Samkynhneigðir sættu um árabil miskunnarlausum ofsóknum. Glímumaðurinn Guðmundur Sigurjónsson Hofdal var dæmdur í fangelsi fyrir „kynvillu“ árið 1924 í Reykjavík. Samkynhneigðir voru kallaðir margs konar ljótum nöfnum (sódómískir, kynvillingar o.fl.) og gjarnan barðir fyrir þá sök að vera öðruvísi. Lífsbaráttan var hörð fram eftir öldinni og Hörður Torfason trúbador ákvað árið 1975 að flýja land til Danmerkur sakir þessa ástands. Viðtal við Hörð í tímaritinu Samúel frá þessum tíma vakti mikla athygli. Hann var einarður baráttumaður sem fór úr landi til að leggja áherslu á kröfur sínar um mannréttindi til handa samkynhneigðum. Margar sögur voru sagðar á þessum árum um homma sem sættu alls konar ofsóknum og barsmíðum í samfélaginu. Sumir slógu til baka og börðust fyrir rétti sínum til að fá að lifa óáreittir í nútímasamfélagi. Þetta var tími átaka. Samkynhneigðir voru ofsóttur minnihlutahópur sem barðist fyrir rétti sínum til að lifa eðlilegu lífi.
En tímarnir breyttust leifturhratt. Á 21. öldinni hafði þessi barátta skilað sér á flestum sviðum. Ofsóknir lögðust af og samkynhneigðir urðu eðlilegur hluti af samfélaginu. Árleg gleðiganga vakti bæði athygli og hrifningu. Samkynhneigðir urðu áberandi í fjölmiðlum. Forsætisráðherra lýðveldisins var samkynhneigð kona og fleiri komust í áhrifastöður. Engum datt lengur í hug að veitast að samkynhneigðum í ræðu eða riti. Ísland varð fyrirheitna landið í augum samkynhneigðra flóttamanna sem flykktust hingað í fordómaleysið.
Þessi skyndilega breyting kom mörgum á óvart og kannski mest samkynhneigðum. Þeir voru á einni nóttu komnir inn í samfélagið en þurftu ekki lengur að hýrast utan dyra og berjast fyrir tilvist sinni. Kannski varð þetta til þess að menn virtust glata eigin sjálfi þegar samfélagið fór að koma fram við þá eins og aðra. Sumir misstu jafnvel píslarvættið sem fylgir því að vera ofsóttur minnihlutahópur. Eðlilegt líf reyndist vera fremur leiðinlegt þegar öllu var á botninn hvolft.
„Kannski varð þetta til þess að menn virtust glata eigin sjálfi þegar samfélagið fór að koma fram við þá eins og aðra.“
Ég man eftir tveimur samkynhneigðum konum sem komu heim frá Danmörku. Önnur var þunguð af barni þeirra og nú lá leiðin í mæðraeftirlit Landspítalans. Þær voru sannfærðar um að nú hæfist mikil píslarganga þar sem þær yrðu ofsóttar af fordómafullum ljósmæðrum. Þær fóru í fyrsta tímann með upptökutæki enda ætluðu þær að safna gögnum um ofsóknirnar og eineltið. Þær bjuggu sig undir harða baráttu við kerfið fyrir tilvist litla ófædda barnsins síns. Raunin varð önnur þeim báðum til furðu. Allir tóku þeim með kostum og kynjum og þær fundu einungis velvild og ánægju starfsfólksins. Þetta var gleðilegt en olli jafnframt smá vonbrigðum. Þær fengu ekki að takast á við fordóma umhverfisins heldur voru kæfðar í almennilegheitum. Baráttan koðnaði niður í fæðingu og þær urðu bara eins og hverjir aðrir verðandi foreldrar.
Er þetta kannski tilvistarvandi hópsins? Ekkert að berjast fyrir lengur. Vantar ef til vill góðan andstæðing til að gefa lífi sínu og baráttu gildi? Reyndar fundu menn í fyrra aldurhniginn sjóara og tónlistarmann sem hafði uppi fordómafull ummæli um gleðigönguna. Að sjálfsögðu var hann úthrópaður af öllu samfélaginu og þjóðin hætti að hlusta á söngva hans um sól og sumaryl og Gölla Valdason. Baráttan gegn honum varð að engu vegna almennrar samstöðu þjóðarinnar við málstaðinn.
Enn er leitað að verðugum andstæðingi til að staðfesta að ofsóknir eigi sér enn stað. Nú telja menn sig hafa fundið hann í þjóðkirkjuprestinum sem á eftir að neita að gefa saman samkynhneigð pör af trúarástæðum. Hann hefur reyndar ekki komið fram ennþá en leitin stendur yfir. Mikið er búið að skrifa um þennan ímyndaða mann og hneykslast á honum. Menn klæjar í puttana að draga hann fyrir dóm og fá hann hengdan upp í fjölmiðlum. Í þessu samhengi er svo hægt að tengja hann við Þjóðkirkjuna og djöflast í biskupum hennar og prestum þótt þeir vilji allt fyrir samkynhneigða gera. Ef enginn verðugur andstæðingur er fyrir hendi er þá ekki best að búa hann til?
Megas yrkir í kvæðinu Styrjaldarminni um manninn sem saknar stríðsins vegna þess að það gaf lífi hans gildi. Lokaerindið hljómar svo:
Já, öll þessi grimmd hún gat af sér velsæld mín
og góðærið mesta
en mér er samt þungt um mál á þessari stundu
því ég missti af því besta.
Þetta lýsir ágætlega tilvistarkreppu sumra. Þeir misstu af baráttunni, spennunni, ofsóknunum, píslarvættinu og stemmingunni. „Nú erum við ósköp venjuleg og misstum af því besta. Það er eiginlega ömurlegt hlutskipti.“ Vonandi birtist þessi þjóðkirkjuprestur svo að ekki þurfi lengur að slást við vindmyllur og uppvakninga. Er ekki skárra að vera ofsóttur en skelfilega venjulegur?
Athugasemdir