Ég hef í gegnum árin átt í sveiflukenndu sambandi við líkamsmyndaráherslur Dove fyrirtækisins. Þegar fyrsta auglýsingin birtist af konunum á hvítu nærfötunum í öllum sínum fjölbreytileika undir yfirskriftinni „Real Beauty“ fyrir bráðum áratug, trúði ég varla mínum eigin augum. Þetta var í fyrsta skipti sem allavega vaxnar venjulegar konur, ekki sérvaldar fyrirsætur sem samræmast þröngum útlitsviðmiðum, birtust í auglýsingu á vegum stórfyrirtækis.
Svo liðu árin og fleiri herferðir fóru af stað, misgóðar eins og gengur, og gagnrýnisraddir tóku að heyrast varðandi skilaboð og ásetning fyrirtækisins. Helstu gagnrýnispunktarnir voru að fyrirtækið væri að stela áherslum líkamsvirðingaraktivista til að græða peninga, að það sé hræsni að snyrtivörufyrirtæki selji vörur undir formerkjum líkamsvirðingar, að áhersla á fegurð sé ósamrýmanleg líkamsvirðingaráherslum og síðast en ekki síst að fyrirtækið sé í eigu sama risaveldis og fyrirtæki á borð við Axe og SlimFast sem eitra heiminn með klámvæðingu og megrunarþráhyggju. Því væri ekki hægt að líta svo á að áherslur Dove væru sprottnar af sannri líkamsvirðingarhugsjón heldur væru þær ekkert annað en hræsnisfullt trix til að græða peninga á fölskum forsendum.
„Því væri ekki hægt að líta svo á að áherslur Dove væru sprottnar af sannri líkamsvirðingarhugsjón heldur væru þær ekkert annað en hræsnisfullt trix til að græða peninga á fölskum forsendum.“
Ég var lengi vel afar tvístígandi. Átti ég, sem baráttukona á sviði líkamsvirðingar, að fagna því að loksins hafi fyrirtæki skuldbundið sig þessum málaflokki og beint sínum víðtæku áhrifum í þágu líkamsvirðingar – eða fordæma þessar aðgerðir sem falskar og hræsnisfullar? Ég hef ekkert lítið velt þessu fyrir mér í gegnum tíðina en hef smám saman komist að eftirfarandi niðurstöðum:
Markmið aktivista er að hafa áhrif á samfélagið, þar með talda þá aðila sem hafa mestu völdin: Stjórnvöld, fjölmiðla og fyrirtæki. Það er eitthvað bogið við að þegar þessir aðilar loksins taka við sér og breyta áherslum sínum í samræmi við kröfur aktivista sé þeim mætt með mótmælum og ásökunum um stuld á skilaboðum frá grasrótinni. Er það ekki markmið grasrótarinnar að hafa einmitt þessi áhrif? Hvernig er það þá stuldur og ósvífni þegar áhrifin ná loks í gegn? Það er ekki bannað að græða peninga á líkamsvirðingarvænum auglýsingum og skilaboðum. Líkamsvirðingarbarátta er ekki barátta gegn kapítalisma. Það er annað mál.
Líkamsvirðingarbarátta er ekki heldur barátta gegn fegurð. Fegurð og líkamsvirðing geta alveg farið saman svo lengi sem fjölbreytileikinn fær að njóta sín. Líkamsvirðingarbarátta snýst um að opna almenna rýmið þannig að allir geti lifað með reisn óháð líkamsvexti. Þetta er barátta gegn kerfislægu misrétti og fordómum sem ógna efnahagslegri og félagslegri velferð, heilsu, líðan og lífsgæðum fjölda fólks um allan heim. Þessi barátta er mikilvæg alveg sama hvað okkur finnst um gildi fegurðar.
Burtséð frá því er Dove ekki best skilgreint sem snyrtivörufyrirtæki. Ég hef sjálf iðulega talað um það sem slíkt en þegar ég fór að skoða vörurnar áttaði ég mig á því að þetta eru fyrst og fremst sápur, body lotion og svitalyktaeyðar. Og brúnkukremið – að vísu - en ég hef sjálf notað það svo mér ferst að tala. Ég nota líka stundum maskara en það breytir engu um líkamsvirðingarhugsjónir mínar.
Tengsl Dove við Unilever samsteypuna voru meðal þess sem truflaði mig lengi hvað mest en sú staða endurspeglar í raun lítið annað en hvernig eignarhaldi fyrirtækja er almennt háttað í dag. Ef þú eltir peningana kemstu að því að fáir aðilar eiga allan heiminn. Hryllilegt en satt. Það breytir ekki því að þessi fyrirtæki eru öll með sína eigin stjórnendur, gildi og markaðsáherslur. Dove hefur ekkert með áherslur Axe eða SlimFast að gera frekar en öfugt og það er jafn fáránlegt að gera Dove ábyrgt fyrir skilaboðum þessara fyrirtækja eins og að leyfa þeim að taka heiðurinn fyrir áherslur Dove. Svo það nær nú ekki mikið lengra.
„Dove hefur uppskorið margfalt, og ég meina maaaargfalt, meiri gagnrýni fyrir aðgerðir sínar í þágu líkamsmyndar en önnur fyrirtæki hafa hlotið fyrir að halda sig bara við gömlu formúluna um hlutgervingu, klámvæðingu og einsleit fegurðarviðmið.“
Það sem gerði þó útslagið fyrir afstöðu mína í stóra Dove málinu var þegar ég áttaði mig á því að Dove hefur uppskorið margfalt, og ég meina maaaargfalt, meiri gagnrýni fyrir aðgerðir sínar í þágu líkamsmyndar en önnur fyrirtæki hafa hlotið fyrir að halda sig bara við gömlu formúluna um hlutgervingu, klámvæðingu og einsleit fegurðarviðmið. Hvað er það? Er í alvöru verið að eyða meira púðri í að ráðast gegn þeim sem eru að reyna að beita áhrifum sínum til góðs en þeim sem eru raunverulega að valda skaða og er skítsama um það? Hvar er þá hvatinn fyrir aðra aðila til að snúa frá ríkjandi áherslum?
Ef okkur er raunverulega alvara með að vilja færa heiminn í átt að aukinni líkamsvirðingu ættum við að gleðjast yfir öllum þeim teiknum sem eru á lofti um að áfram miði í þeirri baráttu og síst af öllu að harma það þegar aðrir vilja feta brautina sem við höfum rutt.
Athugasemdir