Alls staðar um heiminn hefur fólk verulegar áhyggjur af þróun valdajafnvægis og stjórnmála í Bandaríkjunum eftir að forseti náði völdum sem ógnar lýðræðinu með margvíslegum hætti, sem verður farið nánar yfir hér.
Það sem vekur einna helst spurningar á Íslandi er hvers vegna forsætisráðherra okkar og áberandi aðilar í stærsta stjórnarflokknum kjósa að koma Donald Trump til varnar opinberlega, í stað þess að taka staðfasta afstöðu með vestrænni lýðræðishefð.
Þótt okkur kunni að finnast sem svo að bandarísk stjórnmál komi okkur ekki við fyrr en það skellur á stríð, er klárt að stríðið er nú þegar hafið. Orrustan til varnar lýðræðinu er háð á vettvangi umræðunnar, heimavelli þess, en hún færist smám saman yfir á vettvang hinnar hreinu valdbeitingar. Samfélagi okkar stafar ekki veruleg ógn af hryðjuverkum, heldur af valdasamþjöppun og gildismati sem dreifist nú til Íslands frá Bandaríkjunum með smitáhrifum.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lögðu fram sín innlegg í umræðuna um stjórnmál Donalds Trump í Silfrinu um síðustu helgi. Afstaða þeirra var að fólk væri almennt að bregðast of illa við Trump hér á Íslandi. Þeir komu honum til varnar. Brynjar kvartaði sérstaklega undan því að orðið fasisti hefði verið notað um Donald Trump. „Í ræðustól Alþingis!“ Svo sagði hann í lagi að kalla menn kommúnista, en að „því fylgi ákveðið ofbeldi“ að kalla menn fasista eða rasista.
Ósanngjarn ímyndarvandi Trumps
Þetta er ímyndarvandi, sagði Bjarni, og það ósanngjarn. „Mér finnst það vera áhyggjuefni hvernig ímynd Bandaríkjanna er akkurat í augnablikinu. Ég er ekki viss um að það sé allt alveg sanngjarnt sem sagt er í þeirri umræðu.“
Bjarni og flokksmenn hans hafa, eins og nánast öll heimsbyggðin, gagnrýnt bann við komu fólks frá sjö múslimaríkjum til Bandaríkjanna, en á þeim forsendum að það sé rangt viðbragð við hryðjuverkaógn. Ákvörðunin hefur hins vegar ekkert með hryðjuverk að gera heldur er það augljós tilraun til að innleiða skelfingu, umbreyta minnihlutahópum í óvini og stilla sér svo upp sem nauðsynlegum bjargvætti sem þurfi auknar valdheimildir til að fyrirbyggja hræðileg örlög fólks.
Það sem Trump hefur verið að gera er gjörbreyting á stjórnmálum í valdamesta lýðræðisríki heims. Og breytingin er í átt að fasisma. Því þetta eru einkenni um fasisma og aðför gegn nauðsynlegum undirstöðum lýðræðis:
- Að kynna sjálfan sig sem holdgerving vilja þjóðarinnar
- Að ala á þjóðernishyggju og goðsögn um mikilfengleika
- Að stilla upp sjálfum sér sem lausn á öllu en öðrum sem vandamáli eða óvinum
- Að ýta undir ótta
- Að ýkja markvisst ógnir
- Að benda á sökudólga
- Að benda á minnihlutahópa sem mestu ógn samfélagsins
- Að grípa til aðgerða til að jaðarsetja eða útiloka fólk á grundvelli þjóðernis eða trúar
- Að benda á samsæri
- Að lama eftirlitsstofnanir og ráðast gegn stofnunum sem geta takmarkað vald hans
- Að ráðast á dómara fyrir úrskurði þeirra gegn valdbeitingu hans
- Að skerða upplýsingaflæði með valdi
- Að grafa undan sannleikanum sem slíkum
- Að ljúga markvisst og reyna að þröngva fólki til að samþykkja ósannindi
- Að afneita vísindum og vísindalegri aðferð
- Að beita valdi til að loka á tjáningu annarra
- Að gera opinberlega lítið úr einstaklingum sem gagnrýna
- Að ráðast á fólk út frá kynferði
- Að afmá mörk stjórnmála og trúarbragða
- Að raða pólitískum aðstoðarmönnum í þjóðaröryggisráð
- Að leggja áherslu á hernaðarmátt
- Að framkalla óreiðu og óvissu með aðgerðum sínum
Umburðarlyndið fyrir aðför að lýðræði
Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn hafa því gert það sem er algert lágmark í slíkum aðstæðum. Að gagnrýna stórfellda mismununaraðgerð (en það á grundvelli forsenda sem eru fullkomlega falskar). En gildismat Bjarna, eins og Brynjars, birtist í umburðarlyndi þeirra og beiðni um umburðarlyndi annarra.
Brynjar kvartaði undan of miklum viðbrögðum fólks og beindi athyglinni að Evrópu í staðinn. „Mér finnst eins og Evrópusambandið sé algerlega að koðna niður. Ég held að það séu miklu meiri breytingar í farvatninu í Evrópu, heldur en nokkurn tímann í Bandaríkjunum... Þessar áhyggjur hef ég ekki. Ég hef bara áhyggjur af því að hann sé að djöflast í þessu fíflaríi öllu. Sumir geta verið sammála því, aðrir geta verið ósammála því. En einhvern veginn eru allir farnir af hjörunum út af þessum manni!“
Bjarni sagðist hafa áhyggjur af spennunni sem ákvarðanir Trumps hefðu valdið, sem sagt viðbragðinu við þeim. Svo kallaði hann eftir umburðarlyndi. „En mér finnst ekkert að því í sjálfu sér að það komi fram á sjónarsviðið af og til einstaklingar sem eru ekki alveg steyptir úr sama mótinu og allir fyrirrennarar, sem hafa allan sinn æviferil verið þáttakendur í stjórnmálalegri starfsemi og svo framvegis. Þarna kemur maður á þessum aldri, í fyrsta sinn að stíga fyrir alvöru inn á vettvang stjórnmálanna og mörg af hans vinnubrögðum bera þess merki, hann er ekki mjög diplómatískur forseti. Mér finnst alltof snemmt hins vegar að fara að fella þessa stóru dóma sem eru gerðir um hans forsetastefnu.“
Það skiptir máli að Ísland taki sterka afstöðu með lýðræði á alþjóðavettvangi og lýsi skýrri samstöðu með þeim sem berjast fyrir að viðhalda grundvelli lýðræðisins í hvaða landi fyrir sig. Það skiptir enn meira máli þegar slík þróun á sér stað í voldugasta ríki okkar heimshluta. En orðræðan ein og sér og tilraun Trumps hefur nú þegar áhrif á Íslandi.
Smitáhrifin ná til Íslands
Það er bara eitt einkenni þegar þingmenn ríkjandi stjórnarflokks tala um að nota „harðan stálhnefa“ á hælisleitendur (sem eru svikulir og misnota okkur). Það er bara annað einkenni að samflokksmenn hans taka engir neina afstöðu gegn orðalaginu opinberlega. Það er þriðja einkennið þegar þingmenn og leiðtogi sama flokks óska eftir umburðarlyndi fyrir tilraunum til að grafa undan lýðræði, jafnræði, innleiða skelfingu, nýta sér fordóma og framleiða lygar til að auka völd eins manns.
Við vitum að aukið umburðarlyndi gagnvart andlýðræðislegum öflum og ósannindum getur hjálpað ríkjandi stjórnmálaafli. Þess meiri ástæða er til að sýna ekki umburðarlyndi fyrir tilburðum valds og sérhagsmuna til að grafa undan gildismati almannahagsmuna. Smitáhrifin af stjórnmálum valdasamþjöppunar, einföldunar og sannleysi eru mun hættulegri en ógnin sem er verið að selja okkur, en þau eru bara flóknari og erfiðari að selja.
Fyrsta spurningin er því, hvers vegna vill helsti valdhafi Íslands og fulltrúi landsins gagnvart heiminum ekki taka skýra afstöðu gegn mestu ógn vestræns lýðræðis í marga áratugi?
Athugasemdir