Davíð Oddsson var í viðtali um helgina. Síðustu áratugi hefur það þótt vera frétt í sjálfu sér að Davíð komi í viðtal. Þeir fréttamenn sem fengu að taka viðtal urðu fyrir upphefð í sjálfu sér. Flestir fengu aldrei að tala við Davíð. Sumir fjölmiðlamenn eltust árum saman við að fá svör frá honum án árangurs.
Eftir hrun hætti hann eiginlega alveg að tala og þegar hann talaði sneri hann öllu á hvolf. Hann mætti í tvö almenn sjónvarpsviðtöl. Í öðru þeirra, í Kastljósinu hjá Sigmari Guðmundssyni í febrúar 2009, lét hann eiginlega verr en Sigmundur Davíð hjá Gísla Marteini.
„Þetta er nú ekki mjög fagleg umræða,“ sagði Davíð. Þegar Sigmar vísaði í vantraust á honum í Seðlabankanum, en skoðanakönnun sýndi að einungis 10 prósent treystu Davíð í starfi seðlabankastjóra og hópar mótmæltu í og við Seðlabankann, sagði Davíð: „Það er sagt að Seðlabankinn sé rúinn trausti. Það er afskaplega auðvelt aðsegja þetta. Ég get sagt aðþú sért rúinn trausti og sagt svo ekkert meira um það. Þú myndir örugglega segja af þér og hlaupa út er það ekki?“
„Ég get sagt að þú sért rúinn trausti“
Umræðan var komin yfir á spyrilinn og Sigmar þurfti að svara: „Ég gæti nú vísað í dálítið hatramma umræðu gagnvart Seðlabankanum og traustinu á honum. Þú gætir nú kannski ekki gert það sama um mig.“
Davíð hélt áfram að láta viðtalið snúast um spyrilinn: „Jú, jú, þú hefur oft verið gagnrýndur…“
Þörfin fyrir Davíð
Þetta var eitt af aðalsmerkjum Davíðs sem stjórnmálamanns, seðlabankastjóra og ritstjóra. Hann mótaði íslenska umræðu með því að ráðast að spyrlum og gagnrýnendum, nokkuð sem Sigmundur Davíð hefur tekið upp á sína arma að viðhalda.
Eftir viðtalið við Sigmar þagnaði Davíð. En hópi útgerðarmanna, sem fara með stóran hluta af helstu auðlind Íslendinga, þótti mikilvægt að Davíð gæti komið skilaboðum sínum á framfæri án milligöngu spyrils. Davíð mætti þó í tvö viðtöl hjá Sölva Tryggvasyni á Skjá einum, annað um Icesave-málið með Þorbirni Þórðarsyni af Morgunblaðinu í júlí 2009, og svo hitt af því tilefni að hann hafði verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins haustið 2009.
Umsnúningurinn
Í viðtalinu beitti Davíð sinni alkunnu áróðurstækni. Þar náði hann að snúa veruleikanum á hvolf þannig að það væri heiðarlegast af öllu að ráða fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem þess fyrir utan var vanhæfur í helstu þjóðfélagsmálum samtímans, sem ritstjóra yfir tveimur af stærstu fjölmiðlum landsins, vegna þess að hann væri flokksbundinn. Hins vegar væru fréttamenn Ríkisútvarpsins óheiðarlegir vegna þess að þeir dyldu flokkstengsl sín. „Mér finnst miklu heiðarlegra að vera með flokksskírteinið heldur en vera í hjarta sínu hlynntur flokki en vera heilagur maður því þú ert ekki með flokksskírteini … Það heyra það allir að fréttastofa Ríkisútvarpsins er höll undir Samfylkinguna þótt menn gangi ekki um með flokksskírteini þar. Ég bara hlusta og heyri það. Hefur þú ekki heyrt þetta?“ spurði hann. (Sjá gagnrýni hans sjálfs á Sigmar Guðmundsson fyrir að beita sömu aðferð í umræðunni).
Boðskapurinn
Davíð hefur síðan haldið áfram að dreifa þessum boðskap sínum til þjóðarinnar, að vissir aðilar séu spilltir með þessum eða hinum hætti í hinum öfuga veruleika flokksræðisins. Í leiðurunum hefur fréttamönnum Ríkisútvarpsins og öðrum þeim sem fylgja ekki stefnu Sjálfstæðisflokksins og útgerðarvaldsins hvergi verið hlíft. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, er „gluggaskraut“ og síðasta ríkisstjórn var lík ríkisstjórn Norður-Kóreu, svo eitthvað sé nefnt.
Síðar kom Davíð aftur í sjónvarpsviðtal, þá af því tilefni að Margret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafði látist, og svo þegar hann bar vitni fyrir Landsdómi.
En þau stórmerku tíðindi urðu um helgina að Davíð Oddsson kom aftur í viðtal. Að þessu sinni hjá grínþætti sem er birtur á mbl.is, sem Davíð ritstýrir.
Viðtalið
Spurningarnar létu ekki á sér standa. Þær má sjá í myndbandi undir fyrirsögninni Davíð Oddsson svarar þjóðinni, frá sautjándu mínútu.
„Þú hefur verið borgarstjóri, stýrðir borg, auðvitað með miklar krullur. Hvernig var tilfinningin?“ spurði spyrillinn, og Davíð svaraði því að krullurnar hefðu verið með ágætum.
Að mati Davíðs í viðtalinu var Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, mesti skúrkurinn. (Áður hafði hann sagt, í viðtalinu við Sölva árið 2009, að við bærum öll ábyrgð á hruninu). „Sammála,“ sagði spyrillinn.
„Lokaspurningin. Mig langar að fá svör. Og ég veit að þjóðin, hún vill líka svör. Honey Nut Cheerios eða venjulegt Cheerios?“
„Honey Nut Cheerios eða venjulegt Cheerios?“
„Ég var að vona að þú spyrðir um kornflex. Ég borðaði yfirleitt kornflex, áður en ég fór að byrja hafragraut,“ svaraði Davíð.
Svo hélt hann áfram að skrifa leiðara og staksteina fyrir þjóðina.
Athugasemdir