Þetta er alltaf eins. Ég var svo sem alveg búinn að hugsa til þess að fara fyrr á stúfana þetta árið til að kaupa jólagjafirnar en svo er bara allt í einu komin Þorláksmessa. Ojæja, þetta verður nú bara létt. Ég er búinn að leiða hugann að fólkinu mínu mjög reglulega allt árið í hvert skipti sem ég rek augun í eitthvað sniðugt. „Þetta væri tilvalið handa mömmu í jólagjöf.“ Auðvitað kaupi ég hlutina ekkert jafnóðum, það er nægur tími til þess. En svo er allt í einu tæpur sólarhringur í jólin.
Djöfull sem það eru margir í bænum. Ég er ekki góður í margmenni. En svona nú, þetta er bara inn/út-aðgerð í örfáar búðir og þá er þetta búið. Hvað eru þetta margar gjafir? 5 sirka? Jebb, fimm. Og ég þekki þetta fólk vel, þetta eru bara mínir nánustu. Þetta verður ekkert mál. Þessi fyrsta ferð sem ég gekk upp Laugaveginn var nú líka bara svona til að anda að mér stemningunni sko. Nú bara sný ég við aftur og fer inn í búðirnar sem mér þóttu líklegastar á leiðinni. Maður verður nú að taka þátt í jólaandanum og auðvitað spjalla við fólkið sem maður hittir og þekkir. Liggur ekkert á, ég verð búinn að þessu löngu fyrir lokun.
Ok, það liggur nú heldur ekkert á að fara inn í búðirnar strax. Ég þarf líka aðeins að rifja upp hvað ég var búinn að hugsa um að kaupa og svona. Ég lá á koddanum í síðustu viku og setti saman sennilegan lista í höfðinu meðan ég fletti heimabankanum, var það ekki? Það er líka bara óþarfi að láta þetta kosta of mikið, það er hugurinn sem gildir og við erum mikið til að tala um fullorðið fólk sem á auðvitað allt. Þetta verður ekki óyfirstíganlegt, ég þarf bara að koma þessu heim og saman. Sennilega þarf ég líka að slíta mig bara frá amstri dagsins og fá mér einn bjór meðan ég raða þessu saman og rifja upp. Bíllinn getur alveg staðið hérna í miðbænum þar til á morgun.
Jájá, þessir þrír bjórar hjálpuðu helling. Auðvitað. Líka bara gott til að taka kúfinn af mannfælninni áður en ég hætti mér inn í þessi pyntingarrými kapítalismans. Og fyrir hvern er betra að þessi jólalög séu spiluð svona ógeðslega hátt? Ég er nú alveg nógu óviss á stærðinni á helvítis kápunni handa konunni þó að ég þurfi ekki að öskra klaufalegar lýsingar á líkamsburðum í eyrað á afgreiðslukonunni yfir mjálmið í Helga Björns. Ef þú nennir ekki, Helgi minn, þá skaltu líka bara naglhalda kjafti!
Nei, það er heldur ekkert vit í að kaupa föt, er það? Maður væri alltaf að senda frá sér vafasöm skilaboð ef maður hitti ekki á nákvæmlega rétta stærð. Og við erum að tala um svipaðar líkur og að vinna í Víkingalottóinu, stærðirnar eru svo yfirþyrmandi margar. Neinei, ekki föt. Auðvitað ekki. Hún á líka örugglega glænýja kápu, svona þegar ég hugsa þetta nánar. Held ég.
Skartgripir og bækur eru gjafir fyrir aumingja. Allt of seif og karakterlausar og eiginlega bara skörinni neðar en gjafabréf. Gjafabréf eru ekkert annað en uppáskrifaðar diplómur handa huglausum ónytjungum sem geta ekki ákveðið neitt í lífinu. Mér þykir vænna um fólkið mitt en svo og ég er heldur ekki þessi mannleysa. Ég er búinn að hugsa þetta allt árið og skil hreinlega ekki í mér að hafa ekki pantað allar gjafirnar af Ebay eins og ég lofaði sjálfum mér að gera strax eftir síðustu Þorláksmessuferð. Næst. Krónan stendur líka miklu betur gagnvart pundinu núna.
Sennilega voru það þessir tveir bjórar sem ég sturtaði í mig í seinna bjórstoppinu það sem upp á vantaði. Hvort viskískotið var over the top verður svo bara að koma í ljós en mér þótti það bara einhvern veginn öruggara. Og nú kemur þetta.
„Hvernig datt mér í hug á sínum tíma að ég þyrfti að eignast lífsförunaut? Og þar á ofan barn?“
Eftir klukkutíma í viðbót, löðursveittur með axlirnar í öxlum samborgara minna, meðan ég reyni að olnboga mig inn í slembivalskenndar verslanir sem fyrir mér verða, grefur efinn um sig fyrir alvöru og víkur síðan fyrir algerri uppgjöf. Eðlileg skynjun er löngu horfin og við bætast dýpri vangaveltur. Fimm gjafir? Það er auðvitað óyfirstíganlegt og ekki fyrir nokkurn eðlilegan mann að uppfylla. Hvernig datt mér í hug á sínum tíma að ég þyrfti að eignast lífsförunaut? Og þar á ofan barn? Ég get þó allavega látið taka mig úr sambandi núna og þannig komið í veg fyrir að gjafakrafan stækki. En það eru ljósir punktar þarna líka. Það er til að mynda svo sem ekkert stórmál að afneita þessum tveimur systkinum sem ég á og öllum góðum vættum þakka ég fyrir að faðir minn hafi látist langt fyrir aldur fram. Takk, pabbi!
Á endanum set ég undir mig hausinn og læt vaða, frávita af lítilmagni og heift. Um leið og ég sé fyrsta hlutinn sem fyrir mér verður kalla ég á aðstoð og slekk á heilanum.
„Ég ætla að fá 5 svona takk!“
„Fimm svona skjalatöskur?“
„Já!“
„Þær kosta 240.000 krónur stykkið.“
„Ha..?“
„Þær eru úr hvítagullssútuðum krókódílaaugnlokum og saumaðar af keisaraynj ...“
„Uss, ég vil ekki heyra meira! Pakkaðu þeim inn fyrir mig!“
Einhvern veginn ná þessar skyndiákvarðanir alltaf að hitta í mark hjá mér. Ég er nefnilega ógeðslega góður í að kaupa jólagjafir. En plönin sem ég var með fyrirfram standast hins vegar aldrei og kúlið sem ég einset mér í hvert sinn að halda fer jafn mikið til fjandans á hverju ári.
En þetta fer allt vel að lokum. Gleðileg jól.
Athugasemdir