„Helvítis kerfið“ – er frasi sem ég man eftir frá því ég var ungur drengur. Þetta tal um eitthvað sem kallaðist „kerfi“ vafðist fyrir mér lengi. Hvaða kerfi var verið að tala um? Eitthvað sem tengdist mönnum í jakkafötum með möppur. Á tímabili voru þeir kallaðir „möppudýr“. Þetta var á tímum skjalatöskunnar.
En hægt og rólega – mjög hægt og rólega – hef ég farið að gera mér grein fyrir hvað þetta „helvítis kerfi“ er. Og það tók áratugi. Það byrjaði líklega í lok síðustu aldar þegar ég tók mína fyrstu yfirdráttarheimild og fékk mér Visa-kort í kjölfarið. Fram að því hafði ég verið svona frekar blankur gaur með reiðufé. Ég man eftir einum mánaðamótum þar sem ég hafði ekki efni á að borga leigu og síminn minn var lokaður. Þetta var sennilega þegar ég tók að mér að gerast flokksstjóri í Vinnuskóla Kópavogs sumarið 1995. Sem betur fer er ég búinn að gleyma smánarlegri upphæðinni sem stóð á launaseðlinum en ég man þó að hún dugði ekki fyrir leigunni – þ.e. ef ég ætlaði að hafa efni á pulsunum og tómatsósunni sem ég át á hverjum degi. Ég kunni nefnilega ekki að elda neitt annað.
En svo keypti ég mér íbúð, tók yfirdrátt og fékk mér Visa-kort eins og áður sagði. Og fljótlega fór ég að hætta að finna fyrir þeirri tilfinningu að ég hefði ekki efni á einhverju – og ekki heldur að ég væri að kaupa eitthvað. En ég keypti samt fullt af dóti – en mér fannst samt alltaf að ég væri að svindla. Þetta dót tilheyrði einhverjum öðrum en mér vegna þess að ég borgaði ekki fyrir það fyrr en eftir á. Og þetta þróaðist í þá átt að hægt og rólega hætti ég að gera mér grein fyrir verðmæti hlutanna. Ef eitthvað bilaði keypti ég frekar nýtt í stað þess að reyna að gera við það. Ég henti því sem var bilað. Ég sóaði verðmætum.
Um hver mánaðamót var svo spennandi að sjá hvort maður hefði efni á A: Visa-reikningnum og B: mánaðarlegum reikningum – svo sem eins og greiðslum af húsnæðisláni, leikskólagjöldum o.s.frv. Ef endar náðu ekki saman var fátt auðveldara en að hringja í bankann og biðja um hækkun á yfirdrættinum – nú eða skipta Visanu. En þá var kannski samt eftir að borga eitthvað svona leiðinlegt sem maður átti víst að borga – eins og skatt og tryggingagjald. Það tilheyrði allt öðrum heimi sem maður dílaði við í gegnum fyrirbæri eins og Tollstjóraembættið eða Motus.
Og svona gekk þetta árum saman. Smátt og smátt fór maður að bölva því hve innkoman var lítil – þetta var varla upp í nös á ketti – helvítis þjóðfélag – helvítis kerfið! Margir í þessari stöðu hafa prófað að flytja af landi brott, til hinna Norðurlandanna – reglulega heyrir maður fréttir af fólki sem býr í Noregi og segist fá hærri laun, betra að lifa, minni skuldir. Samt koma flestir aftur. Einn vinur minn flutti til Svíþjóðar eftir að vera búinn að safna skuldum hér í mörg ár. Tveimur árum síðan kom hann heim og ekki leið langur tími þar til hann var orðinn stórskuldugur aftur.
„Þetta kerfi byggir nefnilega á fólki eins og mér og vini mínum“
Og þá fór hann líka að skoða málin. Hann þurfti bæði að skoða sjálfan sig og þetta „helvítis kerfi“ sem svo margir höfðu bölvað í áratugi. Þetta kerfi byggir nefnilega á fólki eins og mér og vini mínum – líklega um 90 prósent landsmanna. Við látum hvern dag nægja sína þjáningu. Og um hver mánaðamót linum við okkar þjáningu með skammtímalausnum sem byggja á örvæntingu. „Helvítis kerfið“ vill nefnilega halda okkur í mildu örvæntingarástandi um hver mánaðamót – en aldrei þó svo slæmu að við hættum að kaupa alls konar drasl sem við þurfum ekki á að halda. Ef það gerðist myndi hagvöxtur minnka og neysluvísitala fara niður.
Og hægt og rólega – því það verður að vera hægt og rólega, annars mundi kerfið ekki virka – göngum við á vegg. Skuldavegg. Í örvæntingu hringir maður í bankann og segir farir sínar ekki sléttar. Manni er tekið blíðlega. „Setjumst niður og leysum úr þessu.“ Niðurstaðan er gjarnan sú að réttast af öllu sé að fara í „endurfjármögnun“ – sem hljómar einhvern veginn svo miklu betur heldur en: „Að veðsetja íbúðina sína upp í topp og taka nýtt og rosalega dýrt lán til 40 ára.“ Og þetta er gert. Tilfinningin að sjá milljónirnar inni á bankareikningnum er ólýsanleg og dagurinn sem allar skuldirnar eru borgaðar er stórkostlegur hátíðardagur – eða þannig. Því svo kemur nefnilega nýr dagur. Og hægt og rólega gleymist dagurinn sem maður neyddist til að veðsetja húsið sitt. Lífið heldur áfram. Það kemur nýr óvæntur reikningur. Bíllinn bilaði. Visa-reikningurinn er óvenju hár núna. Hvernig stendur aftur yfirdrátturinn?
Og eftir því sem nýr skuldahali byrjar að vaxa fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér hvað íbúðin er búin að hækka mikið í verði frá því maður „endurfjármagnaði“ sig síðast. Ef maður lendir aftur í veseni verður líklega minnsta mál að fara aftur í svona sniðuga „endurfjármögnun“ því þá hefur íbúðin hækkað í verði um 30% eða meira. Gott að geta gengið að sífelldum veðsetningum.
Allt „helvítis kerfið“ miðar að þessu. Ef skuldarinn talar beint við sinn lánardrottin er hann spurður hvort hann geti ekki fengið bankann til að bjarga sér. Lánardrottinn vill fá peninginn sinn strax – sem skiljanlegt er. Og bjargir bankans miða allar að því að skuldarinn festi sig í meiri skuldasúpu svo hægt sé að halda honum í „mildri örvæntingu“ þangað til hann deyr – örvæntingarfullur og stórskuldugur.
Og þeim sem velur að koma sér út úr þessu án hjálpar hins alltumlykjandi og kærleiksríka bankakerfis bíður – að því er virðist – skelfing ein. Vanskilaskrá. Fulltrúar frá Sýslumanni banka upp á heima hjá honum að kvöldi og afhenda bréf sem á stendur „Boðun um fjárnám“. Bréfin frá Motus hrannast upp og hvetja viðkomandi til að gera ekki ekki neitt. Þetta er ógnvekjandi ástand. Viðkomandi bölvar sjálfum sér í hljóði og spyr sig af hverju hann sé ekki einn af því fólki sem á fyrir því sem það ætlar að kaupa. Það steypir sér ekki í skuldir. Það sparar og safnar í sjóð til að geta farið í sumarfrí. Þetta hljómar eins og fjarlægt ævintýri.
En það er víst þannig – bæði í lífinu og ævintýrunum – að ljótu tröllin eru stundum ekkert svo voðalega vond. Það er stundum hægt að tala við þau. Kannski éta þau mann ekki. En það er því miður bara ein leið til að komast að því. Og um leið og einhver stígur það skref er hann orðinn aðeins virkari þátttakandi í lífi sínu, ekki bara óvirkur áhorfandi sem horfir á „helvítis kerfið“ gleypa hann. Og ef vel tekst til nær viðkomandi kannski – hægt og rólega – einhvers konar samkomulagi við ljótu tröllin og klárar sín mál án yfirveðsettrar milligöngu „helvítis kerfisins“. Og í kjölfarið fer hann kannski að nota Visa-kortið minna – jafnvel leggur því. Eyðir í það sem hann hefur efni á. Neitar sér um það sem hann hefur ekki efni á. Bægir frá möguleikanum um að taka yfirdrátt. Byrjar svo kannski að safna í lítinn sjóð? Hin milda örvænting hverfur og hann verður frjáls.
Kannski er þetta fjarlægur draumur? Kannski ekki.
Athugasemdir