Ég sat lengi fyrir framan tölvuna, starði á skjáinn og velti því fyrir mér hvernig ég ætti að hefja þennan pistil. Ég vissi að hann myndi birtast í janúar og vildi þess vegna skrifa eitthvað um þær auglýsingar og þann áróður sem svo oft birtist þá. Þar má til dæmis nefna detox, sykurlaus mánuður, hreinsun og þar fram eftir götunum, allt með sama markmiði að losa okkur við jóla-„auka“-kílóin.
Mig langaði að leggja áherslu á fræðin, skrifa um ástæður þess að það sé óheilsusamlegt að borða of mikið um jólin og svelta sig svo í janúar. Ég byrjaði að googla en drukknaði í efni um ástæður þess að sá vítahringur sé ekki sniðugur og vissi því ekkert hvar ég ætti að byrja.
Mig langaði einnig að leggja áherslu á raunverulegar auglýsingar, sem dynja á okkur í janúar og rétt fyrir jól, um mikilvægi þess að passa að fitna ekki um jólin. Ég endurtók fyrri leit og það sama gerðist. Ég drukknaði í efni og vissi ekkert hvar ég ætti að byrja.
Og ég varð pirruð, bara ofboðslega pirruð.
Ég var því ennþá frekar týnd, hvernig átti ég eiginlega að hefja þennan pistil? Ég velti fyrir mér að sniðugt væri að nota allar mögulegar upphafssetningar sem mér hafði dottið í hug:
„Ég man þá ótalmörgu daga þar sem ég grét mig í svefn yfir viðbættum kílóum jólanna og brotnum megrunaráramótaheitum...“
„Detoxkúr, sítrónudetox, hreinsun, hreinsunarvika, fitufrysting, sykurlaus janúar...“
„Áramótaheit – að losna við jóla-„auka“-kílóin ...“
„Í kjólinn fyrir jólin!!!...“
„Ekki fitna um jólin KONA!!...“
Ég komst aldrei lengra með pistilinn. Ég varð alltaf svo pirruð. Ég varð reið yfir því hvað megrunarkúrarnir, átökin og „lífstílsbreytingarnar“ voru oft stílaðar eingöngu á konur. Facebook minnti mig til dæmis á það um daginn að árin 2013 og 2014 hneykslaðist ég á auglýsingu þar sem boðið var upp á námskeið til grenningar rétt fyrir jólin. Námskeiðinu, sem auglýst var, var sérstaklega beint að konum. Í nóvember 2015 kom fram á heimasíðu fyrirtækisins sem auglýsti námskeiðið að boðið væri upp á desemberáskorun (ekki tekið fram að það væri eingöngu fyrir konur) en í lýsingunni á námskeiðinu stóð: „5 vikna námskeið fyrir þær sem vilja vera fullar af orku og í fínu formi í desember. Komdu þér í flott form fyrir jólin og njóttu þess að borða góðan mat án þess að sitja uppi með aukakíló og vanlíðan.“ Þannig að þriðja árið í röð varð ég enn og aftur að fá að hneykslast rækilega.
Ég varð einnig pirruð yfir þeim hræðsluáróðri að jólin séu tími tuga aukakílóa. Að við munum öll, ef við pössum okkur ekki, borða á okkur gat og þurfum því að eyða öllum janúar í svelti til að losna við kílóin.
Ég varð pirruð á sjálfri mér, fyrir að sitja fyrir framan tölvuna með kaffibollann minn og Nóa konfekt í morgunmat. Höfðu þá markaðsöflin ekki einmitt rétt fyrir sér?
Jú, við borðum mörg hver meira um jólin en á öðrum tímum árs. Jú, mörg okkar fá sér súkkulaði í morgunmat og piparkökur í hádegismat. Mörg okkar kaupa Cocoa Puffs eingöngu yfir hátíðarnar og jú sum okkar bæta á sig einhverjum kílóum. En er þetta svo hræðilegt? Telja má líklegt að einhver kílóaaukning stafi af aukinni vökvasöfnun vegna reykts hátíðarmats en ekki vegna óhemju aukningar á fitu og eðlilega þá borða flestir ekki Nóa konfekt í morgunmat alla daga ársins. Hér er því ekki um langvarandi hættulegt „ofáts“-ástand að ræða.
Það sem stakk mig mest var að átta mig á, þegar ég googlaði efni fyrir þennan pistil, að ég hef nokkrum sinnum áður hrist hausinn yfir þessu öllu saman og skrifað pistla um það. Ég ákvað því að sleppa því í þetta sinn að skrifa pistil um „hin árlegu jólaaukakíló“ sem okkur er kennt að forðast og hræðast eða um hið algenga áramótaheit sem tengist kílóamissi og í stað þess bara að óska ykkur gleðilegs nýs árs með von um að árið 2016 verði ykkur gleðilegt og heilsusamlegt þar sem áhersla á útlit og kíló víki fyrir áherslu á ánægju, heilbrigði og líkamsvirðingu.
Athugasemdir