Föstudaginn 14. apríl 1916 var haldinn fundur í herráði rússneska hersins er aðsetur hafði í borginni Mogilev, sem nú tilheyrir Hvíta-Rússlandi. Viðstaddir voru Nikulás keisari II, sem hafði árið áður tekið sér æðsta vald yfir rússneska hernum, Mikhaíl Alexeév, yfirmaður herráðsins, og svo helstu hershöfðingjar ríkisins á víglínunni gegn Þýskalandi og Austurríki-Ungverjalandi. Á dagskrá var að taka ákvarðanir um stríðsreksturinn á komandi sumri og einkum hvernig skyldi svara stöðugum beiðnum Frakka um að rússneski herinn hæfi nýja sókn til að lina þjáningar franska hersins við Verdun.
Fyrri heimsstyrjöldin hafði brotist út sumarið 1914. Rússneska keisaradæmið var í bandalagi við Breta og Frakka gegn Þjóðverjum og Austurríkismönnum, hinum svonefndu Miðveldum, en þrátt fyrir gríðarlega fjölmennt herlið höfðu Rússar fyrstu árin aðallega farið miklar hrakfarir á austurvígstöðvum stríðsins. Í landinu var enn við lýði hin trénaða einræðisstjórn keisarans er lagði sína dauðu hönd yfir allt samfélagið og þar á meðal stríðsreksturinn. Óhæfir hershöfðingjar, sem höfðu hlotið embætti sín gegnum klíku, réðu ekkert við störf sín og síðsumars 1915 höfðu Rússar þurft að hörfa langar leiðir út úr Póllandi frá Eystrasaltslöndunum og inn á slétturnar sem þar nú eru Hvíta-Rússland og Úkraína. Þetta kostaði Rússa hálfa milljón mannslífa auk þess sem milljón hermenn voru teknir til fanga.
Sífelldir ósigrar, óhæf stjórnun, ömurlegur aðbúnaður og úrelt hergögn voru óðum að draga allan mátt úr rússneska hernum. Nikulás keisari var hins vegar of heimskur til að koma auga á hvílík hætta var á ferðum og því voru enn engar umbætur hafnar.
Þrýstingi létt af Frökkum
Hinn 21. febrúar 1916 hófst svo sókn Þjóðverja við Verdun sem ætlað var að rjúfa þráteflið í skotgröfunum á vesturvígstöðvunum. Frökkum leist ekki á blikuna og báðu um aðstoð frá Rússum. Þeir skyldu hefja sókn á austurvígstöðvunum sem myndi neyða Þjóðverja til að flytja lið frá Verdun og austur á bóginn.
Alexeév herráðsforingi skipulagði nú sókn við Narokh-vatn í Hvíta-Rússlandi og undir forystu Alexei Evert hershöfðingja hófst sú sókn 18. mars.
Allt fór í handaskolum þótt Rússar hefðu nærri fjórum sinnum meira lið við Narokh-vatn en Þjóðverjar. Sóknin var mjög illa undirbúin og Evert hafði ekki upp á annað að bjóða en senda tugþúsundir vanbúinna dáta út í opinn dauðann gegn vel vörðum vélbyssuhreiðrum Þjóðverja. Ekki bætti hráslagalegt veður úr skák. Þegar sóknin var loks stöðvuð 30. mars höfðu Rússar misst 100 þúsund manns, ekkert land unnið og enginn þýskur hermaður hafði verið kallaður frá Verdun.
Mórallinn í hernum og í samfélaginu öllu var hins vegar farinn að nálgast frostmark. Liðhlaup jókst og alls konar byltingarmenn náðu sífellt betur eyrum bæði hermanna og almennings.
Þá var sem sé haldinn fundurinn í Mogilev um miðjan apríl. Alexeév herráðsforingi kynnti þar áætlanir um nýja sóknEverts í Hvíta-Rússlandi í átt að Eystrasaltslöndunum. Hann viðurkenndi að standið á hernum væri ekki best en Rússar hefðu skuldbundið sig til að hjálpa Frökkum og við það yrði að standa. Evert og aðrir yfirmenn hersins norðan til á víglínunni mölduðu í móinn, kváðust engan veginn reiðubúnir til sóknar en féllust að lokum á að gera tilraun eftir nokkra mánuði, þegar fjölgað hefði verið í liði þeirra og hergögn verið endurnýjuð. Enginn trúði því þó í raun að hin væntanlega sókn myndi skila árangri. Nikulás keisari lagði ekkert til málanna frekar en venjulega, þótt hann ætti að heita æðsti yfirmaður hersins.
Afi barðist gegn Napóleon
En þá ræskti sig og reis á fætur við fundarborðið nýr yfirmaður rússneska herliðsins í suðri, það er að segja í Úkraínu. Hann hafði verið skipaður í embætti sitt aðeins tveimur vikum fyrr en var þó enginn nýgræðingur við herstjórn, 62ja ára gamall riddaraliðsforingi, Alexei Brúsilov að nafni. Hann mun hafa snúið örlítið upp á vel snyrt yfirskeggið og litið yfir félaga sína við herráðsborðið áður en hann tók til máls.
Og það sem hann hafði fram að færa hefði getað breytt gangi veraldarsögunnar.
Brúsilov var í föðurætt af miklum hermannaættum. Hinn fyrsti Brúsilov barðist í herjum Péturs mikla og afi Alexeis tók þátt í vörn Rússa gegn Napóleon 1812. Sjálfur fæddist hann í Tblisi í Georgíu 1853 þar sem faðir hans var hershöfðingi í rússneska hernum. Móðir Brúsilovs var hins vegar pólsk.
Í stríði Rússa við Tyrki 1877–1878 vakti Brúsilov athygli sem dugmikill og djarfur riddaraliðsforingi. Hann reis sífellt hærra í hernum næstu áratugi og reyndist heilmikill hugsuður í herfræðilegum málum. Brúsilov setti til dæmis fram kenningar um hreyfanlega og snögga sókn riddaraliðs sem má – að breyttu breytanda – kalla eina af rótum þeirrar sóknaaðgerða sem oftast eru kenndar við „leifurstríð“ Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld, þótt þeir hafi að sönnu beitt skriðdrekum en ekki hrossum eins og Brúsilov.
Brúsilov þarf að hörfa
Í byrjun fyrri heimsstyrjaldar gerðist það tvívegis að Brúsilov, sem stýrði þá 8da her Rússa, sótti langar leiðir inn á lendur Miðveldanna en varð svo að hörfa vegna ósigra Rússa annars staðar. Í seinna skipti var hann kominn alla leið inn á ungversku sléttuna og farinn að líta Búdapest hýru auga þegar hann varð að snúa til baka.
Brúsilov var hermannlegur maður í fasi en mjósleginn og kvikur og í augum hans blikaði gjarnan glettni og uppátækjasemi. Þá eiginleika sína reyndi hann þó að bæla niður, enda var beinlínis til þess ætlast að rússneskir herforingjar væru þungir, hátíðlegir og jafnvel drumbslegir í fasi til að sýna hve mikla ábyrgð þeir bæru, og hve hin eðlislæga varkárni rússneska herforingja væri þeim í blóð borin.
En þegar Brúsilov tók til máls í Mogilev var enga varkárni að finna í þeim hugmyndum sem hann lagði fram. Hann tók eindregið undir áætlanir Alexeévs herráðsforingja um sókn Everts inn í Hvíta-Rússland til að styðja Frakka, en fór fram á að fá sjálfur að sækja fyrst inn í Úkraínu, þar sem hann réði herjum. Þar hefðu Rússar yfirburði í liðsafla og það væri beinlínis fáránlegt að nýta sér það ekki. Með sókn í suðri myndu herir Brúsilovs riðla fylkingum Miðveldanna og að minnsta kosti hindra Þjóðverja og einkum Austurríkismenn í að senda liðsauka gegn væntanlegri sókn Everts í norðri. Ef hún yrði öflug og snörp gætu Rússar gert sér vonir um mikla landvinninga.
Keisarinn neitar að skipta sér af
Flestir viðstaddir hershöfðingjar í Mogilev furðuðu sig mjög á tilboði Brúsilovs um að sækja fram. Þeir skildu hreinlega ekki af hverju hann vildi taka þessa áhættu sjálfviljugur þegar hann gæti haft það huggulegt í góða veðrinu við Svartahaf meðan Evert baslaði við sóknartilburði í mýrarflákum Hvíta-Rússlands. Einn herforingjanna í Mogilev hristi höfuðið vorkunnsamur yfir fíflaskapnum í Brúsilov en annar bað Nikulás keisara í guðs bænum að leggja bann við þessari vitleysu. En Nikulás hefur ábyggilega verið að hugsa eitthvað annað og leiddi beiðnina hjá sér. Eftir nokkra umhugsun féllst Alexeév herráðsforingi á áætlun Brúsilovs en varaði hann um leið við – hann gæti ekki búist við neinum liðsauka annars staðar frá ef sókn hans tæki að renna út í sandinn.
En Brúsilov kvaðst ekki mundu þurfa á neinum liðsauka að halda. Hið eina sem hann fór fram á var að sókn Everts í norðri gengi samkvæmt áætlun. Og eftir að hafa verið fullvissaður um það gekk Brúsilov hnarreistur af fundi í Mogilev og hélt suður að undirbúa sókn sína.
Sókn Brúsilovs hófst 4. júní 1916 eftir vandaðan undirbúning og kænskulegan blekkingarleik Brúsilovs um hvað fyrir honum vakti í raun. Þrír rússneskir herir brutust í gegnum víglínu Austurríkismanna og sóttu fram tugi kílómetra. Austurríski herinn var brátt á hröðum flótta á nærri 400 kílómetra langri víglínu. Þessi hluti Brúsilov-sóknarinnar þótti svo meistaralega af hendi leystur, frá herfræðilegu sjónarmiði, að Brúsilov hefur æ síðan verið talinn einn af fáum hershöfðingjum fyrri heimsstyrjaldar sem sýndu umtalsverða hæfileika í sínu starfi. Flestir voru vissulega mjög flinkir í að fórna lífi manna sinna, en heldur slakir í að vinna raunverulega sigra.
Allt fer út um þúfur
Þann 9. júní varð Brúsilov hins vegar fyrir miklu áfalli. Þá var honum tjáð að sókn Everts – sem hafði átt að vera aðalsóknin í herferðinni – hefði verið frestað til 18. júní. Nú höfðu herir Brúsilovs brytjað niður austurríska herinn en voru sjálfir nokkuð að þrotum komnir, dreifðir um alla hina löngu víglínu og vistir og skotfæri mjög farin að minnka.
Þetta hafði Brúsilov auðvitað séð fyrir en hann hafði reiknað með að sókn Everts myndi nú létta af sér þrýstingnum, svo herir hans gætu kastað mæðinni og síðan látið kné fylgja kviði gegn Austurríkismönnum. En nú þegar Evert sat sem fastast fékk Erich Ludendorff, yfirforingi Þjóðverja, færi á að flytja mikið lið suður á bóginn til að verjast Brúsilov. Einnig voru í snatri fluttar 19 þýskar herdeildir frá Verdun og austur til Úkraínu. Þegar svo Evert hóf loks sókn, þá var hún fálmkennd, hikandi og fámenn, og varð ekkert ágengt.
Raunar var meiriparturinn af liði Everts fluttur suður til að styrkja hersveitir Brúsilovs sem þá höfðu staðnæmst í sókn sinni, en það var einmitt það sem Brúsilov hafði alls ekki viljað. Hann hafði einfaldlega ætlað sér að halda sjó þangað til hin öfluga sókn Everts brytist í gegn í norðri. Vegna þess hve járnbrautir og allt skipulag Þjóðverja stóðu framar því sem Rússar bjuggu yfir, þá varð liðsauki þeirra á undan liðsauka Rússa og óþreytt lið Þjóðverja sallaði nú niður heri Brúsilovs.
Næstmannskæðasta hernaðaraðgerð sögunnar
Sókn Brúsilovs var í raun endanlega lokið í byrjun ágúst. Rússar teljast vera sigurvegarar því þeir náðu þó nokkru landi og sigruðu Austurríkismenn svo rækilega að her þeirra síðarnefndu bar ekki framar sitt barr. Um 600.000 Austurríkismenn féllu og 300.000 Þjóðverjar. Og Rússar náðu líka vissulega að draga úr sóknarþunga Þjóðverja við Verdun. En af því rússneska herráðið báru ekki gæfu til að fylgja eftir sigrum Brúsilovs fyrstu dagana var mannfallið í liði þeirra líka orðið geypilegt þegar á leið. Erfitt er að segja til um hve margir Rússar féllu – þeir voru að minnsta kosti 500.000, kannski töluvert fleiri. Þetta eru auðvitað hræðilegar tölur og bak við hvern 1 tölustaf er mannslíf og fjölskylda. Aðeins Barbarossa-innrás Þjóðverja í Sovétríkin aldarfjórðungi síðar er talin mannskæðari og blóðugri af einstökum hernaðaraðgerðum sögunnar.
Við fréttir af hinum fyrstu sigrum Brúsilovs lyftist brúnin nokkuð á Rússum og mórallinn skánaði þegar sýnt þótti að herir þeirra gætu vissulega staðist Miðveldunum snúning og gott betur. En þegar fór að spyrjast hve ægilegt mannfallið var, þá sljákkaði aftur í Rússum og liðhlaup og byltingartal jókst enn í hersveitum keisarans. Allt það blóð sem Brúsilov-sóknin kostaði varð að lokum til þess að æ fleiri sannfærðust um gagnsleysi keisarastjórnarinnar og hersins sem hún hélt úti.
Hrunið hefði varla orðið algjört
En ef – hið stóra ef. Ef Evert hefði sótt fram af þeim þrótti sem honum var ætlað og ef Rússar hefðu þannig náð að knésetja ekki aðeins austurríska herinn, heldur hinn þýska líka, þá hefði hugsanlega endað öðruvísi en raun varð á. Glæstur rússneskur sigur sumarið 1916 hefði að vísu aldrei getað bjargað keisarastjórninni, hún var dauðadæmd undir öllum kringumstæðum. En líklegt verður hins vegar að telja að hið algjöra hrun Rússlands 1917 hefði þá ekki átt sér stað – og kommúnistar þar af leiðandi varla eða alls ekki náð að hrifsa til sín völdin.
Engin Sovétríki hefðu orðið til. Engin Stalín hefði klifið blóðugan hamarinn til valda. Og kannski hefði það líka þýtt að engir nasistar hefðu komist til valda í Þýskalandi, hver veit?
Á næstunni mun ég öðru hvoru fjalla í flækjusögum um hina sögulegu atburði í Rússlandi árið 1917. Og þá mun líka koma upp úr dúrnum hvað varð um þá félaga, Evert og Brúsilov.
Næstu grein er hér að finna.
Athugasemdir