Hvenær á maður að segja eitthvað, og þá hversu mikið? Hver er tilgangurinn með því að skrifa pistla? Fyrst þegar ég byrjaði að skrifa pistla hélt ég að þeir gætu breytt einhverju. Ég gæti kannski hreyft nógu mikið við fólki þannig að það tæki kannski til aðgerða.
En eftir því sem ég skrifa fleiri pistla, fleiri fréttir, horfi á spillinguna og kjaftæðið sjóða upp úr öllum kötlum og engum dettur í hug að lækka undir bullsjóðandi dellunni, taka pottinn af eða hætta að sjóða skít átta ég mig á nokkrum hlutum: Það er alveg sama hvað gerist úr þessu. Núverandi forsætisráðherra Íslands hefur ítrekað verið gripinn við sérhagsmunagæslu, nepótisma og lygar. Þetta hefur allt verið afhjúpað, borið undir hann án þess að fullnægjandi svör fáist, og ekkert breyttist.
Panamaskjölin komu og fóru eins og hressandi páskahret og eina bárujárnsþakið sem fauk var hjá Sigmundi Davíð. Kosninga er krafist og það eina sem breyttist var að nú stjórnar Sjálfstæðisflokkurinn landinu aleinn, með aðstoð fyrrum grínflokks sem var meðal annars stofnaður sem ádeila á Sjálfstæðisflokkinn. Er ekki sagan kaldhæðið illa skeint rassgat?
Og nú er illa gefinn appelsínugulur fáviti orðinn forseti einnar valdamestu þjóðar heims. Í aðdraganda kosninganna sagði hann og gerði alla vitlausu hlutina, en vann samt. Hann grípur í píkur og niðurlægir syrgjandi mæður og gerir lítið úr fólki með þroskaskerðingu, getur ekki opnað á sér lúðurinn án þess að út velli stefnulaus rasismi og lýgur ó fokk mæ læf hvað hann lýgur mikið. En það skiptir engu máli. Nú fyrir helgi tók hann við embætti og ef þú hélst að brjálæðið væri ófyndið fyrir valdatökuna þá stefnir það í að verða svipað hlægilegt og bók eftir Steinar Braga akkúrat núna.
Það rignir staðreyndum
Trump hélt ræðu í rigningu og að henni lokinni sagði hann að það hefði ekki verið nein rigning. Áætlað er að allt frá 500 til 900 þúsund manns hafi mætt á innsetningarathöfnina en hann heldur því fram að það sé lygi fjölmiðla og allt að þrefalt fleiri hafi verið á staðnum, sem sérfræðingar hafa hrakið. Fjölmiðlafulltrúinn hans mætti á sinn fyrsta fjölmiðlafund og laug. Hann laug og skammaði fjölmiðla fyrir að segja frá atburðum eftir bestu getu, og ásakaði þá um að ljúga. Svo mætti helsti ráðgjafi Trumps í viðtal og notaði distópískasta konsept sem ég hef heyrt síðan „post-truth“, sem er „alternative-facts.“ Hahahaha, hvað í andskotanum erum við að tala um hérna? Eru staðreyndir valkvæðar?
Ástandið í Bandaríkjunum var ekkert húrra áður en þau kusu trúðinn, en núna er þetta fullkomnað. Allt hefur verið afhjúpað, bent á allar lygarnar, allan hálf-síð-sannleikann en engir öryggisventlar eru hæfir til að takast á við þann yfirþrýsting af fljótandi saur sem nú flæðir. Við erum aldrei lengra en einum kosningum frá fasisma. Kannski voru þær kosningar haldnar fyrir mörgum árum. Hver veit?
Hvað svo?
Til hvers er þetta þá allt? Hvað er hlutverk fjölmiðla og pistla og afhjúpandi frétta þegar þær breyta engu? Sjáðu keisarann, hann er nakinn og honum er skítsama, og hann segir „halt þú kjafti, lygari, þetta er fínasta efni ofið af miklum meisturum, allir segja að ég sé ekki nakinn“ og hvað þá? Bjarni lýgur og lygarnar afhjúpaðar en ekkert breytist. Það rignir á Trump. Það rignir ekki á Trump. Hvers vegna að standa í þessu?
Ég veit það ekki. Ég veit ekki einu sinni afhverju ég skrifaði þennan pistil. Hann breytir engu. Bestu pennar heims skrifa með hjartað á erminni og augun og munninn opin upp á gátt og ekkert breytist. Staðreyndavaktir fjölmiðla benda með logandi priki á lygarnar en það hlýjar bara lygurunum og ekkert breytist. Milljónir kvenna mótmæla um allan heim og ekkert breytist. Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar síðasta apríl og ekkert breytist. Grípum í píkur og borgum hugsanlega rússneskum hórum fyrir að míga í rúm á hótelherbergjum og ekkert breytist.
Hvort sem við erum komin handan sannleikans eða handan staðreynda þá er eitthvað óþægilega áhugavert fram undan. Það logar eitthvað á sjóndeildarhringnum. Kviknað í slökkvitækinu og brunaliðið úðar bara like-um og rí-tvítum yfir allt. Það er óður boli í postulínsbúðinni og byssurnar eru ekki byssur heldur snjallsímar að taka myndir og dildóar sem við sveiflum og dauð górilla sem gerði ekkert rangt og Spánverjar með risaböll. Upp og niður eru í raun hægri og vinstri og ekkert breytir neinu.
Stígvélin fastreimuðu ganga í takt og það skiptir engu máli hvaða hönd þau hlýða. Reimum fastar. Tvöfalt. Marserum hraðar. Hægri. Vinstri. Gnístum tönnum. Fáum sjokk. Hneykslumst á skoðunum. Fréttir eru afþreying, ekki afhjúpun. Tvær ástæður fyrir því að Viðskiptablaðið er sorp. Þú munt aldrei trúa númer þrjú! Byggingarkranarnir sveiflast í vindinum og réttlausir sjómenn á atvinnuleysisbótum og stýrisvextir seðlabankans eru eins og flóð og fjara og koma og fara. Fasteignaverð og leiguverð og enginn getur búið hérna lengur. Reykjavík er ekki okkar, það á hana einhver annar og hann er gráðugur skíthæll. Við fáum bara að skoða búðirnar og byggingarkrana og túristana sem verið er að ræna. 83% íslendinga treysta ekki Alþingi, ungt fólk kýs ekki, öryrkjar og eldri borgarar bókstaflega svelta. Staðreyndirnar eru þarna en hvernig fannst þér nýja Star Wars myndin? Alltaf sama blíðan? Hvað á að gera um helgina?
Hér er engar lausnir að finna. Bara kusk og tómhyggju. Það er ekkert svar á þessari síðu, ekki frekar en þeirri næstu. Taktu lýsið þitt og vertu góður við foreldra þína. Ullaðu á lygara og gefðu stefnuljós. Eða slepptu því. Stærsti glæpurinn er sá sem gerist hægt og með samþykki fjöldans. Trump var kosinn. Bjarni Ben. Putin. Erdoğan. Hitler. Miklir kosningasigrar. Hræðilegir hlutir gerast ekki af því hræðilegt fólk er með hræðilegar skoðanir. Siðblindir einstaklingar sem láta sig sannleikann engu máli skipta móta skoðanir óttaslegins almúgans eins og leir. Búa til bolla. Brenna hann í ofni kosninganna. Drekka völdin úr honum. Skál.
Athugasemdir