Mikið er hluti mannlífsins brenglaður. Að sprengja sig í loft upp innan um saklaust fólk, börn og unglinga, eingöngu til að gefa út yfirlýsingu hefndar, haturs og skelfingar. Hluti mannkyns sér enn ekkert þarfara að gera en að sinna blóðhefndum eða efna til óvinafagnaðar með hátæknivopnum eða heilögum stríðum.
Vandinn er flókinn en ein rót hans er hermennskukúltúr karlrembusamfélaga - svokallaðs feðraveldis. Í herkúltúr er goggunarröð „hertra“ karla málið. Þeir leysa árekstra við fjandsamlegt fólk með ofbeldi. „Fjandsemi“ getur verið hvers kyns réttindabarátta minnihlutahópa og svo fátækra þjóða sem vilja ekki lengur selja olíuna sína á gjafvirði. „Fjandsemin“ er einnig á heimili þeirra hjá baráttuglöðum konum sem vilja blómstra. USA, UK og USSR tóku og gáfu einvalda í Miðausturlöndum, Afríku, Mið- og S-Ameríku til að vernda efnahagshagsmuni sína seinni hluta 20. aldarinnar og eru sums staðar enn að. Í smærri skala en útbreiddari eru karlrembur í Íslömskum, gyðinglegum og kaþólskum ríkjum í sífellu að iðka varnir sínar til að halda ægihendi yfir fjölskyldulífinu og verja „heiður“ sinn. Í GT og Kóraninum er það alveg skýrt að konan er eign mannsins. Stór hluti hins vestræna heims er búinn að gleyma þessari kreddu forfeðranna, en biblíubelti USA, ýmsir bókstafstrúarhópar kristni, megnið af Íslam og góður hluti trúaðra kaþólikka lifa enn í þessari arfleifð. Í hermenningu eru „veikir“ karlar niðurlægðir með því að vera kallaðir „stelpur“. Að vera kona er það versta sem karli er líkt við. „Þú gerir bara betur næst“ segja feður feðra sem eignast stúlkur. Í vestrænum heimi er fullt af körlum sem lifa í gamla rembuhættinum og ná ekki að nálgast og mynda eðlileg tengsl við konur á jafningjagrunni. Þeir ganga því ekki út, einangrast og eru ófullnægðir á allan hátt. Þeir fara að hatast út í þjóðfélagið. Þeir eru óþroskuð epli biturleika sem hryðjuverkahópar í leit að mennskum sprengjusendlum þurfa bara að gefa „hærri tilgang“ og „fullvissu“ um vegleg verðlaun handan við lífið.
Friðurinn vinnst ekki fyrr en kvenréttindabarátta um allan heim nær árangri. Mennska og kvenréttindi verða ekki slitin í sundur. Alvöru hetjur eru fangelsaðar, drepnar eða limlestar í hverjum mánuði í þeim löndum þar sem málfrelsi er ekki virt og hver sú málefnalega ógn sem hið trúarlega karlaveldi verður fyrir er talin útþurrkanleg. Kalda stríðið snérist um hugarfar og morðöldur nútímans verða ekki læknaðar nema með því að vinna málefnabaráttuna. Það er gríðarleg vinna framundan og hún snýst ekki um að eiga fyrir nýju grilli.
Athugasemdir