Í myndinni The wolf of Wallstreet er atriði þar sem úlfurinn biður viðstadda um að selja sér penna. Ósköp venjulegan, óáhugaverðan penna. Allir keppast við að draga fram kosti pennans en með lítt sannfærandi hætti. Sá sem vinnur leikinn biður úlfinn einfaldlega um að skrifa nafnið sitt á servíettu – og þá vantar auðvitað penna til að gera það. Þetta er galdurinn á bak við neyslusamfélagið - að skapa eftirspurn þegar engin er til staðar. Sölumennskan felst ekki svo mikið í því að upphefja vöruna heldur í því að búa til aðstæður þar sem hún virðist nauðsynleg.
Megrunarbransinn er fullkomið dæmi um þetta. Þetta er bransi sem selur vöru sem virkar ekki. Hann getur engu að síður selt sömu vöruna í mismunandi búningum áratugum saman af því hann hefur talið okkur trú um að án hans myndum við missa stjórn á lífi okkar, verða viðbjóðsleg og ljót og óhamingjusöm þangað til við dæjum, innan við fertugt, úr lífsstílssjúkdómum. Og ekki bara það. Honum hefur líka tekist að telja okkur trú um að árangur vörunnar sé undir okkur sjálfum komið. Þegar varan virkar ekki þá er það áfellisdómur yfir okkur en ekki vörunni. Við erum ekki nógu góð og leggjum ekki nógu hart að okkur. Svarið er að reyna betur. Aftur og aftur.
„Þetta er bransi sem selur vöru sem virkar ekki.“
Þegar kona hefur öðlast gleraugun til að sjá firruna í þessu kemur þessi ótrúlega fylgispekt við blekkingar megrunarbransans alveg stórfurðulega fyrir sjónir. Allt samfélagið sveiflast með reglubundnu slagverki þessa iðnaðar. Við keppumst við að komast í kjólinn fyrir jólinn, svo að ná af okkur jólakílóunum (eða förum á námskeið til að læra að hemja okkur í jólaboðum svo það verði engin jólakíló), þegar vorið nálgast þarf að koma sér í bikiníform, síðan taka haustátökin við til að afmá ummerki um bjór og grill sumarsins og að lokum hefst næsta jólakílóanámskeið að nýju. Þetta er vítahringur og til að öðlast frelsi þurfum við að stíga af þessar hringekju óhamingjunnar.
Hér eru nokkur gagnleg skref til þess:
1. Kauptu þér kjól sem passar. Þá er það mál leyst.
2. Lærðu að njóta hreyfingar vegna þeirrar orku, lífsgleði og styrks sem hún veitir en ekki vegna kílóanna sem þú vonast eftir að fjúki. Þá verða engin vonbrigði, heldur bara gleði, gleði, gleði alla tíð.
3. Matur er ekki tæki til að stjórna líkamanum heldur efniviður til að næra líkamann. Hann er það eina sem líkaminn hefur úr að moða til að sinna daglegri starfsemi og sjá til þess að þetta stórfenglega gangverk virki eins og það á að virka. Maturinn hefur áhrif á alla líkamsstarfsemi, þar á meðal líðan. Þá er ég ekki að meina afleiddar tilfinningar eins og samviskubit yfir því að borða heldur alvöru innri líðan. Þegar við föttum þetta verður það að næra sig vel umhyggjusöm athöfn sem er ekki knúin áfram af kvöð eða samviskubiti heldur löngun til að líða vel.
4. Megrunarmenningin kennir okkur að það sé bara til ein tegund af ásættanlegum líkömum en það er bull sem hefur kallað yfir okkur ómældar þjáningar og óréttlæti. Mannslíkamar eru allskonar og það er jafn fáránlegt að gera ráð fyrir því að við séum öll eins í laginu eins og að við séum öll með sama skónúmer. Þetta þarf að skilja í eitt skipti fyrir öll. Það er enginn líkami betri, fallegri, réttari eða meira virði en annar.
5. Okkur er talin trú um að útlit og líkamsvöxtur séu lykillinn að lífshamingju, sjálfsöryggi og farsæld en við nánari skoðun sést að fólk getur uppfyllt ströngustu kröfur um fullkomið útlit en samt lifað óhamingjusömu lífi. Það sem hefur mest áhrif á lífshamingjuna snertir ekki ytra útlit heldur sambönd okkar við aðra – ástríkt samband við maka, góð fjölskyldutengsl, traust vinátta, þetta eru hlutirnir sem skipta máli. Til að upplifa lífsfyllingu og hamingju þurfum við að fjárfesta í öðru en útlits- og líkamsdýrkunariðnaðinum.
Athugasemdir