Góði guð.
Gef oss í dag vor daglegan donut og fyrirgef oss vorar skuldir.
Ég hef aldrei séð hann. Ég veit ekki af hverju hann ætti að vera til. En ég veit af hverju við myndum vilja trúa því að hann væri til. Fólk vill lifa við æðri mátt sem frelsar það frá breyskleika og yfirvofandi dauða. Ef ein söluvara væri fundin upp í dag, sem enginn gæti skákað, væri það eilíft líf - eða jafnvel eilíf sæla, ef gengist er við skilmálum söluaðilans. Slíkt fyrirtæki myndi slá í gegn í Kauphöllinni í dag, ef það yrði ekki sektað fyrir óréttmæta viðskiptahætti og brot á lögum samkeppniseftirlitsins um auglýsingar.
Guðinn okkar í dag, eða sá sem kemst næst því og er æðsti yfirmaður samfélags okkar, er forsætisráðherrann sem vill að við séum jákvæð og fylgjum þeim boðorðum að leggja ekki nafn hans í hégóma. Með jákvæðni og þögn munum við guðs ríki erfa.
Jesús var með fimm brauðhleifa. Hann mettaði fimm þúsundir með þeim, eins og Jói Fel á sterum. Ha ha. Hann var líka með tvo fiska. Hann gaf útgerðarmönnunum þá báða.
Reyndar ekki, hann gaf fólkinu þá líka.
Við viljum búa við æðri mátt sem svínbeygir hrægamma og segir okkur hvernig við eigum að hugsa. Þetta hefur verið þekkt frá upphafsárum sálfræðinnar, allt frá því að Freud sá að við hefðum lærða þörf fyrir föðurímynd fram yfir fullorðsinsár. Fyrir utan annað sem hann sá í tilraunum sínum með kókaín.
Guð er dauður. Eða svo sagði Nietzsche. Vonandi verður enginn hálshöggvinn fyrir að halda því fram í dag. Segjum bara að hann hafi sagt það. En það litla sem eftir er af valdi guðs í dag er í höndum ríkisstjórnarinnar okkar. Hún er guð okkar í dag, eða því sem næst.
Guð okkar daga ákvað að hækka skatt á brauðið um 4 prósentustig. Í staðinn lækkaði hann skatt á kleinuhringi. Hann ákvað líka að minnka skatt á álver og afnema auðlegðarskatt. Því guðs ríki, það er hér. Himnaríkið er fyrir útvalda sem ná að safna auði. En það er gert fyrir okkur hin. Sælir eru fátækir, því þeir munu sykurmolana erfa.
Jesús óð í villu þegar hann reyndi að dreifa fæðunni. Neyslu þúsundanna ber að skattleggja, nema hún sé sykruð. Og fiskurinn er eign þeirra sem fiskinn eiga. Það þarf ekki að undrast krossfestingu manns sem hegðar sér með jafnóábyrgum hætti fyrir heildina.
Guð í dag er nútímalegur. Hann setur lög á hjúkrunarfræðinga sem vilja hærri laun og deilir í brauðið. Því brauðinu er ekki best varið hjá hjúkrunarfræðingum.
Hagfræðilega staðreyndin er sú að það er betra að peningar rati til fyrirtækja eða eigenda fyrirtækja, heldur en þeirra sem eyða ævi sinni í að lækna veika. Og sólunda síðan penginum sínum í einkaneyslu. Ef hjúkrunarfræðingar fá hærri laun eykst verðbólgan. Það gerist ekki með sama hætti þegar skattur á auðfólk er lækkaður, því það neytir ekki alls brauðsins heldur skilur eftir sig. Og ef verðbólgan eykst minnkar brauðið fyrir alla hina. Það sem er mikilvægt er að fyrirtækin eigi nóg af peningum og fólk geti keypt innfluttar vörur á lægra verði, sem eru framleiddar af fyrirtækjum í hinum fjarlæga heimi til að styrkja íslenskt efnahagslíf.
Verðbólgan eykst ekki ef verð er lækkað á kleinuhringjum, en hækkað á heilkornabrauði, og fiskurinn er færður undir eign réttmætra eigenda hans, og skattur á bílavarahluti, konfekt og gosdrykki er lækkaður á móti. Svo mælir módelið.
Eigi skal hækka laun venjulegs fólks, eða lækka skatta á fæðu þess ósykraða, heldur skal lækka skatta á þá sem stunda betri peninganotkun, eins og þá sem keyra um á Range Rover. Jesús ók um á asna, enda var hann réttilega krossfestur, bölvaður verðbólguóði hipsterinn.
En hvað er það sem gerir það betra að lækka ákveðna skatta, sérstaklega á auðuga, en að hækka laun? Jú, það er bersýnilega það að þúsundirnar eyða peningum í vitleysu. Hagkerfið Ísland virðist skaðast af því að við neytum matar, sem er ekki sykraður, en batna við að við flytjum inn bíla og græjur og neytum konfekts og goss. Þetta gera hinir auðugari ekki. Þeir neyta af hófsemd og hagkvæmni og deila með sér. Á meðan hjúkrunarfræðingarnir sleikja út um í græðgi sinni á matvæli úr Bónus og fjármagna reisulegar blokkaríbúðir sínar eru hinir auðugu fyrirtækjaeigendur færir um að nýta frelsið til góðs. Þeir fjárfesta. Til dæmis í einkarekinni heilbrigðisþjónustu fyrir sjúka, sem skapar arð. Það sem áður var veikindi og tap varð að arði í höndum þeirra. Og svo opna þeir veitingastaði fyrir ferðamenn, sem hjúkrunarfræðingar eyða einungis í þegar sjálfsstjórn þeirra brestur.
Við lifum í hinum besta mögulega heimi. Guð myndi ekki gera það öðruvísi. Enda er full ástæða til að vara við landlægri neikvæðni og mæla með samstöðu.
Við höfum það gott. Í helvíti hefur fólk það til dæmis mjög slæmt. Gjarnan er það fólk sem ekki hefur yfir að búa sömu jákvæðni, samstöðu og dyggðum og við höfum náð að tileinka okkur undir styrkri leiðsögn. Guð hjálpi þeim. Því ekki gerum við það. Við vorum að skera niður þróunaraðstoð um þrjú þúsund milljónir króna á sama tíma og forsætisráðhera vor segir að meira sé til skiptanna en áður. Ha ha.
Sankti Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra orðaði þetta betur en Jesús hefði nokkurn tímann gert. Ef gráðugu hjúkrunarfræðingarnir láta ekki segjast með brauðið sem þeir ásælast munum við fá aðra hjúkrunarfræðinga frá útlöndum. Jesús talaði um að skilja ekki neinn sauð eftir. En Jesús var fullur af bulli, enda var hann krossfestur, helvítið á honum. Maður nær sér bara í nýtt sauðfé.
Og hverjum er ekki sama? Hættið þessu væli. Dunkin Donuts er að fara að opna sextán nýja veitingastaði á Íslandi. Eins og McDonalds í fjórða veldi. Jesús bauð upp á brauðhleifa. En okkar menn hafa kleinuhringi. Segjum svo að ekki hafi orðið framfarir.
Mundu bara að ef þú étur of mikið af ódýrum kleinuhringjum færðu hjartaáfall og endar á Landspítalanum. Því eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu, því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin, að eilfíu. Amen.
Athugasemdir