Stór hluti Íslendinga vinnur fyrir launum sem standa ekki undir mannsæmandi lífskjörum. Meira að segja fólk sem hefur stundað nám á háskólastigi árum saman getur ekki skrimt af laununum ef það er eina fyrirvinna heimilisins og þarf að fæða og klæða eitt eða fleiri börn. Munurinn á launum til dæmis kennara eða hjúkrunarfræðinga á Íslandi, miðað við það sem algengt er meðal iðnvæddra þjóða, er himinhrópandi. Á hinum Norðurlöndunum eru launin helmingi hærri og félagsleg þjónusta miklu betri.
„Dapurleg staða íslensks launafólks er óþolandi vegna þess að landið er feikilega ríkt og lífskjör almennings ættu að vera með því besta sem þekkist í heiminum.“
Dapurleg staða íslensks launafólks er óþolandi vegna þess að landið er feikilega ríkt og lífskjör almennings ættu að vera með því besta sem þekkist í heiminum. Hvergi í heiminum, nema þar sem olían vellur upp úr jörðinni, á svo fámennur og vel upplýstur hópur slíka gnótt verðmæta. Hitt er líka staðreynd að hvergi á norðurhveli jarðar hefur spilling og óstjórn staðið þegnunum eins fyrir þrifum og á Íslandi. Baráttan fyrir betri lífskjörum hefur mest og best tapast á fernum vígstöðvum.
Gull hafsins
Ef málið væri ekki svona grafalvarlegt mætti hlæja dátt að fáránleika íslenska kvótakerfisins. Menn fá lánaðan nýtingarrétt á sameign þjóðarinnar á tombóluprís (guð forði þessum talsmönnum frjálsra viðskipta frá kerfi þar sem boðið er í kvótann), slá peninga út á leigusamninginn og selja þriðja aðila fisk fólksins ef svo ber undir. Þó kastar tólfunum þegar leigutakar kvótans rústa atvinnulífi þorpa út um allt land ef þeir geta grætt á því. Fráskildir makar fá hundruð milljóna eða milljarða út á sameign þjóðarinnar og ófædd börn eiga gífurleg verðmæti í óveiddum afla framtíðarinnar.
Kvótakerfið er svo siðlaust að það getur aldrei orðið annað en séríslenskt undur. Ef eitthvað í líkingu við eyðileggingu þorpa, sem fólk hefur verið að byggja upp í áratugi, gerðist á hinum Norðurlöndunum tækju stjórnvöld strax í taumana, en á Íslandi virðast pólitíkusar ekki þurfa að axla neina samfélagslega ábyrgð … eða yfir höfuð nokkra ábyrgð eins og bankahrunið sýndi okkur. Í guðanna bænum hættið að tengja háar tekjur við ábyrgð.
„Ófædd börn eiga gífurleg verðmæti í óveiddum afla framtíðarinnar.“
Fiskimiðin gætu líklega aukið tekjur ríkissjóðs árlega um 10 - 15 milljarða króna. En frekar en að málin þróist í þá átt er sjálftökuliðið að mjaka frumvarpi í gegnum þingið sem lætur þjóðina endanlega glata fiskimiðunum. Veiðiréttur til langs tíma skapar hefð sem oft felur í sér eignar- eða ráðstöfunarrétt. Heiftin og frekjan er svo mikil hjá sjálftökuliðinu að einn þingmaður líkti sameignarákvæðinu við gömlu Sovétríkin. Í huga þessa þingmanns og samherja hans á þetta væntanlega við um allt sem samfélagið er skrifað fyrir, t.d. Landsvirkjun, hitaveitur landsins og vatnsból.
Orkuauðurinn
Nýlega líkti Jón Steinsson orkustefnu Íslendinga við fólk sem ætti gullnámu en hefði ekki áhuga á öðru en að fá vinnu við að grafa upp gullið frekar en að selja gullið sjálft. Þetta er frábær samlíking. Við erum vissulega að selja stórfyrirtækjum orkuna á fáránlega lágu verði. Jón talar um margfalt hærra verð á Bretlandseyjum og að orkusala þangað í gegnum sæstreng sé frekar auðvelt verkefni.
„Gullið sjálft, orkan, hefur hins vegar alltaf verið hálfgert aukaatriði og útsöluvara.“
Eitt er víst að orkustefna landsins hefur einkennst af hreppapólitík — að skapa ákveðnum landsvæðum vinnu við virkjanir og framleiðslustörf — og tilfallandi hvalreka til réttra aðila. Gullið sjálft, orkan, hefur hins vegar alltaf verið hálfgert aukaatriði og útsöluvara.
Okurlán
Þrátt fyrir hlutfallslega lágt kaup þorra landsmanna er Ísland dýrt og verðlag svipað og á hinum Norðurlöndunum, sem þó borga flestum miklu hærri laun. Lán á Íslandi, ef við miðum við önnur iðnvædd ríki, hljóta að flokkast undir hreint okur og þessi okurstarfsemi leikur stórt hlutverk þegar verðlagið trekkist upp. Hagkerfið gengur að mestu leyti fyrir lánsfé og okurvextir eru reiknaðir beint inn í alla verðlagningu.
Lánafyrirtæki dafna óeðlilega í umhverfi okurvaxta. Peningarnir færa þeim of mikil pólitísk völd. Þau verða of stór á kostnað annarra atvinnugreina og soga til sín of hátt hlutfall hæfra starfsmanna.
„Verðtryggð neytendalán eiga ekki heima í hagkerfi framboðs og eftirspurnar, því þau láta annan aðilann, lántakanda, taka alla áhættu.“
Siðlaus (ólögleg) verðtrygging lána er hornsteinn okursins. Verðtryggð neytendalán eiga ekki heima í hagkerfi framboðs og eftirspurnar, því þau láta annan aðilann, lántakanda, taka alla áhættu. Það eru ekki eðlileg viðskipti. Verðtryggingin gerir bankamenn værukæra og hugmyndasnauða. Bankarnir taka enga áhættu og sjálfstýrð lán skapa fasteignabólur með reglulegu millibili. Verðtryggð lán hækka líka allt fasteignaverð í landinu, sennilega um 10 - 15%, vegna þess að greiðslubyrðin er falin (bætt við höfuðstól) og fólk getur því boðið hærra í eignirnar heldur en það gæti ef raunverulegur kostnaður væri uppi á borðinu. Mikilvægast af öllu er þó að verðtryggð neytendalán eru ólögleg afleiðuviðskipti þótt kengúrudómstóll í Reykjavík hafi nýlega talið ólögmætið hið besta mál! Þetta nær séríslenska fyrirbæri verður að hverfa.
Fjarstýrðir pólitíkusar
Íslenska stjórnmála- og embættismannastéttin er sennilega mesta vandamál þjóðarinnar. Þeir tala til kjósenda dagana fyrir kosningar en gleyma þeim svo í fjögur ár. Yfirgnæfandi meirihluti kjósenda hefur frá upphafi kvótalaganna verið þeim ósammála, en það er líkt og ósýnileg hönd haldi kerfinu óbreyttu og sé jafnvel að takast að sölsa undir sig fiskinn um alla framtíð. Mikill meirihluti vill ekki einkavæða Landsvirkjun eða aðrar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, en pólitíkusar sem hanga í einhverjum spottum eru stöðugt að reyna að ganga gegn þessum vilja meirihlutans. Tillagan um að selja lífeyrissjóðum hluta í Landsvirkjun — „við“ eigum sjóðina og því erum við að selja „okkur sjálfum“ Landsvirkjun — er ekkert annað en fyrsta einkavæðingarskrefið.
„Það er líkt og ósýnileg hönd haldi kerfinu óbreyttu og sé jafnvel að takast að sölsa undir sig fiskinn um alla framtíð.“
Þversögn málsins er auðvitað sú að fólkið kýs þessa aðila á þing. Dýr kosningabarátta og keyptir fjölmiðlar halda sérhagsmunum við völd, en sveiflur á fylgi flokka eru stöðugt að aukast. Í augum um þriðjungs kjósenda eru flokkarnir sértrúarsöfnuðir og foringjar þeirra í guðatölu, en mjög margir eru búnir að fá nóg af ástandinu. Kerfið er ónýtt og verður ekki lagfært nema með nýrri stjórnarskrá. Raunverulegir ráðamenn þjóðarinnar gera sér fulla grein fyrir þessu og þess vegna lögðu þeir hart að sér við að grafa stjórnarskrá fólksins.
Jóhannes Björn er höfundur bókarinnar Falið vald, þar sem hann greindi íslenskt valdakerfi árið 1979.
Pistillinn birtist fyrst á vefnum þann 24. febrúar kl. 13.
Athugasemdir