Ég sat á biðstofu í næst besta heilbrigðiskerfi heims og las ummæli við grein um að Árni Finnsson, formaður Náttúruverndasamtaka Íslands, teldi það í raun óæskilegt að Costco lækkaði bensínverð á Íslandi, þegar maðurinn við hliðina á mér kommentaði í raunheimum. „Bara fokk jú,“ sagði hann við konuna sína. „Hann segir að það sé slæmt að við borgum lægra bensínverð. Út af umhverfinu,“ bætti hann við til útskýringar.
„KEMUR ÞETTA ROPHÆNSNI, HELD HANN ÆTTI AÐ HAFA VIT Á AÐ HALDA KJAFTI, ÞAÐ HLUSTAR ENGINN Á ÞENNAN HÁSA BJÁNA,“ ritaði annar maður undir greinina á Vísi. Starfsmaður í álveri kommentaði um „tuð“ yfir mengun frá bílum, sölumaður búsáhalda úrskurðaði Árna inn á stofnun, annar vildi senda hann úr landi fjarri öðrum Íslendingum og enn einn vildi gefa honum pillu við „svartsýnistuði“. Sem er kannski viðeigandi hjá þjóð sem er óskoraður heimsmeistari í geðlyfjanotkun. Sem er auðvitað frábært!
Björgunarsveitir kallaðar út
Til þess að allt gengi vel fyrir sig höfðu björgunarsveitir verið kallaðar út vegna opnunar Costco. Ígildi náttúruhamfara í aðsigi. Manngerðar hamfarir.
„Þjóð mín er snarklikkuð, ef einhver skyldi ekki hafa vitað það,“ tísti skordýrafræðingur.
Íslendingurinn Ragnar Bárðarson skráði sig í Íslandssögubækurnar þegar hann gerði fyrstu kaupin í Costco á Íslandi. Hann keypti hnetur. Viðeigandi. Þið vitið, nuts.
Eftir mikið upptromm kom í ljós að röðin í Costco var einn maður. Stak. Það þarf að kalla til heimspeking til að skera úr um hvernig stakur maður getur verið röð.
Sjokkið
Kvöldið áður var skelfileg hryðjuverkaárás í Manchester. Fréttin með fyrirsögninni „Ég er bara í sjokki“ á forsíðu mbl.is fjallaði um upplifun íslenskrar konu. Af verðlaginu í Costco í Garðabæ.
„Ertu að kaupa meira heldur en þú ætlaðir þér að gera?“ spurði fréttamaður RÚV góða konu. „Já,“ svaraði hún, afsakandi. „Það er bara að hafa gaman.“
Þetta er það sem þetta snýst um. Lífið. Að hafa gaman, og neyta. Játa, ekki neita. Jákvæðni, ekki neikvæðni.
Í morgun drukknuðu tuttugu flóttamenn í svartsýniskasti í Miðjarðarhafinu, þar af ung börn, en Ariana Grande var ekki að syngja og enginn sagði neitt.
Magnsamfélagið og gæðasamfélagið
Costco snýst í einföldu máli um að selja mjög mikið magn af vöru á sem lægstu verði. Eins og súperdósin sáluga, bara stærri. Costco er tveggja lítra kókdós.
Í þessu kristallast tveir helstu mælikvarðar fyrirtækjareksturs. Magn eða gæði. En þetta snýst líka um tvær hliðar samfélagsins.
Í magnsamfélaginu er neyslan hámörkuð. Þú þarft að keyra langt, eyða miklu bensíni og þarft lágt verð. Þú borðar mikið. Inntaka er hamingja. Þörfin er meiri.
Borgarskipulag magnsamfélagsins er eins og í Bandaríkjunum. Hannað fyrir bíla. Þú býrð í einu hverfi, vinnur í öðru og verslar í matinn í allt öðru. Þannig var Reykjavík líka skipulögð. Við þurfum margar akreinar, stór umferðarmannvirki og höfum mest af öllu þörf fyrir lágt vöruverð. Costco er holdgervingur magnsamfélagsins og það er ekki tilviljun að þar sé boðið upp á lægsta bensínverðið, því mikil bensínneysla er samtvinnuð þessu lífs- og byggðamynstri.
Gæðasamfélagið gengur út á að minnka neysluna og binda hana við gæði. Þú borgar aðeins meira fyrir inntekið magn. Lífsstíll gæðasamfélagsins er sjálfbærari, fyrir utan þegar yfirlýstir meðlimir þess skilja eftir sig kolefnisfótspor á stærð við Ásbyrgi þegar þeir fara í utanlandsferðirnar sínar. Fólk býr í þéttbyggðari hverfum, verslar í smærri verslunum, jafnvel sérverslunum. Bílastæðin eru minni og færri, búðirnar fleiri. Walmart-væðing er andstæðan við það.
Minimalisminn getur verið hluti af gæðasamfélaginu, en snýst oft í reynd bara um að minnka magnið, inntökuna, eignastöðuna og lagerinn.
Oft eru árekstrar milli gæðasamfélagsins og magnsamfélagsins. Ef maður býr í úthverfi, til dæmis af því að fastgeignaverð er of hátt í þéttbyggðari hverfum, þar sem engin leið er að sækja vinnu nema á einkabíl, breytist orsakasamhengi lífsins. Neysla á bensíni verður lífsspursmál. Þrenging á akreinum verður árás. Costco verður frelsari.
Það er flókið að mæla gæðasamfélagið. Eins og það er erfitt að setja tölur á hamingju. Mælikvarði magnsamfélagsins er hagvöxtur. Því meira sem við kaupum og framleiðum, þess betur stöndum við okkur.
Og við stöndum okkur vel, út frá því. Vistspor Íslendinga er það stærsta í heiminum. Ef allir hegðuðu sér eins og Íslendingar þyrfti minnst sex jarðir til að rúma neysluna og framleiðsluna.
Bara fokk jú.
Við erum í neyslu
Það sem Árni Finnsson var að benda á er að við getum tekið sameiginlegar og persónulegar ákvarðanir sem bæta samfélagið okkar, vernda náttúruna og skaða aðra íbúa heimsbyggðarinnar minna. Eins og hann sagði í fréttinni sem hann var fordæmdur fyrir: „Ef stjórnvöld hefðu tekið á málum fyrir 2013 til 2014, sem sagt beina neytendum í átt að sparneytnari bílum þá væri aukningin í losun hér á Íslandi ekki eins mikil og raun ber vitni.“
Auðvitað er meiri hagkvæmni og lækkun vörurverðs almennt af hinu góða, þótt hliðarverkanir og heildarsamhengið geti leitt til ills. Og þótt við sóum þriðjungi allra matvæla sem eru framleidd. Og flytjum inn vörur fyrir hundrað milljarða króna á ári meira en við flytjum út.
Fólk sem kaupir tæplega metralangt Toblerone í Costco er kannski að sá fræjum sykursýki tvö og auka líkurnar á eigin ofneyslu. En ef það kaupir grænmeti beint af bónda og stundar daglega hreyfingu, til dæmis til og frá vinnu - því það er líklegra til að ganga en fastar ökuferðir í World Class til orkubrennslu - eru líkurnar á sjálfbærri heilsu meiri.
Eitt er ljóst að magnsamfélagið er að fara illa með okkur. Reykjavík er menguð eins og milljónaborg og börnin okkar eru þau næstfeitustu í Evrópu.
Costco getur haft ýmis góð áhrif. En vandamálið er að við erum á kafi í neyslu. Og í blússandi afneitun á ábyrgð okkar gagnvart umhverfinu, okkur sjálfum og öðrum.
Athugasemdir