Mikill fjöldi frambjóðenda til embættis forseta Íslands mun gefa sig fram fyrir kosningarnar í sumar. Fjöldinn er þegar orðinn nokkur, og eiga flestir von á fleirum. Það er jákvætt að svo margir séu reiðubúnir til að taka á sig þetta hlutverk, en þegar fjöldinn er orðinn þetta mikill þá skiptir máli hvernig er valið.
Samkvæmt stjórnarskrá er sá rétt kjörinn forseti „sem flest fær atkvæði“. Gerum greinarmun á „meirihluta“ (e. plurality) í merkingunni flest atkvæði, og „meirihluta“ (e. majority) í merkingunni rúmlega 50% atkvæða. Séu frambjóðendur fleiri en tveir getur sigurvegari haft flest atkvæði en ekki meirihluta atkvæða. Gæti komið upp sú staða með tíu frambjóðendum, að forseti sé kjörinn með rétt rúmlega 10% atkvæða, þótt það sé ólíklegt í sögulegu ljósi. Ólafur Ragnar Grímsson fékk 41,38% atkvæða árið 1996, og Vigdís Finnbogadóttir vann með 33,8% atkvæða árið 1980.
Engu að síður ættum við að gjalda varhug við að forseti sé kjörinn með minnihluta atkvæða. Þótt hann hljóti flest atkvæði hefur hann ekki stuðning flestra kjósenda, sem getur veikt stöðu forseta í embætti og aukið á ósætti um framferði forseta. Það er öllum í hag að umboð forseta sé eins skýrt og völ er á.
Kosningakerfið sem hefur verið notað í forsetakjöri á Íslandi er vel þekkt sem eitt alversta kosningakerfi sem hugsast getur. Eini kostur þess er að það er einfalt. Ókostirnir eru margir. Það ýtir til dæmis undir minnihlutaræði, og það er einnig viðkvæmt fyrir spilliáhrifum, það er, að tveir frambjóðendur með svipaðar skoðanir geta spillt fyrir hver öðrum og þannig styrkt annan frambjóðanda með andstæðar skoðanir. Kjósendur kjósa einnig oft skásta vinsæla kostinn frekar en að velja þann sem þeim þykir bestur.
Kosningakerfið uppfyllir hreinlega ekki flest þau skilyrði sem sett eru fyrir góðu kosningakerfi. Að ríghaldið sé í það er fyrst og fremst illa ígrunduð afturhaldssemi.
Aðrir valkostir
Orðalag stjórnarskrár útilokar mögulega mörg þeirra kerfa sem talin eru heppileg í einmenningskjöri. Það er nefnilega munur á því að fá flest atkvæði, og að hafa mestan stuðning kjósenda, þótt það hljómi ef til vill mótsagnakennt í fyrstu.
Kosningakerfum má skipta upp í tvo hluta: kjörseðilsaðferð og talningaraðferð. Kjörseðilsaðferðin ræður því hvaða upplýsingum er safnað frá kjósendum, en talningaraðferðin ræður því hvernig er unnið úr þeim upplýsingum til að komast að niðurstöðu.
Kjörseðilsaðferðin sem við erum vön gefur okkur lista af valkostum, og hakað er í einn. Önnur kjörseðilsaðferð gæti til dæmis leyft okkur að haka við alla frambjóðendur sem okkur líkar við (samþykkiskosning), gefa öllum frambjóðendum stig á einhverjum kvarða (stigakosning) eða númera frambjóðendur (forgangskosning). Hvert þessarra kjörseðilskerfa gefur möguleika á ýmsum talningaraðferðum.
Samþykkis- og stigakosningar
Í samþykkiskosningu haka kjósendur við alla þá frambjóðendur sem þeir geta hugsað sér að hljóti embættið. Hægt er að haka við engan, einn, alla, eða hvað sem er. Sá nær kjöri sem hlýtur flest atkvæði. Þetta kerfi tryggir ekki meirihlutaræði, en eykur líkurnar á því, ásamt því að leyfa kjósendum að velja þann sem þeim þykir bestur, og aðra valkosti til vara. Þó er einhver möguleiki á að tveir eða fleiri hljóti jafn mörg atkvæði (sem er einnig tilfellið með núverandi kerfi).
Þegar frambjóðendum eru gefin stig eru tveir augljósir valkostir. Í hreinni stigakosningu eru stig frambjóðenda talin saman og sá vinnur sem hefur flest stig. Afbrigði af þessu er notað í Eurovision, en aðferðin hefur sætt gagnrýni fyrir að hygla meðalmennsku - fyrsta val stærsta hluta kjósenda tapar oft fyrir öðru eða þriðja vali ögn stærri hóps.
Önnur leið er að líta á stigin sem einkunn, og sá vinni sem fær hæstu meðaleinkunn frá kjósendum. Þetta tryggir hvorki meirihlutaræði né að aðeins einn nái kjöri, þótt enn aukist líkurnar á hvoru tveggja fram yfir samþykkiskosningu. Þetta kerfi gæti á margan hátt verið heppilegt fyrir forsetakosningar á Íslandi.
Forgangskosningar
Í forgangskosningu gefa kjósendur frambjóðendum númer, til dæmis frá 1 upp í 10. Hugsanlegar talningaraðferðir eru ótal margar, en flestar ganga út frá því að frambjóðendur eru útilokaðir hver á fætur öðrum, og atkvæðin látin ganga áfram til næsta frambjóðanda. Hver kjósandi hefur aðeins eitt atkvæði, en það fer þangað sem það nýtist best.
Helsti galli forgangskosninga er að kjósendum þykja þær oft flóknar. Þær geta þó tryggt meirihlutaræði og að einn skýr sigurvegari standi eftir, og hafa ýmsa aðra heppilega eiginleika.
Ein talningaraðferð sem ætti að skoðast í þessu samhengi er Schulze-aðferðin. Hún tryggir að sá sigrar sem gæti sigrað alla andstæðinga sína í einvígi, miðað við val kjósenda. Þessi aðferð verður sífellt vinsælli vegna þess að kjósendur eru almennt mjög sáttir við niðurstöður kosninga, jafnvel þegar þeirra uppáhaldsframbjóðandi tapar.
Eina spurningin er hvort Schulze-aðferðin uppfylli skilyrðið sem stjórnarskráin setur, um að sá sigri sem hljóti flest atkvæði. Um það verða lagaspekingar að deila.
Hugsum út fyrir kjörkassann
Það er fullt tilefni til að ræða um nýtt kosningakerfi fyrir forsetakosningarnar, enda núverandi kerfi alvarlega gallað. Eftir því sem frambjóðendum fjölgar og tíminn styttist til kosninga verður erfiðara að komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvernig skuli fara að. Ég vil því skora á Alþingi að taka upp annað kerfi fyrir komandi forsetakosningar.
Schulze-aðferðin væri best, en öðrum kosti einkunnarkosning. Það má líka ræða aðrar aðferðir, svo sem Copeland, IRV, AV eða jafnvel Dodgson-aðferðina. Af nógu er að taka.
Athugasemdir