig sjá í Danmörku og Finnlandi, þar sem einkarekstur í heimaþjónustu og skólum hefur einnig vaxið, þó í minna mæli sé. Í öllum löndunum blasir það einnig við, að með aukinni aðkomu einkaaðila, samhliða auknum möguleikum þeirra á aukinni kostnaðarþátttöku þjónustuþeganna, eykst ójöfnuður og stéttaskipting í samfélaginu. Hinir ríku geta keypt sér betri þjónustu og menntun, en hinir fátækari sitja eftir.
Af reynslu Svíþjóðar og annarra Norðurlanda að dæma, snýst því umræðan og pólitísku átökin um rekstrarform og fjármögnun velferðarþjónustunnar, um framtíð norrænu velferðarsamfélaganna, ekki síður en átökin um umfang hennar á 20. öldinni.
Athugasemdir