Undirskriftarsöfnun þar sem þess er krafist að Alþingi verji árlega 11% af landsframleiðslu til heilbrigðismála stendur yfir. Yfir 50 þúsund hafa skrifað undir ákallið um að „endurreisa“ heilbrigðiskerfið. Það bendir til þess að mjög margir líti svo á að heilbrigðiskerfið sé hrunið. Við, sem staðið höfum í endurreisn bankakerfisins frá hruni þess 2008, stöndum nú einnig frammi fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins. Hverjir skyldu bera ábyrgð á hruni þess?
Hér tek ég undir með Kára Stefánssyni: Það hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfinu okkar verður að skrifast á ábyrgð þeirra sem hafa farið með umboð okkar á Alþingi núna og um áratuga skeið. Gildir einu hvar í flokki menn standa; íslenskir stjórnmálamenn hafa hvorki haft pólitískan vilja, þor eða úthald til að veita markmiðum heilbrigðiskerfisins þá forystu sem þarf til að standa vörð um opinbert heilbrigðiskerfi.
Í ljósi þess að skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að mikill meirihluti almennings vill að heilbrigðisþjónustan verði áfram fjármögnuð úr opinberum sjóðum og að mestu veitt á opinberum stofnunum, þá hljótum við að spyrja hvernig stendur á því að fulltrúum okkar á Alþingi hefur ekki tekist að standa vörð um heilbrigðiskerfið? Karp um tölur, hlutföll og stærðir getur ekki svarað þessari spurningu. Hér þarf að skoða sögu heilbrigðiskerfisins aftur til þess tíma er heilbrigðisráðuneytið varð til árið 1970, og beina sjónum að átökum milli hugmynda og hagsmuna innan kerfisins og hvernig þessi átök hafa mótað heilbrigðiskerfið okkar.
Einkarekin þjónusta hefur aukist á kostnað opinberrar þjónustu
Einkarekin sérgreinalæknaþjónusta utan sjúkrahúsa hefur haft betur í samkeppninni um opinbert fjármagn. Sérgreinalæknar fá greitt samkvæmt afkastahvetjandi kerfi á meðan kollegar þeirra innan hins opinbera kerfis fá greidd föst laun samkvæmt kjarasamningum. Starfsemi sérgreinalækna utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið í stórum skrefum síðan 1990. Meira en helmingur þeirra lækna sem starfa á háskólasjúkrahúsinu okkar í Reykjavík starfar jafnframt á einkastofum út í bæ. Flestir þessir læknar vinna við svokallaðar „valaðgerðir“. Þeir eru í aðstöðu til að velja og hafna sjúklingum og vísa sjúklingum af háskólasjúkrahúsinu til sín út á einkastofurnar þar sem þeir geta unnið á afkastatengdum kjörum á skrifstofutíma.
Starfskjör sérgreinalækna á einkastofum eru ákvörðuð í samningum milli þeirra og Sjúkratrygginga Íslands. Í apríl 2011 þegar samningar þeirra voru lausir ákvað heilbrigðisráðherra að veita þeim heimild til að starfa samkvæmt gildandi samningi meðan ekki náðust nýir samningar. Þá gafst svigrúm fyrir sérgreinalækna til að sækja launahækkanir sínar í vasa sjúklinga. Heildargjaldið fyrir þjónustuna hækkaði meðan hlutur Sjúkratrygginga stóð í stað. Hlutur sjúklinga í heildargjaldinu, sem var um 30% í upphafi tímabilsins, var orðinn um 40% í lok árs 2013, þegar samningar náðust. Þá ákvað annar heilbrigðisráðherra að gera þessa hækkun sérgreinalækna á hlutdeild sjúklinga í heildargjaldinu að opinberum útgjöldum. Útgjöldin komu fram á fjárlögum til Sjúkratrygginga árið eftir.
Gjaldskrárhækkun sérgreinalækna á samningslausa tímabilinu milli 2011 og 2014 og hvernig hún varð að opinberum útgjöldum til heilbrigðismála er eitt dæmi um það hvernig það gerist sem útreikningar hafa sýnt, að einkarekstur innan kerfisins hefur betur en opinber rekstur í samkeppninni um fjármagn úr opinberum sjóðum. Þetta ber að hafa í huga þegar ráðherrar og þingmenn halda því fram að þeir hafa verið að bæta verulega í framlög til heilbrigðismála. Hér þarf að spyrja, hvert hefur það fjármagn farið: til þjónustu í einkarekstri eða þjónustu í opinberum rekstri.
Ríkið sveltir og semur
Heimilis- og heilsugæslulæknar hafa staðið í ströngu, einkum eftir átökin sem blossuðu upp í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu tilvísanakerfisins árið 1995. Þar tókust á í harðri deilu, sem seint mun gleymast, sérgreinalæknar utan sjúkrahúsa og heilsugæslulæknar á heilsugæslustöðvum hins opinbera. Sérgreinalæknar höfðu betur í þeim ramma slag. Síðan þá hafa heilsugæslulæknar, sem nú eru langþreyttir eftir svikin loforð og brösótt samstarf við stjórnvöld, leitað útgönguleiða, þ.e. úr opinberri þjónustu og í rekstur á borð við þann sem sérgreinalæknar utan sjúkrahúsa búa við. Læknavaktin, sem er einkarekin þjónusta þeirra sjálfra utan heilsugæslustöðva, varð til. Reksturinn er fjármagnaður með samningi við Sjúkratryggingar og heimilislæknar Læknavaktarinnar fá greitt með svipuðum hætti og sérgreinalæknar utan sjúkrahúsa. Hugmyndin um heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðiskerfinu hefur orðið undir í þessari þróun.
Landspítalinn, sem átti að verða háskólasjúkrahúsið okkar, hefur barist í bökkum síðan sameiningarhrinu sjúkrahúsanna í Reykjavík lauk árið 2000. Á meðan dansað var í góðærinu fyrir hrunið hvíldi skuggi niðurskurðar yfir háskólasjúkrahúsinu sem bjó við arfleifð sameiningarinnar, þ.e. hertar hagræðingarkröfur stjórnvalda. Atgervisflótti, undirmönnun og úrvinda starfsfólk, bilandi tækjabúnaður og afleitur húsakostur býr til kærkomna réttlætingu fyrir þá sem aðhyllast þá stefnu að koma sem mestu af því sem gert er á Landspítala „út á markað“, en hafa eins lítið og hægt er að komast af með á Landspítala.
Hugmyndin um háskólasjúkrahúsið var ekki hugmynd stjórnvalda, enda er það núna kallað „þjóðarsjúkrahúsið“. Hugmyndin um alvöru háskólasjúkrahús, miðstöð sérhæfingar sem átti að auka gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar var hugmynd sjúkrahúslæknanna. Markmið stjórnvalda og hugmyndir sjúkrahúslæknanna fundu, illu heilli, samleið í sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík; illu heilli, vegna þess að nú er fjárveitingarvaldið í betri aðstöðu en áður til að laga leiðir að markmiðum. Í stað þess að svelta til sameiningar er nú hægt að svelta til einkavæðingar. Loforðið um háskólasjúkrahúsið virkaði sem tálbeita. Hugmyndin um háskólasjúkrahúsið er enn fjarlægur draumur.
„Meginmarkmið íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru pólitískir munaðarleysingjar.“
Þess vegna þarf að „eyrnamerkja“ aukin framlög til heilbrigðiskerfisins
Markmiðin um að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga í kerfinu og að Landspítalinn verði háskólasjúkrahús, miðstöð sérhæfðrar læknisþjónustu, eru brýnir almannahagsmunir. Þróun sérgreinalæknaþjónustu utan sjúkrahúsa hefur grafið undan þessum markmiðum. Þessi meginmarkmið íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru pólitískir munaðarleysingjar. Enginn ráðherra hefur sýnt þá getu, þor og úthald sem þarf til að taka þessi markmið að sér, standa með almannahagsmunum og halda stefnunni til streitu.
Athugasemdir